Ætti ég að hætta í skóla?
Ungt fólk spyr
Ætti ég að hætta í skóla?
Hvenær finnst þér að þú eigir að hætta í skóla?
․․․․․
Hvenær finnst foreldrum þínum að þú eigir að hætta?
․․․․․
FÆRÐU sama svarið við báðum spurningunum? Þó að svo sé gætu komið dagar þegar þú óskar þess að geta bara hætt. Hefur þér einhvern tíma liðið eins og unglingunum sem vitnað er í hér að neðan?
● „Stundum var ég svo stressuð að ég vildi ekki fara á fætur. Ég hugsaði: Af hverju þarf ég að fara í skóla til að læra hluti sem ég á aldrei eftir að nota?“ — Rachel.
● „Ég hef oft verið leiður á skólanum og bara viljað hætta og fá mér vinnu. Mér fannst ég ekki hafa neitt gagn af skólanum og ég ætti frekar að nota tímann til að vinna mér inn pening.“ — John.
● „Ég var með allt að fjögurra tíma heimavinnu á hverjum degi. Ég var svoleiðis á kafi í verkefnum og prófum að mér fannst ég ekki ráða við neitt og vildi bara komast út úr þessu öllu.“ — Cindy.
● „Við höfum fengið sprengjuhótun, það hefur verið klíkuofbeldi, það hafa verið gerðar þrjár sjálfsvígstilraunir og einn hefur svipt sig lífi. Stundum var ég búin að fá meira en nóg og vildi bara hætta.“ — Rose.
Þekkir þú eitthvað svipað af eigin raun? Ef svo er hvaða atburðir hafa orðið til þess að þú viljir hætta í skóla?
․․․․․
Kannski ertu að hugsa alvarlega um að hætta. Hvernig geturðu þá vitað hvort þú sért að hætta af því að það er tímabært eða vegna þess að þú ert orðinn hundleiður á skólanum og vilt bara komast burt?
Er skynsamlegt að hætta í skóla?
Vissirðu að í sumum löndum er algengt að ljúka skólanum á fimm til átta árum?
․․․․․
Annars staðar er að jafnaði ætlast til að börn gangi í skóla í tíu til tólf ár. Skólaganga er sem sagt ekki miðuð við sama aldur eða árafjölda um allan heim.
Í sumum löndum er þar að auki leyfilegt að stunda nám í heild eða að hluta heima án þess að mæta í skóla. Nemendur, sem stunda slíkt nám undir leiðsögn foreldra sinna, eru auðvitað í námi þótt þeir gangi ekki í skóla.
Ef þú ert hins vegar að hugsa um að hætta í skóla áður en þú útskrifast þarftu að íhuga eftirfarandi spurningar:
Hvers er krafist samkvæmt lögum? Eins og fram hefur komið eru lög varðandi skólagöngu mismunandi eftir löndum. Hver er skólaskyldan þar sem þú býrð? Hefurðu lokið skyldunáminu? Það er ekki gott að hætta ef þú hunsar þar með leiðbeiningar Biblíunnar um að ,hlýða yfirvöldum‘. — Rómverjabréfið 13:1.
Ertu búinn að ná markmiðum þínum varðandi nám? Hvaða markmiðum viltu ná með menntun þinni? Ertu ekki viss? Þú þarft að vita það. Annars verðurðu eins og farþegi í lest sem hefur ekki hugmynd um hvert hann ætlar. Sestu þess vegna niður með foreldrum þínum og fylltu út vinnublaðið „Markmið mín með náminu“ á bls. 28. Það hjálpar þér að halda einbeitingunni og auðveldar þér og foreldrum þínum að skipuleggja námið. — Orðskviðirnir 21:5.
Kennararnir og aðrir gefa þér eflaust ráð varðandi það hve lengi þú ættir að vera í skóla. Að lokum eru það samt foreldrar þínir sem ákveða það. (Orðskviðirnir 1:8; Kólossubréfið 3:20) Þú ættir ekki að hætta fyrr en þú hefur náð þeim markmiðum sem þú og foreldrar þínir hafið sett með náminu.
Hvers vegna ertu að hugsa um að hætta? Blekktu ekki sjálfan þig. (Jeremía 17:9) Það er í mannlegu eðli að telja sér trú um að maður hafi góðar og gildar ástæður fyrir eigingjörnum verkum. — Jakobsbréfið 1:22.
Skrifaðu niður góðar ástæður sem þér finnst þú hafa fyrir því að hætta í námi.
․․․․․
Skrifaðu niður nokkrar eigingjarnar ástæður fyrir því að hætta í námi.
