Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Bók sem þú getur treyst — 1. hluti

Egyptaland og biblíusagan

Bók sem þú getur treyst — 1. hluti

Biblían var skrifuð á hér um bil 1.600 ára tímabili. Saga hennar og spádómar tengjast sjö heimsveldum: Egyptalandi, Assýríu, Babýlon, Medíu-Persíu, Grikklandi, Róm og því ensk-ameríska. Fjallað verður um þau hvert um sig í alls sjö greinum. Markmiðið er að sýna fram á að Biblían sé trúverðug, að hún sé innblásin af Guði og að boðskapur hennar veiti von um að endir verði á þeim þjáningum sem stafa af óstjórn manna.

EGYPTALAND, með píramídunum og Nílarfljótinu, var fyrsta heimsveldi biblíusögunnar. Ísraelsþjóðin varð til í skjóli þess. Móse, sem ritaði fyrstu fimm bækur Biblíunnar, fæddist í Egyptalandi og hlaut menntun sína þar. Kemur það sem Móse skrifaði um þessa fornu þjóð heim og saman við veraldlega sögu og fornleifar? Við skulum líta á nokkur dæmi.

Trúverðug saga

Titlar og orðaval.

Nákvæmni sögulegra frásagna endurspeglast oft í smáatriðunum, svo sem siðvenjum, siðareglum, nöfnum og titlum embættismanna og svo mætti lengi telja. Hvernig standast fyrstu tvær bækur Biblíunnar skoðun hvað þetta varðar? Í bókinni New Light on Hebrew Origins eftir J. Garrow Duncan segir um frásögu 1. Mósebókar af Jósef, syni ættföðurins Jakobs, og um frásögu 2. Mósebókar: „[Biblíuritarinn] gerþekkir tungu, siði, trúarskoðanir, hirðsiði, siðareglur og embættismannakerfi Egypta.“ Höfundur bætir við: „[Ritarinn] nefnir réttu nafni þá titla sem notaðir voru, og hann notar þá nákvæmlega eins og gert var á því tímabili sem er til umræðu . . . Ekkert sýnir betur fram á ítarlega þekkingu á egypskum málum í Gamla testamentinu og trúverðugleika ritaranna en að orðið faraó skuli vera notað á hinum ýmsu tímum.“ Duncan segir enn fremur: „Þegar [ritarinn] lætur sögupersónur sínar ganga fram fyrir faraó lætur hann þær halda rétta hirðsiði og nota rétta málið.“

Tígulsteinagerð.

Meðan Ísraelsmenn voru þrælar í Egyptalandi voru þeir látnir gera tígulsteina úr leir og blanda í hann hálmi sem bindiefni. (2. Mósebók 1:14; 5:6-18) * Fyrir nokkrum árum kom út bókin Ancient Egyptian Materials and Industries. Þar segir meðal annars: „Óvíða hefur [tígulsteinagerð] verið stunduð meira en í Egyptalandi þar sem sólþurrkaður tígulsteinn hefur alla tíð verið einkennandi byggingarefni og er enn.“ Í bókinni er einnig minnst á „þann sið Egypta að nota hálm við tígulsteinagerð“, og það staðfestir þessar upplýsingar sem fram koma í Biblíunni.

Rakstur.

Hebreskir karlar til forna létu sér vaxa skegg. Í Biblíunni segir hins vegar frá því að Jósef hafi rakað sig áður en hann gekk fyrir faraó. (1. Mósebók 41:14) Þetta gerði hann til að fylgja venjum og hirðsiðum Egypta en samkvæmt þeim var það merki um sóðaskap að vera skeggjaður. „[Egyptar] lögðu metnað sinn í að vera nauðrakaðir,“ að sögn bókarinnar Everyday Life in Ancient Egypt. Í egypskum grafhýsum hafa fundist snyrtiáhöld, svo sem rakhnífar, plokkarar og speglar ásamt tilheyrandi ílátum. Ljóst er að Móse var vandvirkur sagnaritari. Hið sama er að segja um aðra biblíuritara þegar þeir skrásettu atburði sem tengdust Egyptalandi til forna.

Verslun og viðskipti.

Jeremía, sem skrifaði báðar Konungabækurnar, tiltekur nokkur smáatriði varðandi kaup Salómons konungs á hestum og vögnum af Egyptum og Hetítum. Að sögn Biblíunnar kostaði vagn „sex hundruð sikla silfurs og hver hestur hundrað og fimmtíu sikla“ eða fjórðung af verði vagnsins. — 1. Konungabók 10:29.

Gríski sagnaritarinn Heródótus staðfestir að blómleg verslun hafi verið með hesta og vagna í stjórnartíð Salómons, og fornleifafundir bera vitni um hið sama. Þetta kemur fram í bókinni Archaeology and the Religion of Israel. Að sögn bókarinnar var „gangverðið fjórir . . . hestar fyrir egypskan vagn“ en það er sama hlutfall og gefið er upp í Biblíunni.

Hernaður.

Jeremía og Esra minnast báðir á innrás Sísaks faraós í Júda. Báðir taka fram að hún hafi átt sér stað „á fimmta stjórnarári Rehabeams konungs“ í Júda, það er að segja árið 993 f.Kr. (1. Konungabók 14:25-28; 2. Kroníkubók 12:1-12) Lengi vel var Biblían eina heimildin um þessa innrás. Síðan fannst lágmynd á vegg í egypsku musteri í Karnak (en hún hét Þeba að fornu).

