Fyrsta Mósebók 19:1–38
19 Englarnir tveir komu til Sódómu um kvöldið. Lot sat í borgarhliðinu. Þegar hann sá þá stóð hann upp til að heilsa þeim, hneigði sig og laut höfði til jarðar.+
2 Síðan sagði hann: „Komið, herrar mínir, í hús þjóns ykkar, gistið þar í nótt og leyfið okkur að þvo fætur ykkar. Þið getið síðan vaknað snemma í fyrramálið og haldið ferð ykkar áfram.“ „Nei,“ svöruðu þeir, „við ætlum að sofa á torginu í nótt.“
3 Hann lagði hins vegar svo fast að þeim að þeir fóru með honum heim til hans. Hann útbjó handa þeim höfðinglega máltíð og bakaði ósýrt brauð, og þeir borðuðu.
4 Áður en þeir lögðust til svefns kom múgur manna og umkringdi húsið – allir mennirnir í Sódómu, ungir sem gamlir.
5 Þeir hrópuðu til Lots: „Hvar eru mennirnir sem komu til þín í kvöld? Komdu með þá út til okkar svo að við getum haft mök við þá.“+
6 Lot gekk þá út til þeirra, lokaði dyrunum á eftir sér
7 og sagði: „Ég bið ykkur, bræður mínir, fremjið ekki slíkt ódæði.
8 Ég á tvær dætur sem hafa ekki lagst með karlmanni. Ég skal leiða þær út til ykkar og þið getið gert við þær hvað sem ykkur sýnist. En látið mennina vera því að þeir eru gestir í húsi mínu og njóta verndar minnar.“*+
9 „Burt með þig!“ æptu þeir. „Hvernig vogar hann sér að dæma okkur! Hann sem flutti hingað sem útlendingur. Við munum fara verr með þig en þá.“ Síðan þrengdu þeir að Lot og ætluðu að brjóta upp dyrnar.
10 Mennirnir sem voru inni gripu þá í Lot, kipptu honum inn fyrir og lokuðu dyrunum.
11 En mennina fyrir utan dyrnar slógu þeir blindu, jafnt smáa sem stóra, og á endanum gáfust þeir upp á að reyna að finna dyrnar.
12 Mennirnir spurðu Lot: „Eru fleiri hér sem eru þér nákomnir? Tengdasynir, synir, dætur eða aðrir ættingjar? Farðu með þau burt héðan
13 því að við ætlum að eyða þessum stað. Jehóva hefur heyrt hin miklu óp gegn fólkinu.+ Jehóva hefur því sent okkur til að eyða borginni.“
14 Lot fór þá út og talaði við tengdasyni sína sem ætluðu að ganga að eiga dætur hans. Hann sagði ítrekað við þá: „Flýtið ykkur! Farið burt héðan því að Jehóva ætlar að eyða borginni!“ En tengdasynir hans héldu að hann væri að grínast.+
15 Í dögun ráku englarnir á eftir Lot og sögðu: „Drífðu þig nú, taktu konu þína og dætur þínar tvær sem eru hjá þér til að þú farist ekki vegna syndar borgarinnar.“+
16 En Lot var seinn á sér. Þá gripu mennirnir í hönd hans og hönd konu hans og dætranna tveggja þar sem Jehóva bar umhyggju fyrir honum,+ og leiddu hann út fyrir borgina.+
17 Þegar þeir höfðu leitt þau út sagði annar þeirra: „Forðið ykkur! Líf ykkar er í húfi! Lítið ekki um öxl+ og nemið hvergi staðar á sléttunni.+ Flýið til fjalla svo að þið týnið ekki lífi.“
18 Þá sagði Lot við þá: „Æ nei, Jehóva, ekki þangað!
19 Þú hefur verið þjóni þínum miskunnsamur og sýnt mér mikla góðvild* með því að láta mig* halda lífi+ en ég get ekki flúið til fjalla. Þar gæti ógæfa komið yfir mig og ég dáið!+
20 Það er lítill bær hérna rétt hjá sem ég gæti flúið til. Má ég ekki fara þangað? Hann er mjög lítill. Þá get ég haldið lífi.“
21 „Gott og vel,“ svaraði hann, „ég skal gera eins og þú biður um+ og ekki eyða bænum sem þú nefndir.+
22 Flýttu þér! Forðaðu þér þangað því að ég get ekkert gert fyrr en þú kemur þangað.“+ Þess vegna er borgin kölluð Sóar.*+
23 Sólin var risin yfir landið þegar Lot kom til Sóar.
24 Þá lét Jehóva rigna eldi og brennisteini yfir Sódómu og Gómorru. Það kom frá Jehóva af himni.+
25 Hann þurrkaði út þessar borgir og gereyddi allt sléttlendið ásamt öllum íbúum borganna og gróðri jarðar.+
26 En kona Lots, sem gekk fyrir aftan hann, leit um öxl og varð að saltstólpa.+
27 Snemma morguns fór Abraham þangað sem hann hafði staðið frammi fyrir Jehóva.+
28 Þegar hann horfði niður í átt að Sódómu og Gómorru og yfir allt sléttlendið blasti við honum óhugnanleg sjón. Þykkur reykur steig upp af landinu eins og úr brennsluofni.+
29 Þegar Guð eyddi borgunum á sléttlendinu hugsaði hann til Abrahams og leiddi Lot út úr borgunum sem hann lagði í eyði og Lot hafði búið í.+
30 Síðar meir fór Lot frá Sóar ásamt dætrum sínum tveim því að hann þorði ekki lengur að búa þar.+ Hann fluttist upp í fjöllin+ og hafðist við í helli með báðum dætrum sínum.
31 Sú eldri sagði nú við þá yngri: „Faðir okkar er gamall og á þessum slóðum er engan karlmann að finna sem getur eignast börn með okkur eins og venja er um alla jörð.
32 Komdu, við skulum gefa föður okkar vín að drekka og leggjast síðan með honum. Þannig getum við viðhaldið ætt föður okkar.“
33 Um kvöldið gáfu þær föður sínum mikið vín að drekka. Síðan fór sú eldri inn til hans og lagðist með honum en hann varð hvorki var við að hún lagðist niður né að hún stóð upp.
34 Daginn eftir sagði sú eldri við þá yngri: „Í nótt svaf ég hjá föður mínum. Gefum honum líka vín að drekka í kvöld. Síðan ferð þú og leggst með honum svo að við getum viðhaldið ætt föður okkar.“
35 Einnig það kvöld gáfu þær föður sínum mikið vín að drekka og sú yngri fór og lagðist með honum en hann varð hvorki var við að hún lagðist niður né að hún stóð upp.
36 Þannig urðu báðar dætur Lots barnshafandi af völdum föður síns.
37 Sú eldri ól son og nefndi hann Móab.+ Hann er ættfaðir Móabíta sem kallast svo fram á okkar dag.+
38 Sú yngri eignaðist líka son og nefndi hann Ben Ammí. Hann er ættfaðir Ammóníta+ sem kallast svo fram á okkar dag.
Neðanmáls
^ Orðrétt „eru komnir undir skugga þaks míns“.
^ Eða „tryggan kærleika í ríkum mæli“.
^ Eða „sál mína“.
^ Sem þýðir ‚smæð‘.