Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Geðraskanir – vandi um allan heim

Geðraskanir – vandi um allan heim

„Ég finn stöðugt fyrir kvíða, jafnvel þegar ég er einn inni í herbergi.“

„Þegar mér líður óvenju vel hef ég áhyggjur. Ég veit af reynslunni að þegar ég er svona hátt uppi enda ég yfirleitt langt niðri.“

„Ég reyni að taka einn dag í einu en stundum er bara eins og margra daga áhyggjur hellist yfir mig.“

Þetta er haft eftir fólki sem glímir við geðræn vandamál. Á þetta við um þig eða einhvern nákominn þér?

Mundu að þú ert ekki einn á báti. Geðræn vandamál hafa áhrif á marga nú á dögum, hvort sem þeir sjálfir eða ástvinir þeirra eru að glíma við þau.

Við lifum án efa á ‚hættulegum og erfiðum tímum‘ sem valda miklum þjáningum. (2. Tímóteusarbréf 3:1) Samkvæmt einni rannsókn er um það bil einn af hverjum átta með geðröskun. Vegna COVID-19 faraldursins varð 26 prósent aukning á fólki sem glímir við kvíða og 28 prósent aukning á fólki sem glímir við alvarlegt þunglyndi árið 2020.

Það er mikilvægt að vita hve margir þjást af kvíða og þunglyndi. En það sem skiptir meira máli er hvernig þér og ástvinum þínum getur liðið sem best.

Hvað er geðheilsa?

Þeim sem er við góða geðheilsu líður almennt vel og hann hefur lífsorku. Hann ræður við venjulegt álag, getur náð árangri í vinnu og er ánægður með lífið.

Geðraskanir …

  • ERU EKKI merki um veikleika.

  • ERU vandi sem valda verulegum þjáningum og röskun á hugsun, tilfinningastjórn og hegðun.

  • geta oft gert fólki erfitt fyrir í samskiptum við aðra og að takast á við daglegt amstur.

  • geta lagst á fólk á öllum aldri óháð menningu, kynþætti, ætterni, trú, menntun og efnahag.

Að fá hjálp við geðrænum vandamálum

Finnur þú eða einhver nákominn þér fyrir umtalsverðum breytingum á persónuleika, truflun á svefni eða matarvenjum eða langvarandi kvíða, áhyggjum eða depurð? Þá gætuð þið þurft aðstoð frá fagfólki til að sjá hvað veldur þessu og hvað er til ráða. En hvert er hægt að leita?

Vitrasti maður sem uppi hefur verið, Jesús Kristur, sagði: „Heilbrigðir þurfa ekki á lækni að halda heldur þeir sem eru veikir.“ (Matteus 9:12) Viðeigandi læknismeðferð og lyf geta gert þeim sem glíma við heilsufarsvandamál kleift að halda einkennum í lágmarki og lifa eðlilegu og innihaldsríku lífi. Það er skynsamlegt að draga það ekki á langinn að fá meðferð ef einkennin eru alvarleg eða langvarandi. a

Þó að Biblían sé ekki læknisfræðirit hefur hún að geyma ráð sem eru góð fyrir geðheilsuna. Við hvetjum þig til að skoða eftirfarandi greinar sem fjalla um hvernig Biblían getur hjálpað okkur að takast á við geðræna kvilla.

a Varðturninn mælir ekki með einni læknismeðferð umfram aðra. Hver og einn ætti að íhuga vandlega þá valmöguleika sem standa til boða áður en ákvörðun er tekin.