Horft á heiminn
Horft á heiminn
◼ Í könnun, sem gerð var í Þýskalandi og náði til um 2.000 manns, kom fram að næstum 40 prósentum unglinga á aldrinum 14 til 19 ára fannst allt í lagi að slíta sambandi með textaskilaboðum eða tölvupósti. Yfir 80 prósent þátttakenda 50 ára og eldri töldu það algerlega ótækt. — FRANKFURTER NEUE PRESSE, ÞÝSKALANDI.
◼ Talið er að á árinu 2008 hafi verið sendar 2,3 milljón milljónir textaskilaboða um heim allan. — HITU NEWS, TAHÍTÍ.
◼ „Reykingar stytta ævi fólks um fimm til tíu ár að meðaltali.“ — UC BERKELEY WELLNESS LETTER, BANDARÍKJUNUM.
◼ Áætlað er að á skrifstofum í Bandaríkjunum séu allt að 60 prósent borðtölva skildar eftir í gangi á nóttinni. Það hefur í för með sér að raforkuver losa að þarflausu út í andrúmsloftið um 14,4 milljónir tonna af koldíoxíði á ári. — WORLD WATCH, BANDARÍKJUNUM.
Strætisvagnar ýta undir trúleysi
„Sennilega er enginn Guð til. Hættu að hafa áhyggjur og njóttu lífsins.“ Þessi slagorð hefur mátt lesa á 200 strætisvögnum í Lundúnum og á 600 vögnum til viðbótar víða um Bretland. Að auki birtast þau á tveim risaskjáum í Oxfordstræti í Lundúnum. Þetta kemur fram í dagblaðinu The Guardian. Höfundarnir segja að herferðin sé svar við trúarlegum auglýsingum þar sem trúleysingjum sé hótað helvítisvist. Orðið „sennilega“ er notað til að fullnægja reglum Breska auglýsingaeftirlitsins (Advertising Standards Authority), því að ógerlegt sé að afsanna tilvist Guðs. Eitt markmið herferðarinnar er að hvetja fleiri trúleysingja til að „koma út úr skápnum“ og viðurkenna skoðanir sínar.
Varhugavert að setja fæðingu af stað fyrir tímann
Æ algengara gerist í Bandaríkjunum að börn séu látin fæðast fyrir tímann í þægindaskyni, og eru þau þá annaðhvort tekin með keisaraskurði eða fæðing sett af stað. Hins vegar eru „síðustu vikur meðgöngunnar mikilvægari en áður var haldið“, að sögn The Wall Street Journal. Rannsókn, sem náði til um 15.000 nýbura, leiddi í ljós að fyrir hverja viku sem barnið fékk að vera í móðurkviði frá 32. til 39. viku fækkaði flogaköstum, gulu, andnauð og heilablæðingum um 23 prósent. Hjá börnum, sem voru fædd á 32. til 36. viku, var meiri hætta á vægum vitsmuna- og atferlisfrávikum. American College of Obstetricians and Gynecologists mælir því með að börn séu ekki látin fæðast „fyrr en eftir 39 vikna meðgöngu nema af læknisfræðilegum ástæðum“.
Stigar eru góð heilsubót
„Það er einföld og hagnýt heilsubót að fara stigana að staðaldri,“ að sögn breska læknatímaritsins The Lancet. Vísindamenn báðu 69 kyrrsetumenn að fara stigana á vinnustað í stað þess að fara upp og niður í lyftum. Eftir 12 vikur hafði hámarkssúrefnisupptaka þeirra batnað um 8,6 prósent en við það „minnkuðu dánarlíkur af öllum orsökum um 15%“. Veruleg bót varð einnig á „blóðþrýstingi, kólesteróli, þyngd, mittismáli og hlutfalli líkamsfitu“ starfsmannanna.