․․․․․
Hvaða góðu ástæður skrifaðirðu niður? Þær gætu meðal annars verið að aðstoða fjölskylduna fjárhagslega eða boða fagnaðarerindið. Eigingjarnar ástæður gætu verið að sleppa við heimavinnuna og prófin. Málið snýst um að koma auga á hverjar aðalástæðurnar eru fyrir því að þú vilt hætta. Eru þær góðar og gildar eða eru þær eigingjarnar?
Leggðu heiðarlegt mat á ástæðurnar sem þú skrifaðir og gefðu þeim einkunn frá 1 upp í 5 eftir mikilvægi (1 fyrir þá lítilvægustu og 5 fyrir þá mikilvægustu). Ef þú ert að hugsa um að hætta bara til að sleppa við óþægindi er hætt við að þér bregði í brún.
Hvað er að því að hætta?
Að hætta í skóla er eins og að stökkva af lest áður en maður kemst á áfangastað. Lestarferðin gæti verið óþægileg og farþegarnir óvinsamlegir. En ef þú stekkur af á miðri leið kemstu ekki á leiðarenda og þú slasar
þig líklega alvarlega. Eins er það ef þú hættir í skóla. Þú nærð ekki markmiðum þínum með náminu og kallar sennilega yfir þig ýmis vandamál, bæði til skamms tíma og langs tíma litið.Til skamms tíma litið: Þú átt líklega erfiðara með að fá vinnu og ef þér tekst það eru launin sennilega lægri en þú fengir ef þú kláraðir skólann. Til að geta séð sómasamlega fyrir þér þarftu ef til vill að vinna lengri vinnudag og aðstæðurnar gætu verið enn verri en þær sem þú býrð við í skólanum núna.
Til langs tíma litið: Rannsóknir sýna að þeir sem flosna upp úr námi eru líklegri til að eiga við heilsufarsvandamál að stríða, eignast börn mjög ungir, lenda í fangelsi og þurfa að reiða sig á félagslega aðstoð.
Að klára skólann er auðvitað engin trygging fyrir því að þú getir komist hjá þessum vandamálum. En er samt nokkur ástæða til að skemma fyrir sér að óþörfu með því að hætta í skóla?
Gagnið af því að ljúka námi
Það er skiljanlegt að þig langi til að gefast upp ef þú ert nýbúinn að falla á prófi eða hefur átt erfiðan dag í skólanum. Vandamál framtíðarinnar gætu virst lítilfjörleg miðað við allt námsstreðið. En áður en þú velur „auðveldu“ leiðina skoðaðu þá hvað unglingarnir segja sem vitnað var í áður. Þeim finnst þeir hafa haft gagn af því að ljúka námi.
● „Ég hef lært að vera þolgóð og orðið sterkari. Ég hef líka lært að það er undir sjálfri mér komið að hafa gaman af því sem ég geri. Með því að halda náminu áfram hef ég þroskað listræna hæfileika mína sem ég á eftir að hafa gagn af þegar ég útskrifast úr skóla.“ — Rachel.
● „Ég veit að ef ég er duglegur get ég náð markmiðum mínum. Ég er í verklegu tækninámi í framhaldsskóla og fæ þjálfun í prentvélaviðgerðum, en það er starfið sem ég sækist eftir.“ — John.
● „Skólinn hefur kennt mér að leysa úr vandamálum, bæði innan skóla og utan. Ég hef þroskast við það að læra að taka áskorunum í skólanum, í samskiptum og við aðrar aðstæður.“ — Cindy.
● „Skólinn hefur búið mig undir vinnumarkaðinn. Ég hef líka oft lent í aðstæðum þar sem ég neyddist til að skoða rökin fyrir trú minni og þannig hefur skólagangan styrkt trúarsannfæringu mína.“ — Rose.
Hinn vitri konungur Salómon skrifaði: „Betri er endir máls en upphaf, betri er þolinmóður maður en þóttafullur.“ (Prédikarinn 7:8) Í stað þess að hætta í skóla er betra að sýna þolinmæði og takast á við erfiðleika sem koma upp. Ef þú gerir það muntu komast að raun um að endir málsins verður góður.
Finna má fleiri greinar á ensku úr greinaflokknum „Ungt fólk spyr“ á vefsíðunni www.watchtower.org/ype
TIL UMHUGSUNAR
● Hvernig geta skammtímamarkmið hjálpað þér að hafa sem mest gagn af skólagöngunni?
● Hvers vegna er mikilvægt að hugsa um hvers konar vinnu þú vilt fá eftir að skólagöngunni lýkur?
[Rammi/myndir á bls. 27]
HVAÐ SEGJA JAFNALDRARNIR?
