Afglöp sem leiddu til heimsstyrjaldar
Afglöp sem leiddu til heimsstyrjaldar
Gæti þriðja heimsstyrjöldin hafist af slysni? Gætu stjórnmálamenn og hernaðarráðgjafar misreiknað gróflega áhættuna og valdið því að milljónir manna týndu lífi?
VIÐ vitum það ekki. Hins vegar vitum við að þetta hefur gerst. Fyrir einni öld leiddu leiðtogar Evrópu þjóðir sínar út í stríðið mikla, sem síðar var kallað heimsstyrjöldin fyrri, án þess að gera sér í hugarlund þær gífurlegu hörmungar sem það átti eftir að hafa í för með sér. „Við álpuðumst út í stríð,“ sagði David Lloyd George sem var forsætisráðherra Breta frá 1916 til 1922. Við skulum líta á helstu atburðina sem leiddu til þessa skelfilega blóðbaðs.
„Engir þessara stjórnmálamanna sóttust eftir stórstríði,“ skrifaði sagnfræðingurinn A. J. P. Taylor, „en þeir vildu ögra og þeir vildu sigra.“ Rússlandskeisari taldi að gera yrði allt sem mögulegt væri til að varðveita friðinn. Hann vildi ekki bera ábyrgð á stórfelldum blóðsúthellingum. En hvernig svo sem á því stóð fór allt úr böndunum eftir að tveimur örlagaríkum skotum var hleypt af um klukkan 11:15 að morgni 28. júní 1914.
Tvö skot sem breyttu heiminum
Þegar komið var að árinu 1914 hafði langvarandi samkeppni milli Evrópuríkjanna valdið mikilli spennu milli þeirra. Myndaðar höfðu verið tvær andstæðar fylkingar: annars vegar Þríveldabandalagið milli Austurríkis-Ungverjalands, Ítalíu og Þýskalands og hins vegar Samúðarsambandið milli Bretlands, Frakklands og Rússlands. Þar að auki höfðu þessar þjóðir stjórnmála- og efnahagsleg tengsl við fjölda annarra ríkja, meðal annars við Balkanríkin.
Á þessum tíma var óstöðugt ástand í stjórnmálum á Balkanskaga. Yfirráð stærri ríkjanna ollu mikilli gremju. Þar voru mörg leynisamtök sem beittu sér fyrir sjálfstæði. Fámennur hópur ungs fólks hafði lagt á ráðin um að myrða Franz Fredinand, austurríska erkihertogann, 28. júní á meðan hann var í heimsókn í Sarajevó, höfuðborg Bosníu. * Lögreglumenn voru fáir á staðnum og var því hægara um vik. En samsærismennirnir voru lítt þjálfaðir. Unglingur kastaði lítilli sprengju en missti marks. Aðrir brugðust ekki við á réttum tíma. Gavrilo Princip var sá eini af samsærismönnunum sem tókst ætlunarverkið — og það af einskærri tilviljun. Hvernig gerðist það?
Þegar Princip sá erkihertogann aka fram hjá heilan á húfi eftir sprengjutilræðið reyndi hann að komast að bílnum en tókst ekki. Hann gekk vonsvikinn yfir veginn að kaffihúsi. Erkihertoginn, sem var reiður út af * Princip, sem var serbneskur þjóðernissinni og fremur barnalegur, hafði sennilega enga hugmynd um hvaða skriðu hann hafði hleypt af stað. Það er samt ekki hægt að ásaka hann einan um þær skelfingar sem áttu eftir að gerast.
tilræðinu, ákvað í millitíðinni að fara aðra leið en upphaflega var áætlað. Bílstjórinn vissi ekki að áætluninni hafði verið breytt, fór í öfuga átt og varð að snúa við. Á sömu stundu kom Princip út úr kaffihúsinu og stóð bókstaflega beint fyrir framan skotmarkið — erkihertogann í opnum bílnum tæpa þrjá metra frá sér. Princip færði sig nær bílnum og skaut tveimur skotum sem urðu erkihertoganum og eiginkonu hans að bana.Styrjöld í aðsigi
Fyrir 1914 var stríð í hugum flestra Evrópumanna sveipað einhvers konar ævintýraljóma. Þeir sáu það fyrir sér sem eitthvað gott, göfugt og dýrlegt — þrátt fyrir að þeir játuðu kristna trú. Sumir stjórnmálamenn trúðu jafnvel að stríð myndi efla þjóðareiningu og endurnæra fólk. Auk þess fullvissuðu ákveðnir hershöfðingjar leiðtoga sína um að stríð væri hægt að vinna mjög fljótt og afgerandi. „Við sigrum Frakka á hálfum mánuði,“ sagði þýskur hershöfðingi hróðugur. Enginn sá fyrir að milljónir manna myndu festast í skotgrafarhernaði árum saman.
