FORSÍÐUEFNI | BIBLÍAN – HVERNIG HEFUR HÚN VARÐVEIST?
Biblían varðveittist þrátt fyrir tilraunir til að breyta boðskap hennar
ÓGNIN: Þrátt fyrir utanaðkomandi ógnir, eins og skemmdir og andstöðu manna, hefur Biblían varðveist. Þar að auki hafa sumir afritarar og þýðendur reynt að breyta boðskap hennar. Stundum hafa þeir reynt að samræma texta Biblíunnar kenningum sínum í stað þess að laga kenningar sínar að boðskap Biblíunnar. Lítum á nokkur dæmi:
-
Tilbeiðslustaður: Á milli fjórðu og annarrar aldar f.Kr. bættu samverskir afritarar Fimmbókaritsins eftirfarandi orðum aftan við 2. Mósebók 20:17: „í Aargaareezem. Og þar skaltu byggja altari.“ Með því reyndu Samverjar að láta ritningarnar styðja byggingu musteris síns í „Aargaareezem“, það er að segja á Garísímfjalli.
-
Þrenningarkenningin: Innan við 300 árum eftir að Biblían var fullrituð bætti afritari, sem studdi þrenningarkenninguna, eftirfarandi orðum við 1. Jóhannesarbréf 5:7: „í himninum: Faðirinn, orðið og heilagur andi, og þessir þrír eru eitt.“ Þessa staðhæfingu var hvergi að finna í upprunalegum texta Biblíunnar. Biblíufræðingurinn Bruce Metzger segir: „Frá og með 6. öld er þessi orð að finna í æ fleiri fornlatneskum handritum og í [latnesku] Vúlgata-þýðingunni.“
-
Nafn Guðs: Margir biblíuþýðendur hafa fjarlægt nafn Guðs úr ritningunum og vísað í hjátrú Gyðinga því til stuðnings. Þeir settu inn titla á borð við „Guð“ og „Drottinn“ í stað nafnsins, en í Biblíunni eru slíkir titlar ekki einungis notaðir um skaparann heldur menn, falsguði og jafnvel djöfulinn. – Jóhannes 10:34, 35; 1. Korintubréf 8:5, 6; 2. Korintubréf 4:4. *
HVERNIG BIBLÍAN VARÐVEITTIST: Þó að sumir biblíuafritarar hafi verið óvandvirkir eða jafnvel falsað textann vísvitandi voru margir afritarar mjög færir og vandvirkir. Masoretar afrituðu Hebresku
ritningarnar á sjöttu til tíundu öld. Þessi afrit eru nefnd masoretatextar. Samkvæmt heimildum töldu þeir orðin og stafina til þess að fullvissa sig um að engin villa hefði slæðst inn. Ef þá grunaði að villa væri í forskriftinni, sem þeir notuðu, skrifuðu þeir athugasemd á spássíuna. Masoretarnir vildu alls ekki breyta texta Biblíunnar. Prófessor Moshe Goshen-Gottstein skrifaði: „Að þeirra áliti hefði það verið hinn versti glæpur að breyta textanum af ásettu ráði.“Þar að auki hjálpa þau fjölmörgu handrit, sem til eru í dag, biblíufræðingum að koma auga á villur. Tökum dæmi: Trúarleiðtogar héldu því fram í margar aldir að latneskar þýðingar þeirra innihéldu upprunalegan texta Biblíunnar. Þó höfðu þeir sett inn í latneskar biblíur sínar viðbótina í 1. Jóhannesarbréf 5:7 sem minnst var á fyrr í greininni. Þessi villa slæddist meira að segja inn í hina mikils metnu King James Version. En hvað hafa aðrir handritafundir leitt í ljós? Bruce Metzger skrifaði: „Þessi orð [í 1. Jóhannesarbréfi 5:7] er ekki að finna í neinum öðrum fornum útgáfum (sýrlenskum, koptískum, armenskum, eþíópískum, arabískum, slavneskum), eingöngu í latneskum útgáfum.“ Þessa viðbót er því ekki að finna í endurbættri útgáfu af King James Version og fleiri biblíum.
Sýna enn eldri handrit að boðskapur Biblíunnar hafi varðveist í tímans rás? Þegar Dauðahafshandritin fundust árið 1947 gátu fræðimenn loks borið hebreska masoretatextann saman við biblíubókrollur sem voru meira en þúsund árum eldri. Einn úr hópi ritstjóranna, sem rannsakaði Dauðahafshandritin, segir um eina bókrolluna: „[Hún] sannar ótvírætt að afritarar Gyðinga hafa á meira en þúsund ára tímabili varðveitt biblíutextann afar vel og vandlega.“
Í Chester Beatty bókasafninu í Dyflinni á Írlandi er að finna safn papírushandrita af nánast öllum bókum Grísku ritninganna, þar á meðal handrit frá annarri öld – afrit sem voru rituð um 100 árum eftir að Biblían var fullrituð. „Þó að papírusritin gefi okkur heilmiklar upplýsingar um ýmis smáatriði í textanum sýna þau jafnframt fram á einstaka varðveislu biblíutextans í gegnum aldirnar,“ segir í The Anchor Bible Dictionary.
„Óhætt er að fullyrða að ekkert annað fornrit hafi varðveist eins vel fram á okkar daga.“
ÁRANGURINN: Þessi mikli fjöldi fornra biblíuhandrita hefur í raun bætt biblíutextann í stað þess að spilla honum. Sir Frederic Kenyon skrifaði um Grísku ritningarnar: „Ekki eru til eins margar og fornar heimildir fyrir nokkru öðru fornriti. Og enginn óhlutdrægur fræðimaður getur neitað því að textinn, sem við höfum undir höndum, sé efnislega sá sami og í upphafi.“ Og fræðimaðurinn William Henry Green sagði um Hebresku ritningarnar: „Óhætt er að fullyrða að ekkert annað fornrit hafi varðveist eins vel fram á okkar daga.“