Esekíel 43:1–27

43  Nú leiddi hann mig að hliðinu sem snýr í austur.+  Þar sá ég dýrð Guðs Ísraels koma úr austri.+ Rödd hans hljómaði eins og niður mikilla vatna+ og dýrð hans lýsti upp jörðina.+  Það sem ég sá var eins og sýnin sem birtist mér þegar ég* kom til að leggja borgina í rúst og líktist því sem ég sá við Kebarfljót.+ Ég féll á grúfu.  Dýrð Jehóva fór þá inn í musterið* um hliðið sem sneri í austur.+  Andi reisti mig á fætur og fór með mig inn í innri forgarðinn. Ég sá að musterið hafði fyllst dýrð Jehóva.+  Ég heyrði að einhver talaði við mig innan úr musterinu og maðurinn kom og nam staðar við hliðina á mér.+  Hann sagði við mig: „Mannssonur, hér læt ég hásæti mitt+ standa og fætur mína hvíla.+ Hér mun ég búa meðal Ísraelsmanna að eilífu.+ Ísraelsmenn skulu ekki framar vanhelga heilagt nafn mitt,+ hvorki þeir né konungar þeirra, með andlegu vændi sínu og líkum konunga sinna við andlát þeirra.  Þeir settu þröskuld þeirra við þröskuld minn og dyrastafi þeirra við hliðina á dyrastöfum mínum svo að aðeins veggur var milli mín og þeirra.+ Þeir vanhelguðu heilagt nafn mitt með andstyggilegum verkum sínum þannig að ég útrýmdi þeim í reiði minni.+  Nú verða þeir að hætta andlegu vændi sínu og fjarlægja lík konunga sinna frá mér. Þá skal ég búa meðal þeirra að eilífu.+ 10  Mannssonur, lýstu musterinu fyrir Ísraelsmönnum+ svo að þeir skammist sín fyrir syndir sínar+ og láttu þá kynna sér byggingarnar vandlega. 11  Ef þeir skammast sín fyrir allt sem þeir hafa gert skaltu segja þeim frá grunnmynd musterisins og fyrirkomulagi, útgöngum þess og inngöngum.+ Sýndu þeim allar grunnmyndir þess og ákvæði, grunnmyndir þess og lög, og skráðu þetta allt fyrir augum þeirra svo að þeir geti séð alla grunnmyndina og farið eftir ákvæðunum.+ 12  Þetta eru lögin um musterið. Allt svæðið í kringum fjallstindinn er háheilagt.+ Þannig eru lögin um musterið. 13  Þetta eru mál altarisins í álnum+ (þverhönd er bætt við hverja alin).* Sökkullinn er alin á hæð og alin á breidd. Á brúninni er kantur allan hringinn sem er spönn* á breidd. Þetta er sökkull altarisins. 14  Frá sökkulbotninum að neðri stallinum eru tvær álnir og stallurinn er alin á breidd. Frá neðri stallinum upp að efri stallinum, þeim hærri, eru fjórar álnir og hann er alin á breidd. 15  Eldstæði altarisins er fjórar álnir á hæð og fjögur horn standa upp af hornum eldstæðisins.+ 16  Eldstæðið er ferningslaga, 12 álnir á lengd og 12 á breidd.+ 17  Efri stallurinn er jafn langur á allar hliðar, 14 álnir. Kanturinn í kringum hann er hálf alin og sökkull altarisins er ein alin á allar hliðar. Altariströppurnar eru austan megin.“ 18  Hann sagði nú við mig: „Mannssonur, þetta segir alvaldur Drottinn Jehóva: ‚Þetta eru leiðbeiningarnar sem á að fylgja þegar altarið er gert svo að hægt sé að færa brennifórnir og sletta blóði á það.‘+ 19  ‚Þú átt að færa Levítaprestunum af ætt Sadóks+ ungnaut af hjörðinni að syndafórn,+ en þeir ganga fram fyrir mig til að þjóna mér,‘ segir alvaldur Drottinn Jehóva. 20  ‚Taktu nokkuð af blóði þess og berðu það á hornin fjögur á altarinu, á fjögur horn stallsins í kring og á kantinn allan hringinn til að hreinsa altarið af synd og friðþægja fyrir það.+ 21  Taktu síðan ungnautið, syndafórnina, og brenndu það á tilteknum stað í musterinu, fyrir utan helgidóminn.+ 22  Daginn eftir skaltu færa gallalausan geithafur að syndafórn. Prestarnir hreinsa altarið af synd eins og þeir hreinsuðu það af synd með ungnautinu.‘ 23  ‚Þegar þú ert búinn að hreinsa altarið af synd skaltu fórna gallalausu ungnauti og gallalausum hrút úr hjörðinni. 24  Berðu þau fram fyrir Jehóva. Prestarnir skulu kasta salti yfir þau+ og færa þau Jehóva að brennifórn. 25  Dag hvern í sjö daga skaltu færa geithafur að syndafórn+ og sömuleiðis ungnaut og hrút úr hjörðinni. Skepnurnar sem þú fórnar eiga að vera lýtalausar.* 26  Í sjö daga skulu menn friðþægja fyrir altarið, hreinsa það og vígja. 27  Að þessum dögum liðnum, á áttunda degi+ og þaðan í frá, færa prestarnir brennifórnir ykkar* og samneytisfórnir á altarinu og þá tek ég ykkur með velþóknun,‘+ segir alvaldur Drottinn Jehóva.“

Neðanmáls

Eða hugsanl. „hann“.
Orðrétt „húsið“.
Hér er átt við langa alin. Sjá viðauka B14.
Um 22 cm. Sjá viðauka B14.
Eða „fullkomnar“.
Það er, fólksins.