Hoppa beint í efnið

Biblían breytir lífi fólks

Biblían breytir lífi fólks

Biblían breytir lífi fólks

HVAÐ fannst manni frá Skotlandi vera meira gefandi en velgengni í viðskiptageiranum? Hvað hjálpaði manni í Brasilíu að segja skilið við siðlausan lífsstíl og hætta að reykja krakk? Hvernig tókst manni í Slóveníu að sigrast á ofdrykkju? Lesum frásögur þeirra.

„Líf mitt virtist gott.“ – JOHN RICKETTS

FÆÐINGARÁR: 1958

FÖÐURLAND: SKOTLAND

FORSAGA: ÁRANGURSRÍKUR VIÐSKIPTAMAÐUR

FORTÍÐ MÍN: Ég átti góð uppvaxtarár. Pabbi minn var liðsforingi í breska hernum svo að við fjölskyldan fluttumst oft. Fyrir utan Skotland bjuggum við á Englandi, í Þýskalandi, í Kenía, í Malasíu, á Írlandi og á Kýpur. Frá því að ég var átta ára sótti ég heimavistarskóla í Skotlandi. Að lokum útskrifaðist ég úr Cambridge-háskólanum.

Þegar ég var tvítugur hóf ég átta ára feril í olíubransanum. Til að byrja með vann ég í Suður-Ameríku, seinna í Afríku og að lokum í vesturhluta Ástralíu. Eftir að ég flutti til Ástralíu stofnaði ég fjárfestingarfélag sem ég seldi síðan.

Hagnaður sölunnar gerði mér kleift að hætta störfum fertugur. Ég nýtti tímann í ferðalög. Ég ferðaðist tvistvar sinnum á mótorhjóli hringinn í kringum Ástralíu og fór í heimsreisu. Líf mitt vistist gott.

HVERNIG BIBLÍAN BREYTTI LÍFI MÍNU: Jafnvel áður en ég hætti störfum langaði mig að finna leið til að þakka Guði fyrir lífið sem ég naut. Ég byrjaði að sækja biskupakirkjuna, en ég var vanur að sækja kirkju þar sem barn. En kirkjan lagði ekki mikið upp úr því að gefa leiðbeiningar frá Biblíunni. Þá fór ég að kynna mér trú mormóna en ég missti áhugann vegna þess að þeir reiddu sig ekki á Biblíuna.

Dag einn bönkuðu vottar Jehóva upp á hjá mér. Ég sá strax að þeir byggja kenningar sínar algerlega á Biblíunni. Einn ritningarstaður sem þeir sýndu mér var 1. Tímóteusarbréf 2:3, 4. Í þessum versum segir að það sé vilji Guðs að „alls konar fólk bjargist og fái nákvæma þekkingu á sannleikanum“. Ég var hrifinn af því að vottarnir lögðu ekki bara áherslu á þekkingu heldur nákvæma þekkingu byggða á Biblíunni.

Að rannsaka Biblíuna með hjálp votta Jehóva gerði mér kleift að afla mér þessarar nákvæmu þekkingar. Ég lærði til dæmis að Guð og Jesús tilheyra ekki einhverri dularfullri þrenningu heldur eru þeir tveir aðgreindir einstaklingar. (Jóhannes 14:28; 1. Korintubréf 11:3) Ég gladdist yfir að læra þennan einfalda sannleik. Ég var líka pirraður yfir því að hafa eytt svo miklum tíma í að reyna að skilja það sem er óskiljanlegt.

Ég byrjaði fljótt að sækja samkomur Votta Jehóva. Ég átti ekki orð yfir það hve vingjarnlegir allir voru og þeim háa siðferðismælikvarða sem þeir fylgdu – þeir virtust næstum heilagir. Einlægur kærleikur þeirra sannfærði mig um að ég hefði fundið hina sönnu trú. – Jóhannes 13:35.

HVERNIG ÞAÐ HEFUR VERIÐ MÉR TIL GÓÐS: Eftir að ég skírðist kynntist ég yndislegri konu sem heitir Diane. Hún hafði alist upp sem vottur Jehóva og hafði til að bera marga góða eiginleika sem heilluðu mig. Við giftum okkur. Vinátta og stuðningur Diane hefur reynst sönn blessun frá Jehóva.

Okkur Diane langaði mikið til að flytjast þangað sem meiri þörf var á boðberum fagnaðarboðskaparins. Árið 2010 fluttumst við til Belís í Mið-Ameríku. Hér boðum við trúna fyrir fólki sem elskar Guð og þyrstir í biblíuþekkingu.

