Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þú getur sigrað í baráttunni!

Þú getur sigrað í baráttunni!

Þú getur sigrað í baráttunni!

Það er kominn tími til að ,vera hugrakkur og hefjast handa‘. (1. Kroníkubók 28:10) Hvað geturðu frekar gert til að auka líkurnar á því að ná árangri?

Ákveddu dag. Heilbrigðis- og félagsmálaráðuneyti Bandaríkjanna mælir með því þegar maður hefur ákveðið að hætta að reykja að gera það innan tveggja vikna. Það eykur líkurnar á að það takist. Merktu dag á dagatalinu, segðu vinum þínum frá því og haltu þig við dagsetninguna jafnvel þótt aðstæður breytist.

Skrifaðu kort með hvatningarorðum. Þú gætir skrifað eftirfarandi upplýsingar á það ásamt hverju því sem hvetur þig til að hætta:

• Ástæðurnar sem þú hefur til að hætta.

• Símanúmer hjá fólki sem þú getur hringt í ef þér finnst þú vera að láta undan.

• Hugleiðingar sem geta hjálpað þér að ná markmiði þínu. Þær geta til dæmis verið biblíuvers eins og Galatabréfið 5:22, 23.

Vertu alltaf með kortið á þér og lestu það nokkrum sinnum á dag. Og jafnvel eftir að þú ert hættur að reykja skaltu halda áfram að líta á kortið hvenær sem þú finnur löngun til þess.

Brjóttu fyrir fram upp mynstrið. Áður en kemur að deginum sem þú ætlar að hætta að reykja skaltu byrja að brjóta upp mynstrið á venjum sem tengjast reykingum. Ef þú til dæmis byrjar daginn á því að fá þér sígarettu skaltu fresta því um klukkutíma eða svo. Ef þú ert vanur að reykja á meðan þú borðar eða strax eftir máltíð skaltu breyta því mynstri. Forðastu staði þar sem aðrir reykja. Og æfðu þig í einrúmi að segja upphátt: „Nei takk. Ég er hættur að reykja.“ Slíkur undirbúningur gerir meira en að búa þig undir daginn sem þú hættir. Hann minnir þig líka á að fljótlega verðurðu fyrrverandi reykingamaður.

Gerðu þig kláran. Eftir því sem dagurinn sem þú ætlar að hætta færist nær skaltu byrgja þig upp af einhverju sem þú getur fengið þér í staðinn fyrir sígarettu: gulrætur, tyggjó, hnetur og þess háttar. Minntu vini þína og fjölskyldu á daginn sem þú ætlar að hætta og hvernig þeir geta stutt þig. Rétt fyrir daginn skaltu taka allt úr umferð sem truflar ákvörðun þína, eins og öskubakka, kveikjara og sígarettur á heimilinu, í bílnum, vösum á fötunum þínum og á vinnustaðnum. Það er erfiðara að biðja vin um sígarettu eða kaupa pakka en að teygja sig í skúffu til að ná sér í eina. Biddu líka Guð um stuðning og gerðu það af enn meiri einlægni eftir að þú hefur reykt síðustu sígarettuna. – Lúkas 11:13.

Fjöldi fólks hefur slitið sambandið við þennan falska, grimma vin, sígarettuna. Þú getur það líka. Betri heilsa og dásamleg frelsistilfinning bíða þín.

[Mynd]

Taktu hvatningarkortið þitt alltaf með þér og lestu það oft yfir daginn.