1 | Bænin – „Varpið öllum áhyggjum ykkar á hann“
BIBLÍAN SEGIR: „Varpið öllum áhyggjum ykkar á [Guð] því að hann ber umhyggju fyrir ykkur.“ – 1. PÉTURSBRÉF 5:7.
Hvað þýðir það?
Jehóva Guð býður okkur að tala við sig um allt sem okkur liggur á hjarta. (Sálmur 55:22) Ekkert vandamál er of stórt eða of lítið til að nefna við hann í bæn. Ef það skiptir okkur máli skiptir það Jehóva máli. Það er mikilvægt að biðja til hans til að fá hugarfrið. – Filippíbréfið 4:6, 7.
Hvernig hjálpar þetta?
Okkur gæti fundist við standa algerlega ein ef við erum að kljást við geðröskun. Aðrir hafa ekki alltaf fullan skilning á því sem við erum að ganga í gegnum. (Orðskviðirnir 14:10) En þegar við tölum af einlægni við Guð um líðan okkar hlustar hann á okkur af samúð og skilningi. Jehóva sér okkur. Hann þekkir sársauka okkar og erfiðleika og vill að við biðjum til hans um allt sem veldur okkur áhyggjum. – 2. Kroníkubók 6:29, 30.
Að tala við Jehóva í bæn styrkir traust okkar á að honum sé annt um okkur. Okkur getur liðið eins og sálmaritaranum sem bað til Guðs: „Þú hefur séð neyð mína og veist hve þjáður ég er.“ (Sálmur 31:7) Bara það að vita að Jehóva er ekki sama um það sem við erum að kljást við getur hjálpað okkur heilmikið að takast á við erfiðleika. En hann tekur ekki bara eftir þjáningum okkar. Hann skilur betur en nokkur annar hvað við erum að ganga í gegnum og hann hjálpar okkur að finna uppörvun og hvatningu í Biblíunni.