Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 BÝR HÖNNUN AÐ BAKI?

Hali agama-eðlunnar

Hali agama-eðlunnar

AGAMA-EÐLAN stekkur auðveldlega af láréttum fleti yfir á lóðréttan vegg. Ef hún stekkur af hálum fleti skrikar henni fótur en henni tekst samt að lenda öruggum fótum á veggnum. Hvernig þá? Galdurinn liggur í halanum.

Hugleiddu þetta: Þegar agama-eðlan stekkur af hrjúfum fleti – sem gefur gott grip – stillir hún sig fyrst af og heldur halanum niðri. Þetta gerir henni kleift að halda réttum halla í stökkinu. Ef hún stekkur hins vegar af hálum fleti hættir henni til að skrika fótur og halla vitlaust í stökkinu. En hún réttir sig af í loftinu með því að slá halanum upp. Þetta er margbrotið ferli. „Hún verður allan tímann að stilla halann af til að halda réttum halla og lenda rétt,“ segir í grein sem Kaliforníuháskóli í Berkeley birti. Því hálli sem stökkpallurinn er þeim mun hærra verður eðlan að lyfta upp halanum til að tryggja örugga lendingu.

Hali agama-eðlunnar gæti hjálpað verkfræðingum að hanna liprari sjálfstýrð farartæki, eða þjarka, sem hægt væri að nota við rústabjörgun eftir jarðskjálfta eða aðrar hamfarir. „Þjarkar eru ekki nærri eins liprir og dýr og því er allt sem gerir þá stöðugri skref í rétta átt,“ segir rannsóknarmaðurinn Thomas Libby.

Hvað heldurðu? Þróaðist hali agama-eðlunnar? Eða býr hönnun að baki?