Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig get ég eignast góða vini?

Hvernig get ég eignast góða vini?

KAFLI 8

Hvernig get ég eignast góða vini?

„Þegar ég er reið þarf ég að segja einhverjum hvernig mér líður. Þegar ég er döpur þarf ég á einhverjum að halda sem getur sagt mér að mér eigi eftir að líða betur. Þegar ég er glöð langar mig að geta sagt einhverjum frá því. Mér finnst alveg nauðsynlegt að eiga vini.“ – Brittany.

STUNDUM er sagt að börn þurfi að eiga leikfélaga en unglingar þurfi vini. Hver er munurinn?

Leikfélagi veitir manni félagskap.

Vinur hefur líka sömu gildi og maður sjálfur.

Biblían segir enn fremur: „Sannur vinur elskar alltaf og er sem bróðir á raunastund.“ (Orðskviðirnir 17:17) Það lýsir trúlega nánari vináttu en þeirri sem þú þekktir sem krakki.

Staðreynd: Þegar þú þroskast og verður smám saman fullorðinn þarftu að eiga vini sem …

1. hafa góða eiginleika.

2. lifa samkvæmt góðum mælikvarða.

3. hafa jákvæð áhrif á þig.

Spurning: Hvernig geturðu eignast vini sem þessi lýsing á við? Við skulum skoða nokkur atriði sem einkenna góða vini.

1. atriði – Góðir eiginleikar

Það sem þú ættir að vita. Ekki hafa allir, sem segjast vera vinir manns, það sem þarf til að vera sannur vinur. Í Biblíunni segir jafnvel að ,sumir vinir hiki ekki við að gera hver öðrum mein‘. (Orðskviðirnir 18:24) Þetta hljómar kannski illa en hugleiddu þetta: Hefur þú einhvern tíma átt „vin“ sem notfærði sér þig, baktalaði þig eða dreifði kjaftasögum um þig? Þú hættir að treysta vini þínum ef þú verður fyrir slíku. * Mundu alltaf að það er betra að eiga fáa góða vini en marga falska.

Það sem þú getur gert. Veldu þér vini sem hafa eiginleika sem eru þess virði að líkja eftir.

„Allir tala jákvætt um Fionu, vinkonu mína. Ég vil að það sé talað jafn vel um mig. Ég vil hafa gott mannorð eins og hún. Mér finnst það aðdáunarvert.“ – Yvette, 17 ára.

Reyndu þessa æfingu.

1. Lestu Galatabréfið 5:22, 23.

2. Spyrðu þig: Hafa vinir mínir þá eiginleika sem endurspegla ,ávöxt andans‘?

3. Skrifaðu á lista nöfn nánustu vina þinna. Við hvert nafn skaltu skrifa hvaða eiginleikar lýsa þeim best.

Nafn

․․․․․

Eiginleiki

․․․․․

Vísbending: Ef þér dettur bara í hug neikvæðir eiginleikar gæti verið kominn tími til að leita að betri vinum.

2. atriði – Góður mælikvarði

Það sem þú ættir að vita. Því örvæntingarfyllri sem þú ert að eignast vini þeim mun líklegri ertu til að sætta þig við slæman félagsskap. Í Biblíunni segir: „Illa fer fyrir þeim sem hefur félagsskap við heimskingja.“ (Orðskviðirnir 13:20) Með orðinu ,heimskingjar‘ er ekki átt við að fólk sé illa gefið, heldur lýsir það þeim sem hafna góðum leiðbeiningum og lifa óskynsamlega í siðferðilegum skilningi. Þú þarft ekki á slíkum vinum að halda.

Hvað geturðu gert? Vertu vandlátur þegar þú velur vini í stað þess að vingast við hvern sem er. (Sálmur 26:4) Það þýðir ekki að þú eigir að hafa fordóma. Í þessu samhengi þýðir það að vera vandlátur að þú sért nógu glöggur til að „sjá muninn á réttlátum og ranglátum, á þeim sem þjóna Guði og þeim sem þjóna honum ekki“. – Malakí 3:18, Biblían 2010.

„Ég er þakklátur fyrir að foreldrar mínir hjálpuðu mér að eignast vini – krakka á mínum aldri sem lifa samkvæmt mælikvarða Guðs.“ – Christopher, 13 ára.

Svaraðu eftirfarandi spurningum:

Er ég oft hræddur um að vinir mínir reyni að beita mig þrýstingi til að gera eitthvað sem ég veit að er rangt?

□ Já

□ Nei

Hika ég við að kynna vinina fyrir foreldrum mínum vegna þess að ég óttast að foreldrum mínum muni ekki líka við þá?

□ Já

□ Nei

Vísbending: Ef þú svaraðir spurningunum hér að ofan játandi skaltu leita að vinum sem hafa betra siðferði og eru til fyrirmyndar sem kristnir einstaklingar.

