Esekíel 3:1–27
3 Hann sagði síðan við mig: „Mannssonur, borðaðu það sem er fyrir framan þig. Borðaðu þessa bókrollu og farðu síðan og talaðu við Ísraelsmenn.“+
2 Ég opnaði þá munninn og hann gaf mér bókrolluna til að borða.
3 Hann hélt áfram: „Mannssonur, borðaðu þessa bókrollu sem ég gef þér og láttu hana fylla magann.“ Ég borðaði hana og hún var sæt eins og hunang í munni mínum.+
4 Hann sagði við mig: „Mannssonur, farðu til Ísraelsmanna og flyttu þeim orð mín.
5 Þú ert ekki sendur til fólks sem talar óskiljanlegt eða framandi tungumál heldur til Ísraelsmanna.
6 Þú ert ekki sendur til margra þjóða sem tala óskiljanleg eða framandi tungumál sem þú skilur ekki orð í. Ef ég sendi þig til þeirra myndu þær hlusta.+
7 En Ísraelsmenn munu ekki hlusta á þig því að þeir vilja ekki hlusta á mig.+ Þeir eru allir með hart enni* og forhertir í hjarta.+
8 Ég hef gert andlit þitt eins hart og andlit þeirra og enni þitt eins hart og enni þeirra.+
9 Ég hef gert enni þitt hart eins og demant, harðara en tinnustein.+ Óttastu þá ekki og láttu ekki svip þeirra hræða þig+ því að þeir eru uppreisnargjarnir.“
10 Síðan sagði hann: „Mannssonur, hlustaðu á allt sem ég segi þér og hugleiddu það.
11 Farðu til útlaganna, samlanda þinna,+ og talaðu til þeirra. Segðu við þá: ‚Þetta segir alvaldur Drottinn Jehóva,‘ hvort sem þeir hlusta eða ekki.“+
12 Andi bar mig síðan með sér+ og ég heyrði drunur fyrir aftan mig og rödd sem sagði: „Lofuð sé dýrð Jehóva á staðnum þar sem hann býr.“
13 Ég heyrði þytinn í vængjum lifandi veranna þegar þeir strukust saman,+ hvininn í hjólunum við hliðina á þeim+ og miklar drunur.
14 Andinn lyfti mér upp og bar mig með sér. Ég lagði af stað bitur og reiður, og máttug hönd Jehóva var yfir mér.
15 Ég fór til útlaganna sem bjuggu í Tel Abíb við Kebarfljót+ og var þar um kyrrt. Ég var hjá þeim í sjö daga, dasaður og ringlaður.+
16 Að sjö dögum liðnum kom orð Jehóva til mín:
17 „Mannssonur, ég hef skipað þig varðmann Ísraelsmanna.+ Þegar þú heyrir orð af munni mínum skaltu flytja þeim viðvörun mína.+
18 Þegar ég segi við vondan mann: ‚Þú skalt deyja,‘ en þú varar hann ekki við og segir honum ekki að snúa af sinni vondu braut svo að hann haldi lífi,+ þá mun hann deyja vegna syndar sinnar því að hann er vondur,+ en ég geri þig ábyrgan fyrir blóði hans.+
19 En ef þú varar vondan mann við og hann snýr samt ekki baki við illsku sinni og vondum verkum deyr hann vegna syndar sinnar en þú hefur bjargað lífi þínu.+
20 Ef réttlátur maður fer út af réttri braut og gerir það sem er illt legg ég stein í götu hans og hann deyr.+ Ef þú varaðir hann ekki við deyr hann vegna syndar sinnar og réttlát verk hans gleymast en ég geri þig ábyrgan fyrir blóði hans.+
21 En ef þú hefur varað hinn réttláta við að syndga og hann syndgar ekki, þá heldur hann lífi af því að hann var varaður við+ og þú hefur líka bjargað lífi þínu.“
22 Hönd Jehóva kom yfir mig þar og hann sagði við mig: „Stattu upp og farðu út á dalsléttuna. Þar ætla ég að tala við þig.“
23 Ég stóð upp og fór út á dalsléttuna. Þar sá ég dýrð Jehóva+ eins og ég hafði séð við Kebarfljót,+ og ég féll á grúfu.
24 Síðan kom andi í mig og reisti mig á fætur+ og Guð sagði við mig:
„Farðu og lokaðu þig inni í húsi þínu.
25 Mannssonur, menn munu binda þig með reipum svo að þú kemst ekki út til þeirra.
26 Ég læt tungu þína loða við góminn og þú missir málið svo að þú getur ekki áminnt þá því að þetta er uppreisnargjarnt fólk.
27 En þegar ég tala við þig opna ég munn þinn og þú skalt segja við þá:+ ‚Þetta segir alvaldur Drottinn Jehóva.‘ Sá sem hlustar hlusti+ og sá sem vill ekki hlusta hlusti ekki því að þetta er uppreisnargjarnt fólk.+
Neðanmáls
^ Eða „þrjóskir“.