GÓÐ RÁÐ HANDA FJÖLSKYLDUNNI | HJÓNABANDIÐ
Sýnið þakklæti
VANDINN
Til að hjónabandið sé farsælt er mikilvægt að hjón sýni hvort öðru þakklæti. Mörg hjón hætta hins vegar með tímanum að taka eftir góðum eiginleikum makans og hrósa því síður fyrir þá. Í bókinni Emotional Infidelity segir einn ráðgjafi að mörg hjón, sem komi til hans, „séu mjög upptekin af því hvað vanti [í hjónabandið] en tali síður um það góða í því. Þau leita til mín til þess að segja mér hvað þurfi að breytast í hjónabandinu en ekki hvað þau vilji halda í. Öll þessi hjón gera þau mistök að hætta að sýna makanum þakklæti fyrir það sem hann gerir.“
Hvernig getið þið hjónin forðast að falla í þá gryfju?
GOTT ER AÐ VITA
Að sýna þakklæti getur dregið úr spennu í hjónabandinu. Þegar hjón taka eftir góðum eiginleikum hvort annars og hrósa fyrir þá stuðlar það að betra hjónabandi. Og ef makinn finnur að hann er mikils metinn getur það dregið verulega úr spennu í hjónabandinu.
Fyrir eiginkonur. „Mörgum eiginkonum yfirsést það mikla álag sem hvílir á eiginmanninum að sjá fyrir fjölskyldunni,“ segir í fyrrnefndri bók, Emotional Infidelity. Sums staðar er eiginmaðurinn undir álagi jafnvel þótt bæði hjónin vinni úti.
Fyrir eiginmenn. Eiginmenn vanmeta oft á tíðum það sem konan gerir til að hugsa um heimilið hvort sem það er með því að vinna utan heimilis, ala upp börnin eða sjá um heimilisstörf. Fiona, * sem hefur verið gift í þrjú ár, segir: „Við gerum öll mistök. Ég verð óánægð með sjálfa mig þegar mér verður á. En þegar eiginmaður minn hrósar mér fyrir það sem ég geri á heimilinu veit ég að hann elskar mig enn þrátt fyrir galla mína. Ég finn að hann styður mig og ég verð ánægðari með sjálfa mig.“
Ef makanum líður aftur á móti eins og honum sé tekið sem sjálfsögðum hlut getur það ógnað hjónabandinu. „Ef þér finnst maki þinn ekki kunna að meta þig,“ segir eiginkona að nafni Valerie, „er auðvelt að laðast að einhverjum sem sýnir að hann kann að meta þig.“
HVAÐ ER TIL RÁÐA?
Vertu vakandi fyrir því góða í fari makans. Næstu daga skaltu taka eftir góðum eiginleikum í fari maka þíns. Taktu einnig eftir því sem hann gerir til þess að fjölskyldulífið gangi sem best fyrir sig, til dæmis einhverju sem þú hefur hingað til litið á sem sjálfsagðan hlut. Í lok vikunnar skaltu gera lista yfir (1) eiginleika sem þú kannt að meta í fari maka þíns og (2) það sem hann gerir fyrir fjölskylduna. – Ráðlegging Biblíunnar: Filippíbréfið 4:8.
Hvers vegna er mikilvægt að vera vakandi fyrir því góða? „Eftir nokkurra ára hjónaband getur maður farið að líta á maka sinn sem sjálfsagðan hlut. Maður hættir að taka eftir því góða sem hann gerir og tekur frekar eftir því sem hann gerir ekki,“ segir kona sem heitir Erika.
Spyrðu þig: „Lít ég á það sem maki minn gerir á heimilinu sem sjálfsagðan hlut?“ Þakkarðu til dæmis eiginmanninum fyrir þegar hann gerir við hluti á heimilinu eða læturðu það vera af því að þér finnst það vera skylda hans? Finnst þér óþarfi að hrósa eiginkonunni fyrir það hvernig hún hugsar um börnin því að þér finnst hún aðeins vera að gera það sem ætlast er til af henni? Settu þér það markmið að taka eftir og vera þakklátur fyrir allt það sem makinn leggur á sig fyrir fjölskylduna – hvort sem það er stórt eða smátt. – Ráðlegging Biblíunnar: Rómverjabréfið 12:10.
Hrósaðu makanum oft. Í Biblíunni erum við ekki bara hvött til að vera þakklát heldur sýna þakklæti í orði og verki. (Kólossubréfið 3:15, New World Translation) Vendu þig því á að þakka maka þínum. Eiginmaður að nafni James segir: „Þegar konan mín segir að hún kunni að meta það sem ég geri reyni ég að vera enn betri eiginmaður og leggja meira á mig fyrir hjónabandið.“ – Ráðlegging Biblíunnar: Kólossubréfið 4:6.
Það styrkir hjónabandið þegar hjón sýna hvort öðru þakklæti. „Ég held að hjónaskilnuðum fækkaði ef hjón einbeittu sér að því sem þau kunna að meta í fari hvort annars,“ segir eiginmaður að nafni Michael. „Þegar vandamál skjóta upp kollinum myndi þau síður langa til að enda hjónabandið vegna þess að þau eru vön að hugsa um allt það góða í fari maka síns.“
^ Sumum nöfnum er breytt.