FORSÍÐUEFNI | RIDDARARNIR FJÓRIR – HVAÐA ÁHRIF HAFA ÞEIR Á ÞIG?
Riddararnir fjórir og áhrif þeirra
Hestarnir geysast fram svo að dynur undan hófum þeirra! Lýsing Biblíunnar á þessum fjórum öflugu hestum og riddurum þeirra er svo sterk að þeir verða ljóslifandi í huga lesandans. Fyrsti hesturinn er hvítur – knapi hans er dýrlegur, nýkrýndur konungur. Á eftir honum kemur eldrauður hestur og á honum situr knapi sem tekur friðinn burt af jörðinni. Síðan kemur þriðji hesturinn, svartur sem nóttin og á honum situr knapi sem hefur vogarskálar í hendi sér og við kveður dapurlegur boðskapur um matarskort og hungur. Á fjórða hestinum, sem er fölbleikur, situr knapi sem nefnist „Dauði“. Hann táknar drepsóttir og fleiri ógnir. Með honum í för er „Hel“, sameiginleg gröf mannkyns, sem safnar til sín ótal fórnarlömbum. – Opinberunarbókin 6:1-8.
„Þegar ég las fyrst um riddarana fjóra fylltist ég ótta. Ég var viss um að dómsdagur væri í vændum og að ég myndi deyja af því að ég var ekki undirbúin.“ – Crystal.
„Þessir fjórir riddarar á hestum í ólíkum litum heilluðu mig. Og þegar ég lærði hvað sýnin merkir fannst mér útskýringin rökrétt.“ – Ed.
Fyllist þú ótta eins og Crystal þegar þú lest um riddarana fjóra í Opinberunarbókinni? Eða finnst þér sýnin heillandi eins og Ed fannst? Hvað sem því líður er þessi mikilfenglega sýn um reið riddaranna ein þekktasta sýn Opinberunarbókarinnar sem er síðasta bók Biblíunnar. Þú getur haft gagn af því að skilja hvað sýnin merkir. Guð lofar að þú getir öðlast sanna hamingju ef þú lest þessa spádómsbók og ferð eftir því sem þú lærir. – Opinberunarbókin 1:1-3.
Þótt sumum finnist sýnin um riddarana fjóra ógnvekjandi er henni ekki ætlað að hræða okkur. Sýnin hefur öllu heldur styrkt trú milljóna manna og gefið þeim von um bjarta framtíð. Þú getur líka haft gagn af henni. Við hvetjum þig til að lesa næstu grein.