Ranglæti blasti alls staðar við mér
ÉG FÆDDIST árið 1965 á Norður-Írlandi. Ég ólst upp í fátækri fjölskyldu í Derry-sýslu á þeim tíma þegar blóðug átök geisuðu milli kaþólikka og mótmælenda, ófremdarástand sem varði í meira en 30 ár. Kaþólikkum, sem voru minnihlutahópur, fannst þeim mismunað af mótmælendum sem voru í meirihluta og sökuðu þá um að standa fyrir ofbeldisverkum lögreglunnar og að beita sig misrétti í kosningum og atvinnu- og húsnæðismálum.
Ranglæti og ójöfnuður blasti alls staðar við mér. Ótal sinnum var ég barinn, dreginn út úr bíl og byssu miðað á mig eða ég tekinn af lögreglu og hermönnum sem leituðu á mér og yfirheyrðu mig. Mér fannst ég vera ofsóttur og hugsaði: „Annaðhvort verð ég að sætta mig við þetta eða sýna þeim í tvo heimana.“
Ég tók þátt í kröfugöngum til að minnast þeirra 14 sem voru skotnir til bana af breskum hermönnum á blóðuga sunnudeginum árið 1972. Ég tók líka þátt í kröfugöngum til heiðurs föngum sem sveltu sig í hel árið 1981. Ég hengdi upp fána Norður-Írlands sem var bannaður og krotaði á veggi áróður gegn Bretum hvar sem ég gat. Enginn skortur virtist á grimmdarverkum og morðum á kaþólikkum til að mótmæla. Friðsamlegar kröfugöngur enduðu oft í blóðugum átökum.
Á meðan ég var í háskóla tók ég þátt í mótmælum umhverfissinnaðra stúdenta. Seinna flutti ég til London og tók þátt í kröfugöngum sósíalista til að mótmæla stefnu stjórnvalda sem virtust hygla yfirstéttinni á kostnað hinna fátæku. Ég tók þátt í verkföllum verkalýðsfélaga til að mótmæla launaskerðingum og ég mótmælti nefskatti í kröfugöngunni á Trafalgar-torgi árið 1990. Torgið var illa leikið eftir þá kröfugöngu.
Oftast nær kyntu mótmælin undir hatrinu í stað þess að bera einhvern árangur. Það olli mér gífurlegum vonbrigðum.
Mennirnir geta ekki komið á réttlæti og jafnrétti þrátt fyrir göfug áform.
Vinur minn kynnti mig fyrir vottum Jehóva um þetta leyti. Þeir notuðu Biblíuna til að sýna mér fram á að Guði standi ekki á sama um þjáningar okkar og að hann ætli sér að gera að engu allan þann skaða sem mennirnir hafa valdið. (Jesaja 65:17; Opinberunarbókin 21:3, 4) Mennirnir geta ekki komið á réttlæti og jafnrétti þrátt fyrir göfug áform. Við þurfum á leiðsögn Guðs að halda. Og það er aðeins á hans valdi að sigrast á þeim ósýnilegu öflum sem standa á bak við vandamál heimsins. – Jeremía 10:23; Efesusbréfið 6:12.
Núna finnst mér að mótmælin gegn óréttlætinu hafi verið eins og tilraun til að rétta við stóla á þilfari sökkvandi skips. Það var mikill léttir að fá að vita að sá tími kemur að ranglætið heyrir sögunni til og allir jarðarbúar verða jafnir.
Biblían kennir að Jehóva Guð hafi „mætur á réttlæti“. (Sálmur 37:28) Þess vegna getum við verið alveg viss um að hann muni koma á réttlæti með þeim hætti sem stjórnir manna eru alls kostar ófærar um. (Daníel 2:44) Ef þú vilt vita meira er þér velkomið að hafa samband við Votta Jehóva þar sem þú býrð eða skoða vefsíðuna okkar www.mt1130.com.