Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 FORSÍÐUEFNI

Að kenna börnum hugulsemi í eigingjörnum heimi

Að kenna börnum hugulsemi í eigingjörnum heimi

Á HVERJUM degi höfum við ótal tækifæri til að sýna öðrum hugulsemi. Samt virðast margir hugsa bara um sjálfa sig. Maður sér merki um það nánast alls staðar – fólk svindlar ósvífið hvert á öðru, er frekt og tillitslaust í umferðinni, orðljótt og skapbrátt.

Í mörgum fjölskyldum hugsar fólk líka fyrst og fremst um sjálft sig. Hjón skilja stundum einungis vegna þess að öðru þeirra finnst það „eiga betra skilið“. Og foreldrar geta óafvitandi innrætt börnum sínum eigingirni. Hvernig þá? Með því að hlaupa eftir öllum duttlungum þeirra og veigra sér við að aga þau.

En margir foreldrar eru að kenna börnum sínum að láta aðra ganga fyrir og árangurinn lætur ekki á sér standa. Börn, sem eru tillitssöm, eiga auðveldara með að eignast vini og halda þeim. Þar fyrir utan eru þau líklegri til að verða ánægð og hamingjusöm. Hvers vegna? Vegna þess að „sælla er að gefa en þiggja“, eins og Biblían segir. – Postulasagan 20:35.

Hvernig geturðu hjálpað börnunum þínum að njóta alls þessa og forðað þeim frá því að verða of upptekin af sjálfum sér eins og svo algengt er? Lítum á þrennt sem ber að varast til að falla ekki í þá gildru að ala upp sjálfselsk börn.

 1 Of mikið hrós

Hver er vandinn? Sérfræðingar hafa komið auga á uggvekjandi tilhneigingu hjá ungu fólki: Margt þeirra kemur út á vinnumarkaðinn með þá flugu í höfðinu að það eigi rétt á skjótum frama, jafnvel þó að það hafi gert lítið sem ekkert til að verðskulda hann. Sumir ganga út frá því vísu að fá fljótt stöðuhækkun þótt þeir hafi ekki einu sinni náð tökum á starfi sínu. Aðrir eru sannfærðir um að þeir séu einstakir og eigi skilið að komið sé fram við þá sem slíka. Svo verða þeir niðurdregnir þegar þeir komast að raun um að það eru ekki allir sama sinnis og þeir.

Hvað býr að baki? Stundum má rekja það til uppeldisins þegar fólk lítur of stórt á sig. Sumir foreldrar hafa til dæmis orðið fyrir sterkum áhrifum af stefnu sem hefur hlotið mikið fylgi síðustu áratugi. Hún snýst um að styrkja sjálfstraust barna eins mikið og hægt er. Hugmyndin að baki þessari stefnu virtist mjög sannfærandi: Ef dálítið hrós er gott fyrir börn er mikið hrós enn betra. En í rauninni er hugmyndin sú að ef börnum er sýnd vanþóknun á nokkurn hátt veiki það sjálfstraust þeirra. Þeir sem fylgdu ekki þessari uppeldisstefnu voru taldir hinir verstu foreldrar. Foreldrum var sagt að það mætti aldrei gera neitt sem ylli því að börnin yrðu óánægð með sig.

Margir foreldrar fóru því að ausa lofi yfir börnin sín, jafnvel þó að þau hefðu ekki gert neitt sérstaklega hrósvert. Þeim var hampað fyrir allt sem þau gerðu vel, hversu smávægilegt sem það var og horft var fram hjá öllum mistökum, stórum sem smáum. Foreldrarnir héldu að til að byggja upp sjálfsálit barnanna þyrfti að leiða hjá sér það slæma sem þau gerðu og hrósa þeim fyrir allt annað. Þeim var meira í mun að gera börnin sín sjálfsánægð en að kenna þeim að gera eitthvað sem þau gætu verið ánægð með.