Lágmyndin sýnir Sísak standa frammi fyrir guðinum Amón með hönd reidda til að berja á bandingjum sínum. Þar eru einnig skráð heiti ísraelskra borga sem hann hefur unnið, og mörg þeirra koma heim og saman við borgarheiti sem nefnd eru í Biblíunni. Að auki er minnst á „akur Abrams“, en það er elsta dæmi í egypskum heimildum um ættföðurinn Abraham sem um er getið í Biblíunni. — 1. Mósebók 25:7-10.

Ljóst má vera að biblíuritararnir fóru ekki með fleipur. Þeir vissu að þeir þurftu að standa Guði reikningsskap verka sinna og fóru rétt með staðreyndir, jafnvel þótt það væri ekki þjóð þeirra til vegsauka eins og gerðist þegar Sísak lagði undir sig borgir í Júda. Slíkur heiðarleiki stingur mjög í stúf við þá ýkjukenndu glansmynd sem annálaritarar Forn-Egypta drógu upp. Þeir gættu þess vandlega að skrá ekkert sem var valdhöfum þeirra eða þjóð til vansa.

Áreiðanlegir spádómar

Enginn nema Jehóva Guð, höfundur Biblíunnar, getur sagt óorðna atburði fyrir með vissu. Skoðum til dæmis spádóm sem Jeremía var innblásið að flytja um tvær egypskar borgir. Þetta voru borgirnar Memfis og Þeba. Memfis, öðru nafni Nóf, var einu sinni mikilvæg verslunar-, stjórnmála- og trúarmiðstöð. Engu að síður sagði Guð: „Nóf verður eyðimörk, brennd til ösku og mannauð.“ (Jeremía 46:19) Og svo fór. Í bókinni In the Steps of Moses the Lawgiver segir að Arabar hafi farið ránshendi um „hinar miklu rústir Memfis“ eftir að þeir unnu hana og hafi notað hana sem grjótnámu. „Innan marka hinnar fornu borgar glittir hvergi í stein upp úr svörtum sandinum,“ segir í bókinni.

Borgin Þeba, sem áður var kölluð Nó-Ammón eða bara Nó, hlaut áþekk örlög ásamt máttlausum guðum sínum. Jehóva sagði um þessa fyrrverandi höfuðborg Egyptalands og miðstöð Amónsdýrkunar: „Ég refsa Amón . . . og faraó og Egyptalandi og guðum landsins . . . Ég mun selja þá í hendur . . . Nebúkadresari, konungi í Babýlon.“ (Jeremía 46:25, 26) Konungur Babýlonar lagði Egyptaland undir sig eins og spáð var, þar á meðal merkisborgina Nó-Ammón. Eftir að Kambýses annar Persakonungur réðst á borgina árið 525 f.Kr. hallaði jafnt og þétt undan fæti hjá henni og að síðustu lögðu Rómverjar hana endanlega í rúst. Biblían er í sérflokki vegna þess hve nákvæmir spádómar hennar eru, og þess vegna er það líka traustvekjandi sem hún segir um framtíðina.

Áreiðanleg von

Fyrsti spádómur Biblíunnar var skráður meðan Egyptaland var heimsveldi. * Það var Móse sem skráði spádóminn og hann er að finna í 1. Mósebók 3:15. Þar stendur að Guð myndi að leiða fram „niðja“ sem skyldi gera út af við Satan og „niðja“ hans, það er að segja þá sem tileinka sér illt háttalag Satans. (Jóhannes 8:44; 1. Jóhannesarbréf 3:8) ,Niðji‘ Guðs var öðrum fremur Messías, Jesús Kristur. — Lúkas 2:9-14.

Kristur mun ráða yfir allri jörðinni. Hann útrýmir illskunni ásamt harðráðum stjórnum manna. Menn fá ekki lengur að ,drottna yfir öðrum þeim til ógæfu‘. (Prédikarinn 8:9) Forðum daga leiddi Jósúa Ísraelsmenn inn í fyrirheitna landið. Á sambærilegan hátt mun Jesús leiða ,mikinn múg‘ guðhræddra manna inn í „land“ sem er annað og meira en fyrirheitna landið til forna. Hann gefur þeim hreinsaða jörð sem verður síðan breytt í eina samfellda paradís. — Opinberunarbókin 7:9, 10, 14, 17; Lúkas 23:43.

Þessi verðmæta von minnir á annan spádóm sem borinn var fram meðan Egyptaland var heimsveldi. Þennan spádóm er að finna í Jobsbók 33:24, 25. Þar segir að Guð ætli að bjarga mönnum úr gröfinni með því að reisa þá upp frá dauðum. Auk þeirra sem lifa af þegar óguðlegir hverfa af sjónarsviðinu eiga milljónir manna eftir að rísa upp frá dauðum og eiga fyrir sér eilíft líf í paradís á jörð. (Postulasagan 24:15) „Tjaldbúð Guðs er meðal mannanna,“ segir í Opinberunarbókinni 21:3, 4. „Hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til.“

Í næsta blaði verður haldið áfram að fjalla um áreiðanlega söguritun og spádóma Biblíunnar. Þá verður rætt um Assýríu, heimsveldið sem tók við af Egyptalandi til forna.

^ Biblían er víða aðgengileg á Netinu. Þeir sem eiga ekki biblíu en hafa netaðgang geta nýtt sér það. Hægt er að nálgast Biblíuna á mörgum tungumálum á vefsetrinu www.mt1130.com.

^ Spádómurinn, sem er skráður í 1. Mósebók 3:15, var fyrst fluttur í Eden en Móse skrásetti hann síðar.