Fyrri Samúelsbók 20:1–42
-
Jónatan reynist Davíð tryggur vinur (1–42)
20 Davíð flúði nú frá Najót í Rama. Hann kom til Jónatans og sagði: „Hvað hef ég gert?+ Hvernig hef ég brotið af mér og syndgað gegn föður þínum fyrst hann vill drepa mig?“
2 Jónatan svaraði honum: „Það er af og frá!+ Enginn ætlar að drepa þig. Faðir minn gerir ekkert án þess að láta mig vita, hvorki stórt né smátt. Hvers vegna ætti hann að halda þessu leyndu fyrir mér? Þetta á ekki eftir að gerast.“
3 En Davíð svaraði: „Faðir þinn veit að við erum vinir+ og hugsar með sér: ‚Jónatan má ekki vita þetta því að þá verður hann dapur.‘ En svo sannarlega sem Jehóva lifir og þú lifir er bara eitt skref milli mín og dauðans.“+
4 Jónatan sagði þá við Davíð: „Ég skal gera fyrir þig hvað sem þú biður um.“
5 Davíð svaraði honum: „Á morgun er nýtt tungl+ og það er ætlast til þess að ég sitji til borðs með konunginum. Leyfðu mér að fara og fela mig úti á víðavangi fram á kvöld þriðja dags.
6 Ef faðir þinn saknar mín skaltu segja: ‚Davíð bað mig um leyfi til að fá að skreppa til Betlehem,+ heimaborgar sinnar, til að færa hina árlegu sláturfórn með allri ættinni.‘+
7 Ef hann svarar: ‚Það er í góðu lagi,‘ þá hefur þjónn þinn ekkert að óttast. En ef hann reiðist geturðu verið viss um að hann ætlar að gera mér mein.
8 Sýndu þjóni þínum tryggan kærleika+ því að þú hefur gert sáttmála við þjón þinn frammi fyrir Jehóva.+ En ef ég er sekur+ dreptu mig þá sjálfur. Af hverju ættirðu að láta mig í hendur föður þíns?“
9 Jónatan svaraði: „Það hvarflar ekki einu sinni að mér! Auðvitað læt ég þig vita ef ég kemst að raun um að faðir minn vill gera þér mein.“+
10 Davíð spurði þá Jónatan: „Hver getur sagt mér hvort faðir þinn bregst ókvæða við?“
11 „Komdu, við skulum fara út á víðavang,“ svaraði Jónatan. Þeir fóru þá báðir út á víðavang.
12 Síðan sagði Jónatan við Davíð: „Jehóva Guð Ísraels sé vitni þess að um þetta leyti á morgun eða hinn kemst ég að því hvernig föður mínum er innanbrjósts. Ef hann vill þér ekkert illt þá sendi ég einhvern til að láta þig vita.
13 En ef faðir minn vill gera þér mein og ég læt þig ekki vita og kem þér ekki undan heilum á húfi þá skal Jehóva refsa mér harðlega. Jehóva veri með þér+ eins og hann var með föður mínum.+
14 Sýndu mér tryggan kærleika eins og Jehóva, bæði meðan ég lifi og þegar ég er dáinn.+
15 Sviptu ætt mína aldrei tryggum kærleika þínum,+ ekki einu sinni þegar Jehóva afmáir alla óvini þína af yfirborði jarðar.“
16 Jónatan gerði síðan sáttmála við ætt Davíðs og sagði: „Jehóva lætur óvini Davíðs svara til saka.“
17 Og Jónatan lét Davíð aftur sverja við kærleikann sem hann bar til hans því að hann elskaði hann eins og sjálfan sig.+
18 Jónatan sagði síðan við hann: „Á morgun er nýtt tungl+ og þín verður saknað því að sætið þitt verður autt.
19 Á þriðja degi verður þín saknað enn meir. Þá skaltu koma aftur hingað þar sem þú faldir þig um daginn* og bíða nálægt þessum steini.
20 Ég skýt þrem örvum öðrum megin við steininn eins og ég væri að miða á eitthvað.
21 Síðan bið ég þjón minn að fara og leita að örvunum. Ef ég segi við hann: ‚Örvarnar eru hérna megin við þig, komdu með þær,‘ þá skaltu koma heim því að þá er þér óhætt og engin hætta er á ferðum svo sannarlega sem Jehóva lifir.