Hvað segir Biblían? Í Biblíunni kemur fram að hrós eigi rétt á sér þegar það er verðskuldað. (Matteus 25:19-21) En að hrósa börnum bara til að láta þeim líða vel getur leitt til þess að þau fái brenglaða sjálfsmynd. Biblían segir réttilega: „Sá sem þykist vera nokkuð en er þó ekkert blekkir sjálfan sig.“ (Galatabréfið 6:3) Það er góð ástæða fyrir því að Biblían gefur foreldrum eftirfarandi ráð: „Látið ekki hjá líða að leiðrétta börnin. Þau deyja ekki þótt þið séuð ákveðin.“ * – Orðskviðirnir 23:13, Contemporary English Version.

Hvað geturðu gert? Settu þér það markmið að leiðrétta börnin þegar þess er þörf og hrósa þeim þegar þau verðskulda það. Ekki hrósa þeim bara til að auka sjálfsálit þeirra. Að öllum líkindum skilar það sér ekki. „Ósvikið sjálfsöryggi fæst með því að þroska hæfileika sína og læra eitthvað nýtilegt, ekki að fá að heyra að maður sé frábær bara af því að vera til.“ – Generation Me.

„Enginn hugsi hærra um sjálfan sig en hugsa ber heldur í réttu hófi.“ – Rómverjabréfið 12:3.

 2 Ofverndun

Hver er vandinn? Margt ungt fólk, sem er að byrja á vinnumarkaðnum, virðist illa undir það búið að mæta mótlæti. Sumir verða alveg miður sín út af minnstu gagnrýni. Aðrir eru vandfýsnir og vilja aðeins þiggja vinnu sem uppfyllir allar væntingar þeirra. Í bók sinni Escaping the Endless Adolescence segir dr. Joseph Allen frá ungum manni sem kom til hans í atvinnuviðtal og sagði: „Ég hef það á tilfinningunni að þessi vinna geti stundum verið pínulítið leiðinleg og ég vil ekki láta mér leiðast.“ Joseph skrifar: „Hann virtist ekki skilja að öll vinna er einhvern tíma leiðinleg. Hvernig er hægt að vera 23 ára og vita þetta ekki?“

Hvað býr að baki? Undanfarna áratugi hefur mörgum foreldrum fundist þeir tilneyddir að vernda börn sín gegn öllu mótlæti. Féll dóttir þín á prófi? Talaðu þá við kennarann og krefstu þess að hann hækki einkunnina. Fékk sonur þinn sekt fyrir umferðarbrot? Borgaðu þá sektina fyrir hann. Eða er sonur þinn eða dóttir í ástarsorg? Kenndu þá hinum aðilanum um allt.

Þótt það sé vissulega eðlilegt að vilja vernda börnin sín getur það sent þeim röng skilaboð ef þau eru vernduð um of. Þau gætu skilið það sem svo að þau þurfi ekki að taka ábyrgð á gerðum sínum. Í bókinni Positive Discipline for Teenagers stendur: „Í staðinn fyrir að læra að vonbrigði og sársauki geri ekki út af við þau og geti jafnvel verið þroskandi verða [slík] börn mjög sjálfhverf þegar þau vaxa úr grasi og sannfærð um að þau eigi eitthvað inni hjá foreldrum sínum og öllum öðrum.“

Hvað segir Biblían? Mótlæti er hluti af lífinu. Biblían segir meira að segja að allir verði fyrir skakkaföllum. (Prédikarinn 9:11) Það á líka við um gott fólk. Páll postuli þurfti til dæmis að þola alls konar erfiðleika í þjónustu sinni. En það gagnaðist honum að takast á við þá. Hann skrifaði: „Ég hef lært að láta mér nægja það sem ég hef. Ég kann . . . að vera mettur og hungraður, að hafa allsnægtir og líða skort.“ – Filippíbréfið 4:11, 12.

