Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

2. LÆRDÓMUR

Kenndu barninu hógværð

Kenndu barninu hógværð

HVAÐ ER HÓGVÆRÐ?

Sá sem er hógvær sýnir öðrum virðingu. Hann er ekki hrokafullur né finnst hann vera merkilegri en aðrir heldur sýnir öðrum einlægan áhuga og er fús til að læra af þeim.

Sumir líta á hógværð sem veikleika. En hún er þvert á móti styrkleiki sem auðveldar fólki að viðurkenna mistök sín og takmörk.

HVERS VEGNA ER HÓGVÆRÐ MIKILVÆG?

  • Hógværð auðveldar samskipti. Í bókinni The Narcissism Epidemic segir: „Þeir sem eru hógværir eiga yfirleitt auðvelt með að eignast vini.“ Í bókinni segir enn fremur að þeir eigi „auðveldara með að tengjast fólki“.

  • Hógværð hefur góð áhrif á framtíð barnsins. Hógværð er gagnleg fyrir barnið bæði núna og síðar á ævinni, til dæmis við atvinnuleit. „Ungmenni sem er með of mikið sjálfsálit og gerir sér ekki grein fyrir göllum sínum kemur líklega ekki vel út í atvinnuviðtali,“ segir sálfræðingurinn Leonard Sax. „En ungmenni sem sýnir einlægan áhuga á því sem tilvonandi vinnuveitandi hefur að segja á mun betri möguleika á starfinu.“ *

HVERNIG ER HÆGT AÐ KENNA HÓGVÆRÐ?

Hjálpaðu barninu að líta ekki of stórt á sig.

MEGINREGLA: „Sá sem þykist vera nokkuð en er þó ekkert blekkir sjálfan sig.“ – Galatabréfið 6:3.

  • Ýttu ekki undir of miklar væntingar. Að segja barni að það geti látið alla sína drauma rætast eða að það geti orðið hvað sem það vill hljómar kannski hvetjandi en er sjaldan raunhæft. Barnið nær frekar árangri ef það setur sér raunhæf markmið og leggur sig fram um að ná þeim.

  • Veittu hnitmiðað hrós. Að segja barni að það sé „frábært“ hvetur ekki til hógværðar. Hrósaðu barninu markvisst.

  • Settu því mörk hve mikið barnið notar samfélagsmiðla. Oft dregur fólk upp glansmynd af sjálfu sér á samfélagsmiðlum með því að auglýsa hæfileika sína og afrek, en slíkt hvetur ekki til hógværðar.

  • Kenndu barninu að biðjast afsökunar fljótt. Hjálpaðu barninu að átta sig á mistökum sínum og viðurkenna þau.

Hvettu til þakklætis.

MEGINREGLA: „Verið þakklát.“ – Kólossubréfið 3:15.

  • Þakklæti fyrir sköpunarverkið. Börn þurfa að læra að meta náttúruna sem er okkur svo lífsnauðsynleg. Við þurfum loft til að anda að okkur, vatn til að drekka og mat til að borða. Notaðu þessi dæmi til að vekja þakklæti og lotningu fyrir undrum sköpunarverksins.

  • Þakklæti fyrir annað fólk. Kenndu barninu að öfunda ekki aðra fyrir að vera betri eða hæfileikaríkari á einhvern hátt. Sýndu barninu heldur hvernig það geti lært af þeim.

  • Að sýna þakklæti. Kenndu barninu að þakka fyrir sig af einlægni. Þakklæti stuðlar að hógværð.

Kenndu börnunum gildi þess að hjálpa öðrum.

MEGINREGLA: „Verið lítillát og metið hvert annað meira en ykkur sjálf. Lítið ekki aðeins á eigin hag heldur einnig annarra.“ – Filippíbréfið 2:3, 4.

  • Láttu barnið taka þátt í húsverkunum. Ef þú sleppir barninu við að taka þátt í húsverkum gæti það farið að halda að slík verk séu of lítilsverð fyrir það. Barnið þarf að læra að húsverkin ganga fyrir því að leika sér. Bentu barninu á hvernig vinna þess er öðrum til góðs og að aðrir kunni að meta það sem barnið leggur á sig.

  • Leggðu áherslu á að það sé ánægjulegt að gera öðrum gott. Að hjálpa öðrum er þroskandi. Því skaltu benda barninu á hverja það geti aðstoðað. Ræddu við barnið um hvað það geti gert til að hjálpa. Hvettu barnið og hrósaðu því fyrir að hjálpa öðrum.

^ gr. 8 Úr bókinni The Collapse of Parenting.