22 En ef ég segi við drenginn: ‚Örvarnar eru lengra í burtu,‘ þá skaltu forða þér því að þá hefur Jehóva sent þig burt.
23 Hvað varðar loforðið sem við gáfum hvor öðrum,+ þá sé Jehóva vitni milli mín og þín að eilífu.“+
24 Davíð faldi sig nú úti á víðavangi. Þegar tunglkomudagurinn rann upp settist konungur við matarborðið.+
25 Hann sat við vegginn eins og hann var vanur og Jónatan sat á móti honum. Abner+ sat við hliðina á Sál en sæti Davíðs var autt.
26 Sál sagði ekkert þennan dag því að hann hugsaði með sér: ‚Eitthvað hefur gerst svo að hann er óhreinn.+ Já, hann hlýtur að vera óhreinn.‘
27 Á öðrum degi, daginn eftir tunglkomuna, var sæti Davíðs enn autt. Þá sagði Sál við Jónatan son sinn: „Hvers vegna kom sonur Ísaí+ hvorki í gær né í dag til máltíðarinnar?“
28 Jónatan svaraði: „Davíð bað mig um leyfi til að fara til Betlehem.+
29 Hann sagði: ‚Gerðu það, leyfðu mér að fara því að ættin ætlar að færa sláturfórn í borginni og bróðir minn bað mig um að koma. Ef ég er þér einhvers virði leyfðu mér þá að læðast burt til að hitta bræður mína.‘ Þess vegna hefur hann ekki komið að borði konungs.“
30 Þá fauk í Sál og hann sagði við Jónatan: „Þú sonur mótþróafullrar konu! Heldurðu að ég viti ekki að þú stendur með syni Ísaí, sjálfum þér til skammar og móður þinni* sömuleiðis?
31 Svo lengi sem sonur Ísaí er lifandi á jörðinni verður hvorki þú né konungdómur þinn öruggur.+ Sendu því eftir honum því að hann verður að deyja.“*+
32 „Hvers vegna þarf hann að deyja?“+ svaraði Jónatan Sál föður sínum. „Hvað hefur hann gert?“
33 Þá kastaði Sál spjótinu að honum til að drepa hann.+ Jónatan vissi nú að faðir hans var ákveðinn í að drepa Davíð.+
34 Jónatan stóð ævareiður upp frá borðinu. Hann borðaði ekkert annan daginn eftir tunglkomuna því að hann var miður sín út af Davíð+ og faðir hans hafði niðurlægt hann.
35 Morguninn eftir fór Jónatan út á víðavang eins og þeir Davíð höfðu ákveðið og hafði með sér ungan þjón.+
36 Hann sagði við þjón sinn: „Hlauptu og finndu örvarnar sem ég skýt.“ Þjónninn hljóp þá af stað og Jónatan skaut örvunum fram hjá honum.
37 Þegar þjónninn kom þangað sem Jónatan hafði skotið örinni kallaði Jónatan til hans: „Er örin ekki lengra í burtu?“
38 Jónatan kallaði aftur til þjónsins: „Fljótur, áfram með þig! Hafðu hraðann á!“ Hann tók þá upp örvarnar og færði húsbónda sínum.
39 Þjónninn hafði ekki hugmynd um hvað var á seyði. Aðeins Jónatan og Davíð vissu hvað þetta þýddi.
40 Jónatan lét nú þjóninn fá vopn sín og sagði: „Farðu með þau til borgarinnar.“
41 Davíð var í felum rétt hjá, í suðri. Þegar þjónninn var farinn steig Davíð fram, féll á grúfu og laut þrisvar til jarðar. Þeir kysstu hvor annan og grétu saman, en Davíð grét þó meira.
42 Jónatan sagði við Davíð: „Farðu í friði. Við höfðum svarið eið+ í nafni Jehóva og heitið því að Jehóva skuli vera vitni milli þín og mín og milli þinna afkomenda og minna afkomenda að eilífu.“+
Síðan lagði Davíð af stað og fór burt en Jónatan sneri aftur til borgarinnar.
Neðanmáls
^ Orðrétt „á virkum degi“.
^ Orðrétt „nekt móður þinnar“.
^ Orðrétt „hann er sonur dauðans“.