„Í skólanum lærði ég að hafa unun af bókum. Það er yndislegt að geta skilið hugsanir og tilfinningar annarra með því að lesa.“
„Ég á oft erfitt með að skipuleggja tímann. En ef ég væri ekki í skóla gengi mér enn verr. Skólinn auðveldar mér að hafa góðar venjur, halda mig við stundaskrá og koma mikilvægum hlutum í verk.“
[Myndir]
Esme
Christopher
[Rammi á bls. 28]
MARKMIÐ MÍN MEÐ NÁMINU
Tilgangurinn með náminu er fyrst og fremst að búa þig undir að fá vinnu til að þú getir séð fyrir þér og fjölskyldunni sem þú munt ef til vill eignast. (2. Þessaloníkubréf 3:10, 12) Ertu búinn að ákveða hvers konar vinnu þú vilt fá og hvernig þú getur notað skólagönguna til að búa þig undir hana? Spurningarnar hér að neðan gætu hjálpað þér að sjá hvort þú stefnir í rétta átt með því námi sem þú stundar.
Hverjar eru mínar sterku hliðar? (Ertu til dæmis lipur í samskiptum? Hefurðu gaman af því að vinna með höndunum, búa til hluti eða gera við? Áttu auðvelt með að skilja og leysa verkefni?)
․․․․․
Hvaða vinna myndi henta mér miðað við mínar sterku hliðar?
․․․․․
Hvers konar atvinna er í boði þar sem ég bý?
․․․․․
Hvaða námsbraut get ég valið sem býr mig undir vinnumarkaðinn?
․․․․․
Hvaða námsmöguleikar eru í boði sem gætu auðveldað mér að ná markmiðum mínum?
․․․․․
Mundu að markmiðið er að útskrifast úr námi sem kemur þér að gagni. Farðu ekki heldur út í hinar öfgarnar að verða eilífðarnemandi. Það væri eins og að halda endalaust áfram með lestinni bara til komast hjá þeirri ábyrgð sem fylgir því að vera fullorðinn.
[Rammi á bls. 29]
TIL FORELDRA
„Kennararnir eru leiðinlegir.“ „Ég fæ of mikla heimavinnu.“ „Ég hef svo mikið fyrir því að læra en samt rétt næ ég prófum. Hvers vegna á ég að leggja þetta á mig?“ Þess konar vonbrigði valda því að suma unglinga langar til að hætta í skóla áður en þeir ná að afla sér þeirrar kunnáttu sem þarf til að geta séð sómasamlega fyrir sér. Hvað er til ráða ef sonur þinn eða dóttir vill hætta í skóla?
Skoðaðu eigin viðhorf til menntunar. Fannst þér skólinn vera tímasóun, eins konar „fangelsisdómur“ sem þú þyrftir að afplána þar til þú gætir farið að sinna áhugaverðari markmiðum? Ef svo er gætu börnin smitast af hugsunarhætti þínum. En í rauninni hjálpar alhliða menntun þeim að ,varðveita visku og gætni‘ sem er nauðsynlegt til að þeim gangi vel þegar þau verða fullorðin. — Orðskviðirnir 3:21.
Skapaðu góðar aðstæður. Sumir gætu fengið hærri einkunnir ef þeir bara kynnu að læra eða ef þeir hefðu betri aðstæður til þess. Hæfilegt borðpláss, góð lýsing og fullnægjandi námsgögn geta skapað góðar aðstæður til náms. Þú getur hjálpað barninu þínu að taka framförum, bæði í skólanum og í trúnni, ef þú kennir því góða námstækni og skapar því gott umhverfi til að stunda nám og hugleiða það sem það lærir. — 1. Tímóteusarbréf 4:15.
Vertu í góðu sambandi við skólann. Hugsaðu um kennara og námsráðgjafa sem samstarfsmenn, ekki óvini. Hafðu samband við þá. Þekktu þá með nafni. Talaðu við þá um markmið unglingsins og það sem honum finnst erfitt. Ef hann fær lélegar einkunnir, reyndu þá að komast að ástæðunni fyrir því. Gæti verið að hann sé hræddur við að verða fyrir aðkasti fyrir að skara fram úr? Ná hann og kennarinn ekki vel saman? Hvað um námsáætlunina? Hún ætti að hvetja nemandann en ekki vera yfirþyrmandi. Það mætti einnig athuga hvort eitthvað líkamlegt gæti verið að eins og slæm sjón eða sértækir námsörðugleikar.
Því betur sem þú fylgist með þroska unglingsins, bæði í skóla og í trúnni, þeim mun meiri líkur eru á að honum gangi vel. — Orðskviðirnir 22:6.
[Mynd á bls. 29]
Að hætta í skóla er eins og að stökkva af lest áður en maður kemst á áfangastað.