Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 VIÐTAL | MASSIMO TISTARELLI

Þjarkahönnuður skýrir frá trú sinni

Þjarkahönnuður skýrir frá trú sinni

Massimo Tistarelli er prófessor við háskólann í Sassari á Ítalíu. Hann situr í ritstjórn þriggja alþjóðlegra vísindatímarita og er meðhöfundur yfir eitt hundrað vísindagreina. Hann rannsakar hvernig maðurinn fer að því að bera kennsl á andlit og gera að því er virðist einfalda hluti á borð við að grípa bolta. Hann hannar síðan hugbúnað fyrir þjarka – hugbúnað sem getur líkt eftir sjónkerfi mannsins. Vaknið! tók hann tali og spurði hann út í trú hans og vísindastörf.

Hver er trúarlegur bakgrunnur þinn?

Foreldrar mínir voru kaþólskir en ekki kirkjuræknir. Þegar ég var ungur hallaðist ég að því að enginn Guð væri til. Mér var kennt að lífið hefði orðið til við þróun og tók því sem sjálfsagðri staðreynd. Þó að ég tryði ekki á skapara fannst mér samt að það hlyti að vera til eitthvað okkur æðra. Í leit að svörum kynnti ég mér búddatrú, hindúatrú og taóisma. En kenningar þeirra gátu ekki svarað spurningum mínum.

Hvað vakti áhuga þinn á vísindum?

Ég hef alltaf verið heillaður af vélum. Þegar ég var lítill skrúfaði ég meira að segja sundur rafmagnsleikföng sem ég átti og setti þau saman aftur. Pabbi minn var fjarskiptatæknir og ég gat endalaust spurt hann hvernig símar og útvörp virkuðu.

Hvers konar vísindastörf hefurðu stundað?

Ég lærði rafeindaverkfræði við háskólann í Genúa og lauk síðan doktorsgráðu í þjarkahönnun. Ég sérhæfði mig í rannsóknum á sjónkerfi mannsins og í að hanna hugbúnað fyrir þjarka sem líkir eftir því.

Hvers vegna vakti sjónkerfið áhuga þinn?

Það er ótrúlega margbrotið og felur í sér miklu meira en bara augun sjálf. Það nær einnig yfir það ferli að túlka það sem við sjáum. Hugsaðu  þér til dæmis hvað gerist þegar maður grípur bolta. Um leið og maður hleypur fram til að grípa hann varpar augasteinninn mynd af boltanum á sjónhimnuna. Hreyfing boltans og augans hafa svo áhrif á það hvernig myndin færist til á sjónhimnunni. Eðlilega einblínir maður á boltann og þá verður myndin af honum kyrr á sjónhimnunni meðan bakgrunnurinn er „á hreyfingu“.

Á sama augnabliki reiknar sjónkerfið út hraða og stefnu boltans. Svo undarlegt sem það er byrjar útreikningurinn strax á sjónhimnunni þegar augað áætlar hreyfingu boltans miðað við bakgrunn hans. Sjóntaugin flytur svo boðin frá sjónhimnunni til heilans sem gerir enn frekari greiningu og segir manni að grípa boltann á lofti. Þetta er svo margslungið og flókið fyrirbæri að það er ekki hægt annað en að heillast af því.

Hvað sannfærði þig um að til sé skapari?

Árið 1990 vann ég að rannsóknum í nokkra mánuði við Trinity-háskólann í Dublin. Þegar við Barbara, konan mín, vorum á heimleið ræddum við framtíð barnanna okkar. Við ákváðum líka að heimsækja systur mína sem var vottur Jehóva. Hún gaf mér bókina Lífið – varð það til við þróun eða sköpun? sem vottarnir gefa út. Það hreif mig hve mikil rannsóknarvinna lá að baki bókinni og ég gerði mér grein fyrir að ég hafði aðhyllst þróunarkenninguna gagnrýnislaust. Ég hafði til dæmis gert ráð fyrir að þróunarkenningin ætti traustan grunn í steingervingasögunni. En svo er ekki. Því meira sem ég kynnti mér þróunarkenninguna þeim mun sannfærðari varð ég um að hún byggist meira á stóryrðum en staðreyndum.

Ég velti fyrir mér vinnu minni með þjarka. Hönnun hvers var ég að líkja eftir?

Ég velti líka fyrir mér vinnu minni með þjarka. Hönnun hvers var ég að líkja eftir? Ég gæti aldrei hannað þjarka sem er jafn fær og við að grípa bolta. Það er hægt að forrita þjarka svo að hann geti gripið bolta – við tiltekin afmörkuð skilyrði. En hann getur ekki gert það við aðstæður sem forritið nær ekki yfir. Geta okkar til að læra er vélunum langtum fremri og samt eiga vélar alltaf einhvern smið. Þessi staðreynd var bara ein af mörgum sem sannfærði mig um að einhver hlýtur að hafa hannað okkur.

Hvers vegna gerðist þú vottur Jehóva?

Að hluta til vegna þess að okkur Barböru leist vel á námsaðferðir votta Jehóva. Þeir skoða efnið ofan í kjölinn. Ég var sérstaklega hrifinn af því hve rækilega rannsóknarvinnu þeir leggja í ritin sem þeir gefa út. Rækileg rannsóknarvinna höfðar til fólks eins og mín sem vill kafa djúpt niður í smáatriðin. Ég fékk til dæmis gríðarlegan áhuga á spádómum Biblíunnar. Nám mitt á þeim sannfærði mig um að Biblían sé í raun orð Guðs. Við Barbara létum skírast sem vottar Jehóva árið 1992.

Hafa vísindarannsóknir þínar veikt trú þína?

Nei, vísindin hafa þvert á móti styrkt trú mína. Hugsaðu til dæmis út í það hvernig við berum kennsl á andlit. Ungbarn getur gert það fáeinum klukkustundum eftir að það fæðist. Við getum á svipstundu komið auga á einhvern sem við þekkjum, þó að hann sé innan um fullt af fólki, og getum jafnvel séð í hvernig skapi hann er. Við gerum okkur þó sjaldnast grein fyrir því að við erum að vinna úr ótrúlegu magni upplýsinga á leifturhraða.

Ég er alveg sannfærður um að sjónkerfi okkar er dýrmæt gjöf frá Jehóva Guði. Ég finn mig knúinn til að tala um hann við aðra af þakklæti fyrir allar gjafir hans, þar á meðal Biblíuna. Mér finnst það bara sanngjarnt að hann fái heiðurinn af því sem hann hefur gert.