HJÁLP FYRIR SYRGJENDUR
Sársaukinn við að missa ástvin
„Við Sophia * höfðum verið gift í 39 ár þegar hún lést úr langvinnum sjúkdómi. Vinir mínir studdu vel við bakið á mér og ég hélt mér uppteknum. En í heilt ár var ég sárþjáður. Tilfinningarnar voru óútreiknanlegar og síbreytilegar. Þó að nú séu liðin næstum 3 ár síðan hún lést hellist sorgin stundum yfir mig fyrirvaralaust.“ – Kostas.
Ef þú hefur orðið fyrir ástvinamissi hefurðu eflaust svipaða reynslu og Kostas. Fátt veldur meiri streitu og sorg en að missa maka sinn, ættingja eða náinn vin. Sérfræðingar, sem hafa rannsakað sársaukann sem fylgir ástvinamissi, hafa komist að sömu niðurstöðu. Í grein, sem var birt í tímaritinu The American Journal of Psychiatry, segir að „enginn missir sé eins sár og endanlegur og dauðinn“. Sá sem verður fyrir slíkum óbærilegum missi veltir kannski fyrir sér: „Hve lengi á mér eftir að líða svona? Á ég nokkurn tíma eftir að finna til gleði á ný? Hvernig get ég fengið huggun?“
Í þessu tölublaði Vaknið! er rætt um þessar spurningar. Næsta grein fjallar um hverju þú mátt búast við ef þú hefur nýlega misst ástvin. Greinarnar þar á eftir fjalla um hvað þú getur gert til að lina sársaukann sem fylgir sorginni.
Það er einlæg ósk okkar að efni blaðsins veiti þeim sem syrgja huggun og hagnýt ráð.
^ gr. 3 Sumum nöfnum í þessari greinaröð hefur verið breytt.