Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

3. KAFLI

Mennirnir lifa af flóðið

Mennirnir lifa af flóðið

Guð eyðir illum heimi en bjargar Nóa og fjölskyldu hans.

ÞEGAR mönnunum fjölgaði breiddist illska og synd út um jörðina. Guð átti sér einn spámann, Enok, sem boðaði að Guð ætlaði að eyða óguðlegum mönnum. En illskan hélt áfram að magnast. Sumir af englunum gerðu uppreisn gegn Jehóva, yfirgáfu bústað sinn á himnum, komu fram í mannsmynd hér á jörð og tóku sér konur sem þeir girntust. Slík sambönd voru óeðlileg. Afkvæmin voru risar að vexti og juku með yfirgangi sínum á ofbeldi og blóðsúthellingar jarðarbúa. Það hryggði Guð að horfa upp á spillinguna á jörðinni.

Einn maður sker sig úr í spilltum heimi eftir að Enok er dáinn. Hann heitir Nói. Hann og fjölskylda hans reyna að gera það sem er rétt í augum Guðs. Þegar Guð ákveður að eyða óguðlegum mönnum þess tíma vill hann vernda Nóa og dýralíf jarðar. Hann segir því Nóa að smíða stóra, kassalaga örk. Í henni geta Nói og fjölskylda hans bjargast ásamt fjölmörgum dýrategundum þegar mikið flóð gengur yfir heiminn. Nói hlýðir Guði. Smíði arkarinnar tók nokkra áratugi og á meðan var Nói einnig ‚boðberi réttlætisins‘. (2. Pétursbréf 2:⁠5) Hann varar fólk við flóðinu en enginn hlustar. Loks rennur upp stundin að Nói og fjölskylda hans ganga í örkina ásamt dýrunum. Guð lokar dyrum arkarinnar á eftir þeim. Síðan tekur að rigna.

Það hellirignir í 40 daga og nætur uns öll jörðin er komin í kaf. Hinir óguðlegu eru horfnir. Margir mánuðir líða. Vatnið sjatnar og loks tekur örkin niðri á fjalli. Þegar farþegum arkarinnar er óhætt að yfirgefa hana eru þeir búnir að vera heilt ár um borð. Nói tjáir Jehóva þakklæti sitt með því að færa honum fórn. Jehóva lofar þá Nóa og fjölskyldu hans að hann muni aldrei framar afmá allt líf af jörðinni í flóði. Hann setur regnbogann sem sýnilega tryggingu til að minna á þetta traustvekjandi loforð.

Guð gaf mönnunum ýmis ný fyrirmæli eftir flóðið. Hann leyfði þeim að borða kjöt en bannaði þeim að leggja blóð sér til munns. Hann segir afkomendum Nóa að dreifa sér um jörðina en sumir þeirra óhlýðnast fyrirmælunum. Fólk sameinast undir stjórn leiðtoga sem heitir Nimrod og tekur að reisa mikinn turn í borginni Babel sem síðar er nefnd Babýlon. Þeir ætla sér að hunsa þau fyrirmæli Guðs að dreifa sér um jörðina. En Guð ónýtir áform uppreisnarmannanna með því að rugla sameiginlegt tungumál þeirra svo þeir fara að tala ólík tungumál. Þegar mennirnir skilja ekki lengur hver annan hætta þeir við verkið og dreifast.

— Byggt á 1. Mósebók 6. til 11. kafla og Júdasarbréfinu 14, 15.