Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Virðing og reisn undir vernd Guðs

Virðing og reisn undir vernd Guðs

ÞEGAR Jesús var á jörðinni endurspeglaði hann fullkomlega persónuleika föður síns á himnum og sýndi hvernig hann framkvæmir. Hann sagði: „Ég geri ekkert að eigin frumkvæði heldur tala það sem faðirinn kenndi mér … ég geri alltaf það sem hann hefur velþóknun á.“ (Jóhannes 8:28, 29; Kólossubréfið 1:15) Við getum því vitað hvernig Guð lítur á konur og hvaða væntingar hann gerir til þeirra með því að íhuga hvernig Jesús talaði og kom fram við þær.

Margir fræðimenn hafa viðurkennt, á grundvelli þess sem segir í guðspjöllunum, að viðhorf Jesú til kvenna hafi verið byltingarkennt. Hvernig var það öðruvísi? Og það sem skiptir meira máli, hafa kenningar hans enn frelsandi áhrif á konur nú á dögum?

Hvernig kom Jesús fram við konur?

Viðhorf Jesú til kvenna var siðferðilega hreint. Sumir trúarleiðtogar Gyðinga töldu að samband við hitt kynið gæti aðeins leitt til losta. Konur voru álitnar freisting og máttu því ekki tala við karla meðal almennings eða fara út án þess að hylja sig með blæju. Jesús sagði körlum hins vegar að hafa stjórn á holdlegum löngunum sínum og koma fram við konur af virðingu í stað þess að einangra þær frá öllum félagslegum tengslum. – Matteus 5:28.

Jesús sagði einnig: „Sá sem skilur við konu sína og kvænist annarri drýgir hór gegn henni.“ (Markús 10:11, 12, Biblían 2010) Þannig hafnaði hann rabbínakenningu sem var ríkjandi á þeim tíma og gaf mönnum leyfi til að skilja við konur sínar „fyrir hvaða sök sem er“. (Matteus 19:3, 9) Hugmyndin um að fremja hjúskaparbrot gegn konu sinni var framandi fyrir flesta Gyðinga. Rabbínar þeirra kenndu að eiginmenn gætu aldrei framið hjúskaparbrot gegn konu sinni – aðeins konan gat verið ótrú. Biblíuskýringarit segir um þetta: „Með því að leggja sömu siðferðiskvaðir á karla og konur upphóf Jesús stöðu og reisn kvenna.“

Hvaða áhrif hefur kennsla hans nú á dögum? Í söfnuði Votta Jehóva geta konur stundað tilbeiðslu og talað frjálslega við karla á samkomum. Þær þurfa ekki að óttast að horft sé á þær á ósæmilegan hátt eða þeim sýnd óviðeigandi athygli vegna þess að kristnir karlar koma fram við „rosknar konur sem mæður og yngri konur sem systur í öllum hreinleika“.1. Tímóteusarbréf 5:2.

Jesús tók sér tíma til að kenna konum. Ólíkt viðhorfi rabbína sem héldu konum í vanþekkingu kenndi Jesús þeim og hvatti þær til að tjá sig. Þegar Jesús neitaði að svipta Maríu þeirri gleði að læra sýndi hann að konur eiga ekki bara að vera í eldhúsinu. (Lúkas 10:38–42) Marta systir Maríu naut einnig góðs af kennslu hans og það sést á því hvernig hún svaraði Jesú skynsamlega eftir andlát Lasarusar. – Jóhannes 11:21–27.

Jesús hafði áhuga á áliti kvenna. Á dögum Jesú töldu flestar konur sem voru Gyðingar að lykillinn að hamingjunni væri að eiga heiðursverðan son, helst sem var spámáður. Þegar kona nokkur kallaði: „Hamingjusöm er sú móðir sem gekk með þig“ greip Jesús tækifærið til að segja henni frá einhverju betra. (Lúkas 11:27, 28) Með því að segja henni að það væri mikilvægara að hlýða Guði beindi Jesús henni að nokkru sem var æðra en hefðbundið hlutverk kvenna. – Jóhannes 8:32.

Hvaða áhrif hefur kennsla hans nú á dögum? Kennarar í kristna söfnuðinum taka vel svörum kvenna á safnaðarsamkomum. Þeir bera virðingu fyrir rosknum konum fyrir að „kenna það sem er gott“, bæði í einrúmi og með fordæmi sínu. (Títusarbréfið 2:3) Þeir reiða sig einnig á að konur boði fagnaðarboðskapinn um ríki Guðs. – Sálmur 68:11; sjá rammann „ Bannaði Páll postuli konum að tala?“ á blaðsíðu 9.

Jesú var annt um konur. Á biblíutímanum voru dætur ekki metnar jafn mikils og synir. Í Talmúðinum er talað um þetta viðhorf: „Sæll er sá sem á syni en vei þeim sem á dætur.“ Sumir foreldrar litu á stúlku sem meiri byrði – þeir þyrftu að finna handa henni mann og borga heimanmund og gætu ekki reitt sig á stuðning hennar í ellinni.

