Hvað ætlar Guð að gera?
Myndirðu ekki reikna með að góður vinur gerði eitthvað til að hjálpa þér ef þú værir í vanda staddur? Sumir segja að Guð sé ekki vinur þeirra því að þeim finnst hann ekki gera neitt til að hjálpa þeim. En sannleikurinn er sá að Guð hefur þegar gert margt til að hjálpa okkur. Þar að auki ætlar hann að grípa til aðgerða til að leysa öll vandamál og erfiðleika sem við glímum við nú á dögum. Hvað ætlar hann að gera?
BINDA ENDA Á ALLA ILLSKU
Guð ætlar að binda enda á alla illsku með því að fjarlægja það sem veldur henni. Biblían bendir á hver sé orsök illskunnar: „Allur heimurinn er á valdi hins vonda.“ (1. Jóhannesarbréf 5:19) ,Hinn vondi‘ er sá sami og Jesús kallaði „höfðingja þessa heims“, það er að segja Satan djöfullinn. (Jóhannes 12:31) Hörmungarnar í heiminum eru til komnar vegna áhrifa Satans á mannkynið. Hvað ætlar Guð að gera?
Fyrir milligöngu Jesú Krists, sonar síns, ætlar Jehóva Guð innan skamms að gera að engu „þann sem hefur mátt dauðans, það er að segja djöfulinn“. (Hebreabréfið 2:14; 1. Jóhannesarbréf 3:8) Reyndar sýnir Biblían okkur að djöfullinn „veit að hann hefur nauman tíma“ áður en honum verður tortímt. (Opinberunarbókin 12:12) Guð ætlar einnig að losa heiminn við alla þá sem stunda illskuverk. – Sálmur 37:9; Orðskviðirnir 2:22.
GERA JÖRÐINA AÐ PARADÍS
Þegar skapari okkar hefur eytt allri illsku af jörðinni lætur hann upphaflega fyrirætlun sína með jörðina og mannkynið verða að veruleika. Hvað bíður okkar þá?
Varanlegur friður og öryggi. „Um daga hans mun hinn réttláti blómstra og friður og farsæld uns tunglið er ekki framar til.“ – Sálmur 72:7.
Nóg af næringarríkum mat. „Gnóttir korns verði í landinu, bylgist það á fjallatindunum.“ – Sálmur 72:16.
Gott húsnæði og ánægjuleg vinna. „Menn munu reisa hús og búa í þeim, planta víngarða og neyta ávaxta þeirra ... Mínir útvöldu njóta ávaxta iðju sinnar.“ – Jesaja 65:21, 22.
Langar þig að lifa við slíkar aðstæður? Innan skamms verða þær daglegt brauð fyrir alla.
AFMÁ VEIKINDI OG DAUÐA
Allir veikjast og deyja en bráðlega heyrir það sögunni til. Innan tíðar sér Guð til þess að lausnarfórn Jesú gagnist mannkyninu svo að „hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf“. (Jóhannes 3:16) Hvað þýðir það fyrir mannkynið?
Veikindi verða liðin tíð. „Enginn borgarbúi mun segja: ,Ég er veikur.‘ Syndir fólksins, sem þar býr, hafa verið fyrirgefnar.“ – Jesaja 33:24.
Dauðinn mun ekki framar þjaka mennina. „Hann [mun] afmá dauðann að eilífu. Drottinn Guð mun þerra tárin af hverri ásjónu.“ – Jesaja 25:8.
Fólk fær eilíft líf. „Náðargjöf Guðs er eilíft líf í Kristi Jesú, Drottni vorum.“ – Rómverjabréfið 6:23.
Látnir verða reistir upp. „Upp [munu] rísa bæði réttlátir og ranglátir.“ (Postulasagan 24:15) Vegna lausnargjaldsins sem Guð gaf mannkyninu fá hinir dánu líf á ný.
Hvernig kemur Guð öllu þessu til leiðar?
KOMA Á FÓT FULLKOMINNI STJÓRN
Guð kemur fyrirætlun sinni með jörðina og mannkynið til leiðar fyrir milligöngu himneskrar stjórnar með Jesú Krist sem konung. (Sálmur 110:1, 2) Jesús kenndi fylgjendum sínum að biðja um að þessi stjórn komi: „Faðir vor, þú sem ert á himnum ... til komi þitt ríki.“ – Matteus 6:9, 10.
Ríki Guðs mun fara með völd yfir jörðinni og binda enda á alla þjáningu og sorg. Þetta er besta stjórn sem hugsast getur fyrir mannkynið. Þess vegna lagði Jesús kapp á að boða „fagnaðarerindið um ríkið“ á meðan hann starfaði hér á jörð og sagði lærisveinum sínum að gera það líka. – Matteus 4:23; 24:14.
Jehóva Guð hefur lofað að gera allt þetta í þágu mannkynsins vegna þess hve heitt hann elskar sköpunarverk sitt. Myndirðu ekki vilja kynnast honum og eignast náið samband við hann? Hvaða gagn geturðu haft af því? Því er svarað í næstu grein.
HVAÐ ÆTLAR GUÐ AÐ GERA? Guð ætlar að afmá veikindi og dauða, sameina mannkynið undir stjórn ríkis síns og gera jörðina að paradís.