BÝR HÖNNUN AÐ BAKI?
Lögun sjávarskelja
SKELJAR lindýra gera þeim kleift að þola gríðarlegan þrýstinginn á sjávarbotni þar sem þau lifa. Skeljarnar veita hámarksvörn gegn þrýstingi og hafa verkfræðingar því rannsakað lögun og mynstur skelja með það fyrir augum að hanna farartæki og byggingar sem verja þá sem í þeim eru.
Hugleiddu þetta: Verkfræðingar rannsökuðu lögun tveggja tegunda skelja – samlokur (lokuskel) og kuðunga (undin skel).
Þegar þeir rannsökuðu samlokurnar kom í ljós að gárurnar á ytra borði skeljanna beina þrýstingnum að hjörum og ytri börmum þeirra. Aftur á móti beinir skrúfulag kuðunganna þrýstingnum að innri kjarna hans og breiðari endanum. Í báðum tilfellum gerir lögun skeljanna það að verkum að þrýstingurinn beinist að sterkasta hluta þeirra. Þannig eru minni líkur á að lindýrið verði fyrir skaða ef högg kemur á skelina.
Vísindamenn skoðuðu hversu vel skeljar úr náttúrunni þola þrýsting miðað við einfaldar hálfkúlur og keilur sem voru búnar til í þrívíddarprentara og líktust skeljum að samsetningu og lögun. Rannsóknin leiddi í ljós að vegna margbrotins yfirborðs sjávarskeljanna þoldu þær nærri tvöfalt meiri þrýsting en hinar einföldu.
Blaðið Scientific American sagði um niðurstöður rannsóknarinnar: „Ef maður á einhvern tíma eftir að aka bíl, sem er eins og skel í laginu, verður hann bæði nýtískulegur og sérstaklega hannaður til að vernda viðkvæman líkama farþeganna.“
Hvað heldur þú? Þróaðist lögun sjávarskelja? Eða býr hönnun að baki?