Jesús sýndi að líf lítillar stúlku væri jafn verðmætt og drengs – hann reisti dóttur Jaírusar upp frá dauðum og einnig son ekkjunnar í Nain. (Markús 5:35, 41, 42; Lúkas 7:11–15) Eftir að hafa læknað konu sem var „haldin illum anda og hafði verið veik af völdum hans í 18 ár“ kallaði Jesús hana ,dóttur Abrahams‘, en það er orðasamband sem er nánast óþekkt í ritum Gyðinga. (Lúkas 13:10–16) Með því að nota þetta virðulega og vingjarnlega orðasamband staðfesti hann að hún væri jafn mikilvæg og hver annar og viðurkenndi sterka trú hennar. – Lúkas 19:9; Galatabréfið 3:7.

Hvaða áhrif hefur kennsla hans nú á dögum? Asískt orðatiltæki segir: „Að ala upp dóttur er eins og að vökva garð nágrannans.“ Kristnir feður láta þetta hugarfar ekki hafa áhrif á sig heldur annast öll börn sín vel, bæði syni og dætur. Kristnir foreldrar ganga úr skugga um að öll börn þeirra fái viðeigandi menntun og heilbrigðisþjónustu.

Jesús veitti Maríu Magdalenu þann heiður að segja postulunum frá upprisu hans.

Jesús treysti konum. Í dómstólum Gyðinga var vitnisburður konu metinn jafn vitnisburði þræls. Jósefus, sagnaritari frá fyrstu öld, sagði: „Engin sönnunargögn frá konum skulu vera tekin gild vegna þess hve eðli þeirra er léttúðlegt og fljótfærnislegt.“

Þvert á móti þessu valdi Jesús konur til að bera vitni um upprisu hans. (Matteus 28:1, 8–10) Postulunum fannst erfitt að trúa því sem konurnar sögðu þrátt fyrir að þær höfðu verið sjónarvottar að aftöku og greftrun Drottins síns. (Matteus 27:55, 56, 61; Lúkas 24:10, 11) En með því að birtast fyrst konum sýndi hinn upprisni Kristur að þær væru jafn verðugar þess að bera vitni og hinir lærisveinarnir. – Postulasagan 1:8, 14.

Hvaða áhrif hefur kennsla hans nú á dögum? Í söfnuðum Votta Jehóva sýna karlar sem gegna ábyrgðarstörfum konum tillitssemi með því að taka til greina það sem þær segja. Kristnir eiginmenn sýna eiginkonum sínum virðingu með því að hlusta á þær af athygli. – 1. Pétursbréf 3:7; 1. Mósebók 21:12.

Meginreglur Biblíunnar stuðla að hamingju kvenna

Þeir sem fylgja meginreglum Biblíunnar bera virðingu fyrir konum.

Þegar karlar líkja eftir Jesú hljóta konur þá virðingu og frelsi sem Guð ætlaði þeim í upphafi. (1. Mósebók 1:27, 28) Kristnir eiginmenn sýna ekki karlrembu heldur fylgja meginreglum Biblíunnar og það stuðlar að hamingju eiginkvenna þeirra. – Efesusbréfið 5:28, 29.

Þegar Jelena byrjaði að kynna sér Biblíuna hafði hún þurft að þola slæma meðferð af hendi eiginmanns síns. Hann hafði alist upp í ofbeldisfullu umhverfi þar sem líkamlegt ofbeldi var algengt og karlar rændu oft konunum sem þeir vildu giftast. „Það sem ég lærði frá Biblíunni veitti mér styrk,“ segir Jelena. „Ég skildi að einhver elskaði mig heitt, mat mig mikils og lét sér annt um mig. Ég gerði mér líka grein fyrir því að ef eiginmaðurinn minn myndi kynna sér Biblíuna gæti það breytt framkomu hans við mig.“ Draumur hennar rættist þegar eiginmaður hennar þáði að lokum biblíunámskeið og lét síðan skírast sem vottur Jehóva. „Hann fór að sýna mikla sjálfstjórn,“ segir Jelena. „Við lærðum að fyrirgefa hvort öðru fúslega.“ Hún segir að lokum: „Meginreglur Biblíunnar hafa sannarlega hjálpað mér að finnast ég hafa hlutverk og vera vernduð í hjónabandi mínu.“ – Kólossubréfið 3:13, 18, 19.

Reynsla Jelenu er ekkert einsdæmi. Milljónir kristinna kvenna eru hamingjusamar vegna þess að þær og eiginmenn þeirra leggja sig fram um að fylgja meginreglum Biblíunnar í hjónabandinu. Þeim finnst gott og afslappandi að vera innan um trúsystkini sín því að þeim er sýnd virðing. – Jóhannes 13:34, 35.

Kristnir karlar og konur gera sér grein fyrir að sem syndugar og ófullkomnar manneskjur eru þau hluti af sköpun Guð sem þarf „að sæta því að lifa innantómu lífi“. En með því að nálgast kærleiksríkan Guð sinn og föður, Jehóva, eiga þau von um að vera „leyst úr þrælkun forgengileikans“ og upplifa „dýrlegt frelsi barna Guðs“. Þetta eru stórkostlegar framtíðarhorfur sem bæði karlar og konur undir vernd Guðs hafa. – Rómverjabréfið 8:20, 21.