Það veitir mér hugarró að þekkja loksins sannleikann um Guð og orð hans, Biblíuna. Ég boða trúna í fullu starfi og hef notið þeirrar gleði að hjálpa mörgum að kynnast Biblíunni. Það jafnast ekkert á við það að sjá sannleika Biblíunnar bæta líf einhvers, rétt eins og hann bætti líf mitt. Loksins hef ég fundið bestu leiðina til að þakka Guði fyrir lífið.

„Þeir voru mjög vingjarnlegir við mig.“ – MAURÍCIO ARAÚJO

FÆÐINGARÁR: 1967

FÖÐURLAND: BRASILÍA

FORSAGA: SIÐLAUS LÍFSSTÍLL

FORTÍÐ MÍN: Ég ólst upp í Avaré, rólegum litlum bæ í São Paulo-fylki. Íbúarnir þar tilheyra flestir verkalýðsstéttinni.

Faðir minn lést þegar mamma var ófrísk af mér. Þegar ég var ungur drengur klæddi ég mig í fötin hennar mömmu þegar hún var ekki heima. Ég tileinkaði mér kvenlega takta og fólk fór að líta á mig sem samkynhneigðan. Með tímanum fór ég að stunda kynlíf með öðrum strákum og körlum.

Á efri unglingsárum var ég farinn að leita mér af bólfélögum (bæði karlkyns og kvenkyns) hvar sem var – á krám, næturklúbbum og jafnvel í kirkjum. Á kjötkveðjuhátíðinni klæddi ég mig eins og kona og dansaði sömbu í skrúðgöngum. Ég var mjög vinsæll.

Meðal vina minna voru samkynhneigðir, vændiskonur og eiturlyfjafíklar. Nokkrir þeirra fengu mig til að prófa að reykja krakk og ég varð fljótt háður því. Stundum reyktum við alla nóttina. Og stundum einangraði ég mig og eyddi heilum degi í að reykja. Ég varð svo horaður að það dreifðist kjaftasaga um að ég væri með alnæmi.

HVERNIG BIBLÍAN BREYTTI LÍFI MÍNU: Um þetta leyti komst ég í samband við votta Jehóva. Þeir voru mjög vingjarnlegir við mig. Eitt biblíuversanna sem þeir lásu fyrir mig var Rómverjabréfið 10:13 sem segir: „Allir sem ákalla nafn Jehóva bjargast.“ Þetta fékk mig til að skilja mikilvægi þess að nota nafn Jehóva. Oft eftir að hafa eytt allri nóttinni í að reykja krakk opnaði ég gluggann, horfði til himins og grátbað Jehóva að hjálpa mér.

Það þjáði mömmu að horfa upp á mig eyðileggja mig með eiturlyfjanotkun og ég hafði áhyggjur af henni. Ég ákvað því að hætta að neyta þeirra. Stuttu seinna þáði ég boð vottanna um biblíunámskeið. Þeir fullvissuðu mig um að námið myndi styrkja ásetning minn um að hætta að neyta fíkniefna – og það gerði það.

Ég hélt áfram að kynna mér Biblíuna og komst að því að ég þyrfti að gera breytingar á líferni mínu. Það tók sérstaklega á að hætta samkynhneigðu líferni vegna þess að ég hafði stundað það frá því að ég mundi eftir mér. Eitt af því sem hjálpaði mér við það var að skipta um umhverfi. Ég sagði skilið við gömlu vinina og hætti að fara á krár og næturklúbba.

Það var ekki auðvelt að gera þessar breytingar en það hughreysti mig að vita að Jehóva er annt um mig og að hann skilur baráttu mína. (1. Jóhannesarbréf 3:19, 20) Árið 2002 var ég alveg hættur að lifa samkynhneigðu líferni og það ár skírðist ég sem vottur Jehóva.

HVERNIG ÞAÐ HEFUR VERIÐ MÉR TIL GÓÐS: Breytingarnar sem ég gerði höfðu svo sterk áhrif á mömmu að hún fór líka að kynna sér Biblíuna. Því miður hefur hún síðan þá fengið heilablóðfall. En kærleikur hennar til Jehóva og til sannleika Biblíunnar heldur samt áfram að vaxa.

Síðustu átta ár hef ég þjónað Jehóva í fullu starfi og notað mest af tíma mínum í að fræða aðra um sannleika Biblíunnar. Ég verð að viðurkenna að stundum hef ég þurft ég að berjast við rangar langanir. En það veitir mér kjark að vita að ég get glatt Jehóva með því að ákveða að láta ekki undan þessum löngunum.

Það hefur aukið sjálfsvirðingu mína að nálgast Jehóva og lifa á þann hátt sem þóknast honum. Ég er hamingjusamur.

