Önnur Mósebók 3:1–22

  • Móse og logandi þyrnirunninn (1–12)

  • Jehóva útskýrir merkingu nafns síns (13–15)

  • Jehóva gefur Móse fyrirmæli (16–22)

3  Móse gerðist fjárhirðir hjá Jetró+ tengdaföður sínum, prestinum í Midían. Eitt sinn fór hann með hjörðina í vesturhluta óbyggðanna og kom að lokum að Hóreb,+ fjalli hins sanna Guðs.  Þá birtist engill Jehóva honum í eldi sem logaði í miðjum þyrnirunna.+ Móse horfði á og sá þá að runninn brann ekki þótt hann stæði í ljósum logum.  Hann hugsaði með sér: „Þetta er undarlegt. Ég ætla að færa mig nær og kanna af hverju þyrnirunninn brennur ekki.“  Þegar Jehóva sá að Móse gekk nær til að skoða þetta kallaði hann til hans úr þyrnirunnanum: „Móse! Móse!“ Hann svaraði: „Hér er ég.“  Þá sagði Guð: „Komdu ekki nær. Farðu úr sandölunum því að staðurinn sem þú stendur á er heilög jörð.“  Hann hélt áfram: „Ég er Guð föður þíns, Guð Abrahams,+ Guð Ísaks+ og Guð Jakobs.“+ Þá huldi Móse andlitið því að hann þorði ekki að líta á hinn sanna Guð.  Jehóva bætti við: „Ég hef séð hve illa er farið með fólk mitt í Egyptalandi og heyrt hvernig það hrópar á hjálp vegna þeirra sem þrælka það. Ég veit hvernig það þjáist.+  Ég ætla að stíga niður, bjarga því úr höndum Egypta+ og leiða það út úr landinu og inn í gott og víðáttumikið land sem flýtur í mjólk og hunangi,+ á svæði Kanverja, Hetíta, Amoríta, Peresíta, Hevíta og Jebúsíta.+  Já, hróp Ísraelsmanna hafa náð til mín og ég hef líka séð hve grimmilega Egyptar kúga þá.+ 10  Ég ætla nú að senda þig til faraós og þú átt að leiða þjóð mína, Ísraelsmenn, út úr Egyptalandi.“+ 11  En Móse sagði við hinn sanna Guð: „Hvernig á maður eins og ég að fara til faraós og leiða Ísraelsmenn út úr Egyptalandi?“ 12  Hann svaraði: „Ég verð með þér+ og þetta verður tákn þess að ég hafi sent þig: Eftir að þú hefur leitt fólkið út úr Egyptalandi munuð þið þjóna* hinum sanna Guði á þessu fjalli.“+ 13  Þá sagði Móse við hinn sanna Guð: „Segjum að ég fari til Ísraelsmanna og segi við þá: ‚Guð forfeðra ykkar sendi mig til ykkar.‘ Hverju á ég að svara þeim ef þeir spyrja: ‚Hvað heitir hann?‘“+ 14  Guð svaraði Móse: „Ég verð það sem ég kýs að* verða.“*+ Hann bætti við: „Þú skalt segja Ísraelsmönnum: ‚Ég verð sendi mig til ykkar.‘“+ 15  Guð sagði þá aftur við Móse: „Þú skalt segja Ísraelsmönnum: ‚Jehóva, Guð forfeðra ykkar, Guð Abrahams,+ Guð Ísaks+ og Guð Jakobs,+ sendi mig til ykkar.‘ Það er nafn mitt að eilífu+ og undir því nafni verð ég þekktur frá kynslóð til kynslóðar. 16  Farðu nú og safnaðu saman öldungum Ísraels og segðu við þá: ‚Jehóva, Guð forfeðra ykkar, birtist mér, Guð Abrahams, Ísaks og Jakobs, og sagði: „Ég hef fylgst með ykkur+ og séð hvernig farið er með ykkur í Egyptalandi. 17  Þess vegna hef ég ákveðið að frelsa ykkur undan kúgun+ Egypta og leiða ykkur inn í land Kanverja, Hetíta, Amoríta,+ Peresíta, Hevíta og Jebúsíta,+ land sem flýtur í mjólk og hunangi.“‘+ 18  Þeir munu hlusta á þig+ og þú munt ganga fyrir konung Egyptalands ásamt öldungum Ísraels og þið skuluð segja við hann: ‚Jehóva Guð Hebrea+ hefur birst okkur. Leyfðu okkur því að fara í þriggja daga ferð* út í óbyggðirnar til að færa Jehóva Guði okkar fórnir.‘+ 19  Ég veit þó vel að konungur Egyptalands mun ekki leyfa ykkur að fara nema hann sé þvingaður til þess.+ 20  Þess vegna mun ég rétta út höndina og refsa Egyptalandi með öllum þeim máttarverkum sem ég mun vinna þar, og eftir það lætur hann ykkur fara.+ 21  Og ég mun láta ykkur njóta velvildar Egypta svo að þið farið ekki tómhentir þaðan.+ 22  Hver kona skal biðja grannkonu sína og konuna sem dvelur í húsi hennar um gripi úr silfri og gulli og um fatnað, og þið skuluð láta syni ykkar og dætur bera það. Þið skuluð ræna Egypta.“+

Neðanmáls

Eða „tilbiðja“.
Eða „Ég verð það sem ég verð“. Sjá viðauka A4.
Eða „ég vil“.
Eða „fara þrjár dagleiðir“.