Á árunum fyrir stríðið hafði þar að auki „stæk þjóðernishyggja gengið eins og flóðbylgja yfir Evrópu,“ segir í bókinni Cooperation Under Anarchy. „Almennir skólar, háskólar, fjölmiðlar og stjórnmálamenn tóku allir þátt í þessari skefjalausu þjóðernishyggju og sjálfsupphafningu.“
Trúarleiðtogarnir gerðu lítið til að berjast gegn þessu skaðlega andrúmslofti. Paul Johnson sagnfræðingur segir: „Annars vegar voru mótmælendur í Þýskalandi, kaþólskir í Austurríki, rétttrúnaðarmenn í Búlgaríu og múslímar í Tyrklandi. Hins vegar voru mótmælendur í Bretlandi, kaþólskir í Frakklandi og Ítalíu og rétttrúnaðarmenn í Rússlandi.“ Hann bætir við að flestir prestar hafi „lagt að jöfnu kristna trú og þjóðernishyggju. Hermenn kristinnar trúar úr öllum sértrúarsöfnuðum voru hvattir til að drepa hver annan í nafni frelsarans.“ Jafnvel prestar og nunnur voru kölluð í herinn og þúsundir presta féllu síðar í bardögum.
Bandalögin í Evrópu, sem áttu að veita öryggi gegn stórstyrjöld, gætu hafa komið henni af stað. Hvernig stóð á því? „Öryggi Evrópuríkja
var samtvinnað,“ segir í bókinni Cooperation Under Anarchy. „Hver þjóð fyrir sig áleit öryggi sitt vera komið undir öryggi bandalagsþjóðanna. Þeim fannst þess vegna nauðsynlegt að koma bandamönnum sínum fljótt til varnar — jafnvel þótt þessir bandamenn hefðu ögrað árásarríkinu.“Annað sem reyndist vera hættulegt var þýska Schlieffen-áætlunin, en hún var nefnd eftir höfundi hennar, hershöfðingjanum Alfred von Schlieffen fyrrum yfirherráðsforingja. Áætlunin, sem fól í sér leiftursókn, gerði ráð fyrir að Þjóðverjar yrðu að berjast bæði við Frakka og Rússa. Markmiðið var því að sigra Frakka í snarheitum meðan Rússar hervæddust í rólegheitum og ráðast síðan á Rússa. „Um leið og [Schlieffen]-áætluninni yrði hrundið í framkvæmd var nærri fullvíst að tilvera hernaðarbandalaganna hefði í för með sér allsherjarstyrjöld í Evrópu,“ segir í alfræðiorðabókinni World Book Encyclopedia.
Skriðan fer af stað
Þótt opinber rannsókn hafi ekki fundið nein rök fyrir því að serbneska stjórnin hafi staðið á bak við morðið á erkihertoganum, voru Austurríkismenn ákveðnir í að binda í eitt skipti fyrir öll enda á óróann sem slavneskir minnihlutahópar ollu í keisaradæminu. Austurríkismenn voru ákveðnir í „að veita Serbum ráðningu“, segir J. M. Roberts, sagnfræðingur.
Nikolaj Gartvig, rússneski sendiherrann í höfuðborg Serbíu, vann að hugsanlegri málamiðlun til að draga úr spennunni. En hann fékk hjartaslag og lést á fundi með austurrísku sendinefndinni. Að lokum, 23. júlí, sendu Austurríkismenn Serbum harðar kröfur sem jafngiltu úrslitakostum. Þar sem Serbar gátu ekki gengið að öllum kröfunum slitu Austurríkismenn skyndilega stjórnmálasambandi við þá. Á þessari ögurstundu rofnuðu samskiptin.
Nokkrar tilraunir voru samt gerðar til að koma í veg fyrir styrjöld. Til dæmis lögðu Bretar til að haldin yrði alþjóðaráðstefna, og Þýskalandskeisari hvatti Rússlandskeisara til að hervæðast ekki. En menn réðu ekki lengur við atburðarásina. „Stjórnmálamenn, hershöfðingjar og heilu þjóðirnar voru magnþrota gagnvart holskeflunni sem var í þann mund að ríða yfir,“ segir í bókinni The Enterprise of War.