3. atriði – Jákvæð áhrif

Það sem þú ættir að vita. Í Biblíunni er sagt: „Vondur félagsskapur spillir góðum venjum.“ (1. Korintubréf 15:33) Lauren, sem er um tvítugt, segir: „Skólafélagar mínir viðurkenndu mig á meðan ég gerði eins og þeir sögðu. Ég var einmana svo ég ákvað að haga mér eins og þeir svo að ég fengi að vera með.“ Lauren komst að því að þegar maður lagar sig að kröfum eða siðferði annarra, verður maður eins og peð á skákborði sem þeir geta fært til eftir eigin geðþótta. Þú átt betra skilið.

Hvað geturðu gert? Slíttu tengslin við þá sem krefjast þess að þú lagir þig að þeirra lífsstíl. Ef þú gerir það, áttu kannski færri vini, en þér mun líða betur með sjálfan þig og þú opnar dyr fyrir betri vináttu – vináttu sem hefur jákvæð áhrif á þig. – Rómverjabréfið 12:2.

„Clint, sem er náinn vinur minn, er skynsamur og skilningsríkur. Hann hefur verið mjög hvetjandi fyrir mig.“ – Jason, 21 árs.

Spyrðu þig eftirfarandi spurninga:

Breyti ég því hvernig ég klæði mig, tala eða kem fram til að þóknast vinum mínum?

□ Já

□ Nei

Stend ég mig að því að fara með vinum mínum á vafasama staði sem ég færi annars ekki á?

□ Já

□ Nei

Vísbending: Ef þú svaraðir spurningunum hér að ofan játandi skaltu leita ráða hjá foreldrum þínum eða einhverjum fullorðnum og þroskuðum einstaklingi. Ef þú ert vottur Jehóva geturðu leitað til öldungs og beðið um aðstoð við að velja vini sem hafa betri áhrif á þig.

LESTU MEIRA UM ÞETTA EFNI Í 2. BINDI, KAFLA 9

[Neðanmáls]

^ Að sjálfsögðu gera allir mistök. (Rómverjabréfið 3:23) Mundu því þegar vinur særir þig en lætur síðan í ljós einlæga iðrun að „kærleikur hylur fjölda synda“. – 1. Pétursbréf 4:8.

LYKILRITNINGARSTAÐUR

„Til er vinur sem er tryggari en bróðir.“ – Orðskviðirnir 18:24.

RÁÐ

Fylgdu réttlátum mælikvarða og þá munu aðrir sem keppa að sama marki frekar verða á vegi þínum. Þeir eru bestu vinirnir.

VISSIR ÞÚ …?

Guð er ekki hlutdrægur en hann er mjög vandlátur þegar hann ákveður hverja hann býður velkomna í ,tjald sitt‘. – Sálmur 15:1–5.

HVAÐ ÆTLA ÉG AÐ GERA?

Til að eignast góða vini ætla ég að ․․․․․

Þeir sem eru eldri en ég og mig langar að kynnast betur eru til dæmis ․․․․․

Það sem mig langar að spyrja mömmu eða pabba um varðandi þetta er ․․․․․

HVAÐ FINNST ÞÉR?

• Hvaða eiginleika meturðu mest hjá vini og hvers vegna?

• Í hvaða eiginleika þarftu að vinna til að vera betri vinur?

[Innskot]

„Þegar foreldrar mínir hvöttu mig til að forðast ákveðinn félagsskap sagði ég við sjálfan mig að þetta væri eina fólkið sem ég vildi umgangast. En ráðleggingar foreldra minna voru góðar og þegar ég áttaði mig skildi ég að það er nóg af góðum félagsskap í boði.“ – Cole.

[Rammi]

Prófaðu þessar tillögur

Talaðu við foreldra þína um vináttu. Spyrðu þá hvernig vini þeir áttu þegar þeir voru á þínum aldri. Sjá þeir eftir einhverju í sambandi við val á félagsskap? Ef svo er, hvers vegna? Spyrðu þá hvernig þú getur forðast sum af þeim vandamálum sem þeir þurftu að glíma við.

Kynntu vini þína fyrir foreldrum þínum. Ef þú ert hikandi að gera það skaltu spyrja þig, Hvers vegna er ég það? Er eitthvað í fari vina þinna sem þú veist að foreldrar þínir myndu ekki samþykkja? Ef svo er gætirðu þurft að vera vandlátari þegar þú velur þér vini.

Hlustaðu vel. Sýndu áhuga á því hvernig vinum þínum líður. – Filippíbréfið 2:4.

Vertu fús til að fyrirgefa. Ekki vænta fullkomleika. „Við hrösum allir margsinnis.“ – Jakobsbréfið 3:2.

Ekki halda að þú þurfir alltaf að vera með vini þínum. Það er óþarfi að vera uppáþrengjandi. Sannir vinir eru til staðar þegar þú þarft á þeim að halda. – Prédikarinn 4:9, 10.

[Mynd]

Þegar maður lagar sig að kröfum eða siðferði annarra, verður maður eins og peð á skákborði sem þeir geta fært til eftir eigin geðþótta.