GÓÐ RÁÐ HANDA FJÖLSKYLDUNNI | HJÓNABANDIÐ
Að sýna makanum virðingu
VANDINN
Eiginmaðurinn segir: „Eftir að við giftum okkur kom í ljós að við hjónin höfðum ólíkar hugmyndir um hvað fælist í því að sýna virðingu. Það er þó ekki þar með sagt að annað okkar hafi haft rangt fyrir sér en hitt rétt – við höfðum bara ólíkar skoðanir. Stundum fannst mér konan mín ekki sýna mér næga virðingu þegar hún talaði við mig.“
Eiginkonan segir: „Þar sem ég ólst upp tíðkaðist það að fólk talaði hátt, notaði sterk svipbrigði og greip fram í hvort fyrir öðru. Það þótti ekki virðingarleysi. En þetta var gerólíkt því sem maðurinn minn var vanur.“
Virðing í tjáskiptum hjóna ætti ekki að heyra til undantekninga heldur vera fastur þáttur í hjónabandinu. Hvernig geturðu sýnt að þú virðir maka þinn?
GOTT ER AÐ VITA
Eiginmenn hafa þörf fyrir virðingu. Biblían hvetur eiginmenn: „Hver og einn skal elska eiginkonu sína eins og sjálfan sig.“ Síðan segir: „Konan beri lotningu fyrir manni sínum,“ það er að segja djúpa virðingu. (Efesusbréfið 5:33) Bæði hjónin þurfa á ást og virðingu að halda en eiginmenn hafa þó sérstaka þörf á að þeim sé sýnd virðing. „Karlmenn þurfa að finna að þeir geti ráðið fram úr málum, leyst úr vanda og hugsað vel um fjölskylduna,“ segir eiginmaður að nafni Carlos. * Ef eiginkonan styður það sem eiginmaðurinn leggur á sig til að annast fjölskylduna er það þeim báðum til góðs. Eiginkona, sem heitir Corrine, segir: „Ég finn fyrir enn meiri ástúð frá manninum mínum þegar ég sýni honum virðingu.“
Eiginkonur þurfa einnig að fá virðingu. Það er rökrétt vegna þess að eiginmaður, sem virðir ekki konu sína, getur ekki sagst elska hana að sönnu. „Það er mikilvægt að ég taki tillit til skoðana eiginkonu minnar og hlusti á uppástungur hennar,“ segir Daniel. „Og ég verð líka að virða tilfinningar hennar. Þó að ég skilji ekki alltaf hvernig henni líður þýðir það ekki að ég geti bara hunsað tilfinningar hennar.“
Horfðu á málin frá sjónarhorni makans. Málið snýst ekki um hvort þér finnst þú sýna makanum virðingu heldur hvort makanum finnst þú sýna sér virðingu. Eiginkonan, sem minnst var á í rammagreininni „Vandinn“, komst að raun um það: „Ég hugsaði ekki út í að ég sýndi manninum mínum óvirðingu en honum fannst það. Ég þurfti því að breyta hugarfari mínu.“
HVAÐ ER TIL RÁÐA?
-
Skrifaðu niður þrjá eiginleika sem þú kannt að meta í fari makans. Þessir góðu eiginleikar geta verið grunnurinn að því að byggja upp virðingu fyrir makanum.
-
Prófaðu í viku að vera vakandi fyrir því hvernig þér (ekki maka þínum) tekst til á eftirfarandi sviðum:
Þegar þú talar við makann. Í rannsókn, þar sem fylgst var með hjónum, kom í ljós að „hjón í hamingjusömu og traustu hjónabandi komu að jafnaði með fimm jákvæðar athugasemdir á móti einni neikvæðri þegar þau ræddu vandamál. En hjón, sem voru á barmi skilnaðar, komu með minna en eina jákvæða athugasemd á móti hverri neikvæðri þegar þau ræddu málin.“ * – Ráðlegging Biblíunnar: Orðskviðirnir 12:18.
Spyrðu þig: „Tala ég vinsamlega við maka minn? Hversu oft gagnrýni ég hann miðað við hversu oft ég hrósa honum? Hvernig er tónninn í röddinni þegar ég kem með ábendingu eða kvarta yfir einhverju?“ Myndi makinn samsinna þér ef hann heyrði hverju þú svarar? – Ráðlegging Biblíunnar: Kólossubréfið 3:13.
Prófaðu eftirfarandi: Einsettu þér að hrósa makanum að minnsta kosti einu sinni á dag. Tillaga: Hugsaðu um góðu eiginleikana sem hann býr yfir. Temdu þér síðan að segja maka þínum hvað þú kannt að meta í fari hans. – Ráðlegging Biblíunnar: 1. Korintubréf 8:1.
Framkoma þín við makann. Eiginkona að nafni Alicia segir: „Ég ver miklum tíma í húsverk. Þegar maðurinn minn gengur frá eða vaskar upp eftir sig finnst mér hann sýna að hann kunni að meta það sem ég geri og að ég skipti hann máli.“
Spyrðu þig: „Sýni ég með framkomu minni að ég virði maka minn? Ver ég nægum tíma með honum og veiti honum næga athygli?“ Væri makinn sammála svari þínu?
Prófaðu eftirfarandi: Skrifaðu á miða hvernig þú vilt að makinn sýni þér virðingu. Biddu makann að gera slíkt hið sama. Skiptist svo á miðum og vinnið bæði að því að sýna virðingu á þeim sviðum sem makanum fannst mikilvægt. Einbeittu þér að því sem þú þarf að gera. Þá er líklegra að makinn einbeiti sér að því hvernig hann geti tekið framförum.