,Ég var botnlaus tunna.‘ – LUKA ŠUC

FÆÐINGARÁR: 1975

FÖÐURLAND: SLÓVENÍA

FORSAGA: OFDRYKKJUMAÐUR

FORTÍÐ MÍN: Ég fæddist í Ljubljana, höfuðborg Slóveníu. Ég átti góða barnæsku fram að fjögurra ára aldri. Þá tók pabbi líf sitt. Eftir þennan harmleik þurfti mamma að vinna mikið til að sjá tveim ört vaxandi strákum farborða, mér og eldri bróður mínum.

Ég var 15 ára þegar ég flutti til ömmu minnar. Ég var ánægður að búa hjá henni því að margir vina minna bjuggu í hverfinu hennar. Ég hafði líka meira frelsi þar en heima. Þegar ég var 16 ára byrjaði ég að umgangast fólk sem drakk um helgar. Ég lét hárið vaxa, fór að klæða mig uppreisnarlega og byrjaði svo að reykja.

Ég fiktaði við ýmis eiturlyf en hélt mér aðallega við drykkjuna því mér fannst það skemmtilegast. Fljótlega var ég ekki lengur að drekka nokkur vínglös heldur meira en heila flösku í einu. Ég varð snillingur í því að fela hversu drukkinn ég var. Oft var það bara áfengislyktin út úr mér sem gaf til kynna að ég hafði verið að drekka. En enginn hafði hugmynd um að ég var þá kannski búinn að hella í mig nokkrum lítrum af víni eða bjór – og þar að auki blanda því við vodka.

Ég var oft sá sem studdi vini mína og hjálpaði þeim að standa í lappirnar eftir nótt á diskótekinu þótt að öllum líkindum hafi ég verið búinn að drekka tvöfalt meira en þeir. Einn daginn heyrði ég út undan mér að vinur minn sagði að ég væri botnlaus tunna – en það er niðrandi orðatiltæki á slóvensku yfir þann sem getur drukkið meira en aðrir. Þetta særði mig djúpt.

Ég fór að velta fyrir mér hvernig ég notaði líf mitt. Það helltust yfir mig hugsanir um að ég væri einskis virði. Ekkert sem ég gerði virtist hafa tilgang.

HVERNIG BIBLÍAN BREYTTI LÍFI MÍNU: Um þetta leyti tók ég eftir að einn bekkjarfélaga minna hafði breyst. Hann var orðinn mildari. Ég var forvitinn um þessar breytingar svo ég bauð honum á kaffihús. Við spjölluðum saman og hann sagði mér að hann hefði byrjað að kynna sér Biblíuna með vottum Jehóva. Hann sagði mér frá sumu af því sem hann hafði lært en það var allt nýtt fyrir mér því ég hafði ekki alist upp á trúarlegu heimili. Ég byrjaði að sækja samkomur Votta Jehóva og kynna mér Biblíuna með hjálp þeirra.

Að rannsaka Biblíuna opnaði augu mín fyrir kraftmiklum og hvetjandi sannleika. Ég lærði til dæmis að við lifum á tíma sem Biblían kallar ,síðustu daga‘. (2. Tímóteusarbréf 3:1–5) Ég lærði líka að Guð muni brátt hreinsa vont fólk af jörðinni og gefa góðu fólki möguleika á að njóta eilífs lífs í paradís. (Sálmur 37:29) Ég fann til sterkrar löngunar til að gera breytingar á lífi mínu svo að ég gæti talist með þessu góða fólki.

Ég sagði vinum mínum frá sannindum Biblíunnar sem ég var að fræðast um. Flestir þeirra gerðu grín að mér en það reyndist vera lán í óláni. Viðbrögð þeirra hjálpuðu mér að sjá að þeir voru ekki sannir vinir. Ég gerði mér ljóst að drykkjuvandamálið sem ég glímdi við var nátengt vali mínu á vinum. Alla vikuna hlökkuðu þeir til helgarinnar svo að þeir gætu dottið í það aftur.

Ég sleit vináttunni við þá og fór í staðinn að umgangast uppbyggjandi félagsskap votta Jehóva. Félagsskapur þeirra var mjög hvetjandi – þetta var fólk sem elskaði Guð í einlægni og reyndi eftir bestu getu að fylgja meginreglum hans. Smám saman tókst mér að segja skilið við ofdrykkjuna.

HVERNIG ÞAÐ HEFUR VERIÐ MÉR TIL GÓÐS: Ég er Jehóva þakklátur að ég þarf ekki lengur áfengi til að finna til gleði. Ég veit ekki hvar ég hefði endað ef ég hefði haldið áfram fyrri lífsstíl mínum. En ég er sannfærður um að líf mitt er betra núna.

Síðustu sjö ár hef ég fengið að þjóna á deildarskrifstofu Votta Jehóva í Slóveníu. Að þekkja Jehóva og þjóna honum hefur gefið lífi mínu sannan tilgang.