Það sem aðrir hafa sagt
Frakkland „Vottar Jehóva eru löghlýðnir borgarar . . . Þjóðfélaginu stafar engin hætta af þeim. Þeir stunda vinnu, borga skatta, taka þátt í efnahagsþróun landsins og gefa af sér til samfélagsins. Það er unun að sjá fólk af alls konar uppruna og kynþáttum koma saman í friði . . . Ef allir væru vottar Jehóva myndum við lögreglumenn verða atvinnulausir.“ — Talsmaður samtaka lögreglumanna í Frakklandi.
Úkraína „Vottar Jehóva innprenta börnum sínum háleitt siðferði. Þeir kenna þeim að varast hegðun, athafnir og jafnvel viðhorf sem eru almennt viðurkennd [en] geta verið þeim og öðrum skaðleg. Þess vegna vara þeir börn sín við hættunum sem fylgja því að reykja, neyta eiturlyfja og misnota áfengi. Þeir viðurkenna mikilvægi þess að vera heiðarlegir og vinnusamir . . . Vottar Jehóva kenna börnum sínum gott siðferði, að virða yfirvöld, annað fólk og eignir þess og að hlýða landslögum.“ — The History of Religion in Ukraine, ritstýrt af prófessor Petro Yarotskyi.
Ítalía „Þrjátíu þúsund manns sátu í kyrrð og ró á ólympíuleikvanginum . . . Ekkert rusl, enginn hávaði og engin köll. Þannig var umhorfs á ólympíuleikvanginum í gær . . . Enginn sýndi óviðeigandi tilburði og engir sígarettustubbar eða dósir lágu á víð og dreif. Fólk sat bara með biblíurnar sínar opnar og var að punkta hjá sér minnisatriði. Börnin sátu hljóð.“ — Frétt af móti votta Jehóva í Róm í dagblaðinu L’Unità.
„Vottar Jehóva kenna börnum sínum gott siðferði . . . og að hlýða landslögum.“
Bretland „Erkidjákninn af Cheltenham sagði að [Englandskirkja] þarfnaðist hópa fólks sem væri jafn helgað starfi sínu og vottar Jehóva.“ Hann var greinilega að vísa í boðunarstarf þeirra hús úr húsi. — The Gazette, Gloucester-biskupsdæmi.
Holland Nágrannar ríkissalarins (eins og vottar Jehóva kalla samkomustaði sína) í borginni Leeuwarden færðu söfnuðinum þar bréf. Í því stóð: „Okkur langar til að hrósa ykkur fyrir framlag ykkar við að prýða Noorderweg. Fólkið í söfnuðinum er vel klætt og kurteist. Börnin hegða sér vel og hinir fullorðnu leggja bílunum sínum aldrei ólöglega eða fleygja rusli á götuna. Og lóðin kringum ríkissalinn er alltaf hrein og snyrtileg. Það er von okkar að þið verðið nágrannar okkar lengi því við erum mjög ánægð að hafa ykkur hér.“
Mexíkó Elio Masferrer, prófessor og vísindamaður við Ríkisháskólann í mannfræði og sögu, sagði að vottarnir hjálpuðu fólki sem hefur þurft að reyna „mikla og alvarlega erfiðleika í fjölskyldunni, svo sem nauðgun, heimilisofbeldi, alkóhólisma og eiturlyfjafíkn“. Hann sagði að kenningar vottanna „hjálpi fólki, sem hefur haft litla sjálfsvirðingu, til að öðlast betri sjálfsmynd“ og gerðu því kleift að „lifa nokkuð eðlilegu lífi með því að gera það sem Guði er þóknanlegt“. — Dagblaðið Excélsior.
Brasilía Dagblað skýrir svo frá: „Skipulagið hjá vottum Jehóva er alveg frábært. Staðirnir þar sem þeir koma saman eru alltaf hreinir. Allt er vel skipulagt . . . Þegar mótum þeirra er lokið er staðurinn hreinni en hann var þegar þeir mættu. Það er algert hljóð meðan ræður eru fluttar. Enginn ýtir eða hrindir öðrum. Kurteisi er áberandi . . . Þetta er vel skipulagður trúarhópur. Þeir vita hvað það felur í sér að tilbiðja Guð.“ — Comércio da Franca.
Vottar Jehóva trúa því staðfastlega að skaparinn þekki betur en nokkur annar þær meginreglur sem mennirnir, sköpunarverk hans, ættu að lifa eftir. (Jesaja 48:17, 18) Vottarnir gefa honum því heiðurinn þegar aðrir hrósa þeim fyrir góða hegðun. Jesús sagði: „Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum.“ — Matteus 5:16.