Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jesús fór til tengdamóður Péturs og læknaði hana. – Matteus 8:14, 15; Markús 1:29-31.

Er gerð krafa um einlífi til þjóna Guðs?

Er gerð krafa um einlífi til þjóna Guðs?

TRÚARBRÖGÐ víða um heim – svo sem rómversk-kaþólska kirkjan, ýmsar rétttrúnaðarkirkjur, búddatrú og fleiri – gera kröfu um einlífi trúarleiðtoga og presta. Margir telja að þessi krafa sé ein helsta ástæða fjölmargra kynferðisbrota sem prestar hafa verið fundnir sekir um.

Því er ekki úr vegi að spyrja hvort einhverjar biblíulegar kröfur séu um einlífi þjóna Guðs. Til að finna svarið skulum við skoða uppruna og þróun kröfunnar um einlífi og hvernig Guð lítur á málið.

EINLÍFI OG KIRKJUSAGAN

Alfræðiorðabókin Encyclopædia Britannica segir að einlífi sé það „að vera ógiftur og þar af leiðandi halda sig frá kynlífi. Oft helst það í hendur við embætti innan kirkjunnar eða er til komið vegna hollustu við hana.“ Árið 2006 sagði Benedikt páfi sextándi í ávarpi sínu til páfaráðs að krafan um einlífi sé „hefð sem nær næstum allt aftur til daga postulanna“.

Einlífi var þó ekki trúarvenja iðkuð af hinum frumkristnu. Páll postuli, sem var uppi á fyrstu öld, varaði meira að segja kristna menn við því að fram kæmu þeir sem „gefa sig að villuöndum“ og „banna hjúskap“. – 1. Tímóteusarbréf 4:1-3.

Á annarri öld fór einlífi að verða æ algengara í kirkjum hins kristna heims á Vesturlöndum. Samkvæmt bókinni Celibacy and Religious Traditions var það „í takt við þær kynlífshömlur sem urðu ríkjandi innan Rómaveldis á þeim tíma“.

Á næstu öldum hvöttu bæði kirkjuþing og svokallaðir kirkjufeður til einlífis presta. Þeir töldu kynmök saurgandi og ósamboðin prestsembættinu. Encyclopædia Britannica bendir þó á að „allt fram á 10. öld hafi margir prestar og jafnvel biskupar verið kvæntir“.

Krafan um einlífi presta var fest í sessi á Lateranþingunum 1123 og 1139 sem haldin voru í Róm og hefur verið opinber afstaða rómversk-kaþólsku kirkjunnar alla daga síðan. Þannig kom kirkjan í veg fyrir að tapa tekjum og völdum þegar prestar, sem voru kvæntir, arfleiddu börn sín að eigum kirkjunnar.

VIÐHORF GUÐS TIL EINLÍFIS

Viðhorf Guðs til einlífis kemur skýrt fram í orði hans, Biblíunni. Þar talar Jesús um þá sem ákváðu að vera einhleypir „vegna himnaríkis“ eins og hann sjálfur. (Matteus 19:12) Páll postuli var á sama máli þegar hann skrifaði um kristna einstaklinga sem ákváðu að fylgja fordæmi hans sjálfs og vera einhleypir „vegna fagnaðarerindisins“. – 1. Korintubréf 7:37, 38; 9:23.

Hvorki Jesús né Páll voru þó að skipa þjónum Guðs að vera einlífir. Jesús benti á að ekki væri öllum fylgjendum hans „gefið“ að höndla einhleypi. Páll viðurkenndi hreinskilnislega: „Um einlífi hef ég enga skipun frá Drottni. En álit mitt læt ég í ljós.“ – Matteus 19:11; 1. Korintubréf 7:25.

Þar að auki er sagt frá því í Biblíunni að margir þjónar Guðs á fyrstu öldinni hafi verið kvæntir menn, þeirra á meðal Pétur postuli. (Matteus 8:14; Markús 1:29-31; 1. Korintubréf 9:5) Vegna þess hve siðleysi var útbreytt í Rómaveldi á þeim tíma ritaði Páll að ef kristinn umsjónarmaður væri giftur ætti hann að vera „einkvæntur“ og ,venja börn sín á hlýðni‘. – 1. Tímóteusarbréf 3:2, 4.

Ekki var ætlast til skírlífis í þessum hjónaböndum. Biblían er opinská þegar hún segir um kynlíf hjóna: „Karlmaðurinn gæti skyldu sinnar gagnvart konunni.“ Hún bætir við að hjón ættu ekki að ,halda sig hvort frá öðru‘. (1. Korintubréf 7:3-5) Það er því augljóst að Guð hvorki krefst þess né ætlast til af þjónum sínum að þeir séu einlífir.

VEGNA FAGNAÐARERINDISINS

Hvers vegna töluðu bæði Jesús og Páll á svona jákvæðan hátt um einhleypi ef ekki er gerð krafa um einlífi? Vegna þess að einhleypir geta oft notað meiri tíma í boða öðrum fagnaðarerindið. Þeir sem eru einhleypir geta gefið meira af sér þar sem þeir hafa ekki sömu ábyrgð og þeir giftu. – 1. Korintubréf 7:32-35.

Tökum David sem dæmi. Hann hætti í vel launaðri vinnu í Mexíkóborg og fluttist í dreifbýli Kostaríku til að kenna öðrum biblíusannindi. Auðveldaði það David að vera einhleypur? Hann segir: „Algerlega. Það var erfitt að aðlagast annarri menningu og öðrum lifnaðarháttum en það auðveldaði mér að þurfa ekki að sjá um neinn annan en sjálfan mig.“

Claudia, sem er einhleyp, fluttist þangað sem þörf er á fleirum til að boða trúna. Hún segir: „Ég nýt þess að þjóna Guði. Trú mín og sambandið við Guð styrkist þegar ég finn hvernig hann annast mig.“

„Það skiptir ekki máli hvort maður er einhleypur eða í hjónabandi, maður verður hamingjusamur ef maður gerir sitt besta í þjónustunni við Jehóva Guð.“ – Claudia.

Það þarf ekki að vera byrði að vera einhleypur. Claudia segir: „Það skiptir ekki máli hvort maður er einhleypur eða í hjónabandi, maður verður hamingjusamur ef maður gerir sitt besta í þjónustunni við Jehóva Guð.“ – Sálmur 119:1, 2.