Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þegar þig langar ekki að lifa lengur

Þegar þig langar ekki að lifa lengur

„Ég virtist aldrei ætla að losna við þessar slæmu tilfinningar,“ segir Adriana frá Brasilíu. „Mér fannst því skásta lausnin vera sú að binda enda á líf mitt.“

HEFUR ÞÉR einhvern tíma liðið svo illa að þig langaði ekki að lifa lengur? Þá geturðu eflaust sett þig í spor Adriönu. Hún þjáðist af alvarlegum kvíða, var niðurdregin og fannst eins og að það væri engin von. Adriana var greind með þunglyndi.

Skoðum einnig dæmi Kaoru frá Japan sem annaðist aldraða og veika foreldra sína. Hann segir: „Ég var líka undir gríðarlegu álagi í vinnunni. Með tímanum missti ég matarlystina og ég svaf mjög illa. Ég hugsaði um hversu mikill léttir það yrði ef ég myndi bara deyja.“

Maður frá Nígeríu, sem heitir Ojebode, segir: „Ég var alltaf svo niðurdreginn að ég var gráti næst. Ég leitaði því leiða til að binda enda á líf mitt.“ Sem betur fer tóku Ojebode, Kaoru og Adriana ekki líf sitt. En á ári hverju stytta mörg hundruð þúsund manns sér aldur.

HVAR ER HÆGT AÐ FINNA HJÁLP?

Flestir þeirra sem fremja sjálfsvíg eru karlmenn en margir þeirra skömmuðust sín of mikið til að leita sér hjálpar. Jesús sagði að þeir sem væru veikir þyrftu að leita læknis. (Lúkas 5:31) Veigraðu þér því ekki við að leita hjálpar ef þú ert þunglyndur og hefur hugleitt að taka líf þitt. Margir sem glíma við þunglyndi og hafa leitað sér læknisaðstoðar segja það hafa hjálpað sér að halda út. Ojebode, Kaoru og Adriana fengu öll læknisaðstoð og líður mikið betur núna.

Læknar nota lyf, samtalsmeðferð eða hvort tveggja til að meðhöndla þunglyndi. Þeir sem eru þunglyndir þurfa einnig á því að halda að fjölskylda og vinir sýni þeim stuðning og séu samúðarfullir, þolinmóðir og umhyggjusamir. Besti vinur, sem nokkur getur átt, er Jehóva Guð en hann veitir mikla hjálp í orði sínu, Biblíunni.

ER HÆGT AÐ LEYSA VANDANN AÐ FULLU?

Þunglyndissjúklingar þurfa oft að vera í meðferð í lengri tíma og læra að takast á við veikindin með því að gera breytingar á lífi sínu. En ef þú glímir við þunglyndi geturðu, líkt og Ojebode, horft fram til bjartrar framtíðar. Hann segir: „Ég hlakka til að sjá orðin í Jesaja 33:24 rætast en þar segir að enginn á jörðinni muni segja: ,Ég er veikur.‘“ Líkt og Ojebode geturðu fengið huggun í loforði Guðs um „nýja jörð“ þar sem ,kvöl er ekki framar til‘. (Opinberunarbókin 21:1, 4) Þetta loforð felur meðal annars í sér að það verði ekki lengur andlegur og tilfinningalegur sársauki. Sárar tilfinningar þínar verða endanlega á bak og burt og þeirra „verður ekki minnst framar“ og þær munu þér ekki „í hug koma“. – Jesaja 65:17.