Hvað geturðu gert? Taktu mið af þroska barnsins en kenndu því samt að „sérhver mun verða að bera sína byrði“. (Galatabréfið 6:5) Ef sonur þinn fær sekt fyrir umferðarbrot gæti verið best að láta hann borga hana sjálfur úr eigin vasa. Ef dóttir þín fellur á prófi gæti það verið þörf áminning fyrir hana um að vera betur undirbúin næst. Ef sonur þinn er í ástarsorg skaltu hughreysta hann. Veldu síðan heppilegan tíma til að hjálpa honum að hugleiða hvort hann geti lært og þroskast af þessari reynslu. Börn, sem vinna úr vandamálum sínum, byggja upp seiglu og sjálftraust – eiginleika sem þau gæti skort ef stöðugt er reynt að bjarga þeim úr vandræðum.

„Sérhver rannsaki breytni sjálfs sín og þá mun hann hafa hrósunarefni.“ – Galatabréfið 6:4.

 3 Ofdekur

Hver er vandinn? Í könnun, sem gerð var meðal ungmenna, taldi 81 prósent að mikilvægasta markmið sinnar kynslóðar væri að verða ríkur – það var talið mun mikilvægara en að hjálpa öðrum. En það veitir ekki hamingju að keppast eftir peningum. Þvert á móti hafa kannanir leitt í ljós að þeir sem einblína á efnislega hluti séu óhamingjusamari og niðurdregnari en þeir sem gera það ekki. Líkamlegir og andlegir kvillar eru líka algengari hjá þeim.

Hvað býr að baki? Stundum má rekja vandamálið til þess að börn alast upp á heimilum þar sem allt snýst um efnislega hluti. „Foreldrar vilja að börnin séu hamingjusöm og börn vilja dót,“ segir í bókinni The Narcissism Epidemic. „Foreldrarnir kaupa dót og börnin eru hamingjusöm, en bara í smá tíma. Fljótlega langar þau í meira dót.“

Auglýsingaiðnaðurinn nýtir sér að sjálfsögðu þennan óseðjandi markhóp. Hann ýtir undir hugmyndir á borð við: „Þú átt skilið aðeins það besta af því að þú ert þess virði.“ Margt ungt fólk hefur gleypt við þessu og er núna skuldum hlaðið og getur ekki greitt fyrir þá hluti sem „það á skilið“.

Hvað segir Biblían? Biblían segir að við þörfnumst peninga. (Prédikarinn 7:12) En hún segir líka að ,fégirndin sé rót alls ills‘ og bætir við: „Við þá fíkn hafa nokkrir . . . valdið sjálfum sér mörgum harmkvælum.“ (1. Tímóteusarbréf 6:10) Biblían varar við því að sækjast eftir efnislegum auði og hvetur okkur til að láta okkur nægja að hafa í okkur og á. – 1. Tímóteusarbréf 6:7, 8.

„Þeir sem ríkir vilja verða falla í freistni og lenda í snöru alls kyns óviturlegra og skaðlegra fýsna.“ – 1. Tímóteusarbréf 6:9.

Hvað geturðu gert? Skoðaðu viðhorf þitt til peninga og efnislegra hluta. Forgangsraðaðu rétt og hjálpaðu börnunum að gera það einnig. Í bókinni The Narcissism Epidemic, sem vitnað var í fyrr í greininni, er eftirfarandi tillögu að finna: „Foreldrar og börn geta til dæmis rætt eftirfarandi: Hvenær er það góð hugmynd og hvenær slæm að kaupa eitthvað á útsölu? Hvað eru vextir? Hvenær keyptirðu eitthvað bara af því að einhver annar hvatti þig til þess?“

Varastu að nota „dót“ til að breiða yfir vandamál sem þarf að taka á. „Að hrúga hlutum yfir vandamálin hefur aldrei skilað árangri,“ segir í bókinni The Price of Privilege. „Til að leysa vandamál þarf skilning, dómgreind og samkennd, ekki skó eða töskur.“

^ gr. 11 Biblían mælir ekki með líkamlegu eða andlegu ofbeldi gegn börnum. (Efesusbréfið 4:29, 31; 6:4) Markmiðið með aganum er að kenna þeim en ekki að gefa foreldrunum útrás fyrir reiði sína.