6. KAFLI
Job er ráðvandur Guði
Satan véfengir ráðvendni Jobs frammi fyrir Jehóva Guði en Job er Guði trúr.
ÆTLI nokkur maður sé Guði trúr ef reynt er á hann til hins ýtrasta og það virðist enginn efnislegur ávinningur af því að vera hlýðinn? Þessi spurning var borin fram og henni svarað í tengslum við mann sem hét Job.
Meðan Ísraelsmenn eru í Egyptalandi býr Job, einn af ættingjum Abrahams, þar sem nú heitir Arabía. Nú gerist það að englar á himni ganga fram fyrir Guð og uppreisnarengillinn Satan er á meðal þeirra. Frammi fyrir þessum englahópi lýsir Jehóva yfir að hann treysti trúum þjóni sínum, Job. Hann segir að enginn maður sé jafn ráðvandur og hann. En Satan fullyrðir að Job þjóni Guði aðeins af því að Guð blessi hann og verndi. Hann staðhæfir að Job muni formæla Guði ef hann verður sviptur öllu sem hann á.
Satan fær leyfi til að svipta Job eigum hans, börnum og að síðustu heilsunni. Job veit ekki að Satan á hlut að máli og skilur ekki hvers vegna Guð lætur hann verða fyrir þessum þrengingum. En í öllu þessu snýr hann ekki baki við Guði.
Þrír falsvinir koma nú á fund Jobs. Þeir flytja langar ræður sem ná yfir margar blaðsíður í Jobsbók og reyna að sannfæra hann um að Guð sé að refsa honum fyrir leyndar syndir. Þeir fullyrða jafnvel að Guð treysti ekki þjónum sínum og hafi enga gleði af þeim. Job hafnar villandi röksemdum þeirra. Hann lýsir yfir með ákveðni að hann ætli að vera ráðvandur allt til dauða.
Job gerir hins vegar þau mistök að vera einum of upptekinn af að réttlæta sjálfan sig. Yngri maður, Elíhú að nafni, hefur hlustað á alla orðræðuna og kveður sér nú hljóðs. Hann ávítar Job fyrir að gleyma því að það sé miklu mikilvægara að verja drottinvald Jehóva Guðs en að réttlæta nokkurn mann. Sömuleiðis setur hann harðlega ofan í við falsvini Jobs.
Að síðustu talar Jehóva Guð til Jobs og leiðréttir hugsunarhátt hans. Hann bendir á mörg af undrum sköpunarverksins og sýnir Job fram á hve maðurinn sé smár í samanburði við mikilleik Guðs. Job tekur leiðréttingunni með auðmýkt. Þar sem Jehóva er „mjög miskunnsamur og líknsamur“ endurheimtir Job heilsuna og Jehóva gefur honum tíu börn og helmingi meiri auð en hann átti áður. (Jakobsbréfið 5:11) Með því að vera ráðvandur Guði í miklum prófraunum afsannar Job þá ásökun Satans að menn séu ekki trúir Guði ef á þá reyni.
— Byggt á Jobsbók.