Austurríkiskeisari treysti á loforð um stuðning Þjóðverja og sagði Serbum stríð á hendur 28. júlí. Rússar studdu Serba og reyndu þannig að halda aftur af þátttöku Austurríkis með því að tilkynna að um milljón rússneskra hermanna yrðu fluttir að landamærum Austurríkis. Þar sem landamæri Rússlands og Þýskalands yrðu þá óvarin gaf Rússlandskeisarinn með semingi út skipun um allsherjarherkvaðningu.
Rússlandskeisari reyndi að fullvissa Þýskalandskeisara um að hann hefði ekki í hyggju að ráðast inn í Þýskaland. En hervæðing Rússa setti áætlanir Þjóðverja á fullt skrið. Hinn 31. júlí hrintu þeir Schlieffen-áætluninni í framkvæmd með því að lýsa yfir stríði á hendur Rússum 1. ágúst og Frökkum tveim dögum síðar. Þar sem hernaðaráætlanir Þjóðverja fólu í sér að fara í gegnum Belgíu vöruðu Bretar Þjóðverja við því að þeir myndu lýsa yfir stríði á hendur þeim brytu þeir gegn hlutleysi Belga. Þýskar hersveitir fóru inn í Belgíu 4. ágúst. Teningunum var kastað.
,Mesta ógæfa sem orðið hefur í stjórnarerindrekstri á okkar tímum‘
„Stríðsyfirlýsing Breta rak smiðshöggið á mestu ógæfu sem orðið hefur í stjórnarerindrekstri á okkar tímum,“ sagði Norman Davies sagnfræðingur. Annar sagnfræðingur, Edmond Taylor, sagði að þegar Austurríki lýsti yfir stríði 28. júlí hafi „hrein ringulreið átt sífellt stærri þátt í að koma af stað [styrjöld]. Of margt átti sér stað of hratt og of víða . . . Skörpustu og skipulögðustu hugsuðir réðu ekki lengur við að meðtaka allt upplýsingaflóðið og vinna úr því“.
Meira en 13 milljónir hermanna og óbreyttra borgara guldu þessa hörmulegu „ringulreiðar“ með lífi sínu. Bjartsýni á framtíðina og trúin á mannlegt eðli var sömuleiðis tekin burt þegar hinar svokölluðu siðmenntuðu þjóðir, búnar kröftugum, fjöldaframleiddum og nýuppfundnum vopnum, drápu hver aðra í mæli sem átti sér ekki fordæmi. Heimurinn yrði aldrei samur á eftir. — Sjá rammagreinina „Heimsstyrjöld — tákn tímanna?“
[Neðanmáls]
^ Bosnía er núna hluti af Bosníu og Hersegóvínu.
^ Princip myrti eiginkonu erkihertogans af misgá. Hann ætlaði sér að skjóta Potiorek hershöfðingja, landstjóra Bosníu, sem var með erkihertogahjónunum í bílnum, en eitthvað kom í veg fyrir að honum tækist það.
[Rammi/mynd á bls. 14]
HEIMSSTYRJÖLD — TÁKN TÍMANNA?
Í Biblíunni var spáð að styrjaldir yrðu hluti táknsins sem einkenndu síðustu daga þessa illa heimskerfis. (Matteus 24:3, 7; Opinberunarbókin 6:4) Uppfylling þessa tákns nú á dögum bendir til þess að við nálgumst óðfluga þann tíma þegar Guðsríki tekur að stjórna að fullu yfir jörðinni. — Daníelsbók 2:44; Matteus 6:9, 10.
Enn fremur mun Guð fjarlægja ósýnilegt afl í heimsmálunum — illar andaverur sem eru undir stjórn Satans djöfulsins. „Allur heimurinn er á valdi hins vonda,“ segir í 1. Jóhannesarbréfi 5:19. Vond áhrif Satans hafa valdið mannkyni mikilli ógæfu, og eflaust einnig þeim hörmulegu atburðum sem leiddu til fyrri heimsstyrjaldarinnar. — Opinberunarbókin 12:9-12. *
[Neðanmáls]
^ Frekari upplýsingar um hina síðustu daga og þessar illu andaverur er að finna í námsbókinni Hvað kennir Biblían? Bókin er gefin út af Vottum Jehóva.
[Rétthafi myndar]
Ljósmynd: U.S. National Archives
[Mynd á bls. 13]
Morðið á Ferdinand erkihertoga.
[Rétthafi myndar]
© Mary Evans Picture Library