Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

25. KAFLI

Leiðbeiningar um trú, hegðun og kærleika

Leiðbeiningar um trú, hegðun og kærleika

Jakob, Pétur, Jóhannes og Júdas skrifa bréf til að hvetja og uppörva trúsystkini.

JAKOB og Júdas voru hálfbræður Jesú. Pétur og Jóhannes voru úr hópi hinna 12 postula hans. Þessir fjórir menn skrifuðu alls sjö bréf sem er að finna í Nýja testamentinu. Bréfin eru nefnd eftir þeim sem skrifuðu þau. Í þessum bréfum er að finna innblásnar leiðbeiningar sem áttu að hjálpa kristnum mönnum að sýna Jehóva og ríki hans hollustu.

Sýnum trú. Það er ekki nóg að segjast bara trúa. Sönn trú birtist í verki. Jakob skrifar að trúin sé „dauð án verka“. (Jakobsbréfið 2:26) Trúfesti í prófraunum stuðlar að þolgæði. Kristinn maður þarf að biðja Guð að gefa sér visku og vera sannfærður um að hann fái bænheyrslu. Þolgæði aflar mönnum velþóknunar Guðs. (Jakobsbréfið 1:​2-6, 12) Guð kemur til móts við þann mann sem er ráðvandur og tilbiður hann í trú. „Nálægið ykkur Guði og þá mun hann nálgast ykkur,“ segir Jakob. — Jakobsbréfið 4:⁠8.

Kristinn maður þarf að hafa nógu sterka trú til að standast freistingar og siðlaus áhrif. Júdas hvatti trúsystkini sín til að ‚berjast fyrir trúnni‘ og ekki að ástæðulausu því að siðspilling var viðvarandi í umheiminum. — Júdasarbréfið 3.

Lifum hreinu lífi. Jehóva ætlast til þess að tilbiðjendur sínir séu heilagir, það er að segja hreinir að öllu leyti. Pétur skrifar: „Verðið heldur sjálf heilög í öllu dagfari . . . Ritað er: ‚Verið heilög því ég [Jehóva] er heilagur.‘“ (1. Pétursbréf 1:​15, 16) Kristnir menn eiga sér góða fyrirmynd. „Kristur leið ... fyrir ykkur og lét ykkur eftir fyrirmynd til þess að þið skylduð feta í fótspor hans,“ skrifar Pétur. (1. Pétursbréf 2:21) Kristnir menn varðveita „góða samvisku“ þó að þeir þurfi ef til vill að þjást vegna þess að þeir lifa eftir meginreglum Guðs. (1. Pétursbréf 3:​16, 17) Pétur hvetur trúsystkini sín til að lifa heilögu og guðrækilegu lífi á meðan þau bíða eftir dómsdegi Guðs og nýja heiminum „þar sem réttlæti býr“. — 2. Pétursbréf 3:​11-13.

„Nálægið ykkur Guði og þá mun hann nálgast ykkur.“ — Jakobsbréfið 4:⁠8.

Sýnum kærleika. „Guð er kærleikur,“ skrifar Jóhannes. Hann bendir á að Guð hafi sýnt mönnunum ómældan kærleika með því að senda Jesú til að vera „friðþæging fyrir syndir okkar“. Hvernig ættu kristnir menn að bregðast við því? Jóhannes svarar: „Þið elskuðu, fyrst Guð hefur elskað okkur svo mikið þá ber okkur einnig að elska hvert annað.“ (1. Jóhannesarbréf 4:​8-11) Við getum meðal annars sýnt slíkan kærleika með því að vera gestrisin við trúsystkini. — 3. Jóhannesarbréf 5-8.

En hvernig geta þjónar Jehóva sýnt að þeir elski hann? Jóhannes svarar: „Elskan til Guðs birtist í að við höldum boðorð hans. Og boðorð hans eru ekki þung.“ (1. Jóhannesarbréf 5:3; 2. Jóhannesarbréf 6) Þeir sem eru Guði hlýðnir geta treyst að hann elski þá og veiti þeim „eilíft líf“. — Júdasarbréfið 21.

— Byggt á Jakobsbréfinu, 1. Pétursbréfi, 2. Pétursbréfi, 1. Jóhannesarbréfi, 2. Jóhannesarbréfi, 3. Jóhannesarbréfi og Júdasarbréfinu.