Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Höfuðþættir Rutarbókar

Höfuðþættir Rutarbókar

Orð Jehóva er lifandi

Höfuðþættir Rutarbókar

BÓKIN segir hjartnæma sögu af gagnkvæmri tryggð tveggja kvenna, gleði þeirra og sorgum. Hún lýsir hve mikils þær mátu samband sitt við Jehóva Guð og hvernig þær treystu fyrirkomulagi hans. Hún dregur fram með skýrum hætti vakandi áhuga Jehóva á ætt Messíasar. Allt þetta og margt fleira kemur fram í Rutarbók í Biblíunni.

Rutarbók nær yfir hér um bil 11 ára sögu „í þá daga, er dómararnir stjórnuðu“ í Ísrael. (Rutarbók 1:1) Þetta hlýtur að hafa verið snemma á dómaratímanum því að landeigandinn Bóas, sem er ein af sögupersónunum, var sonur Rahab þeirrar sem var uppi á dögum Jósúa. (Jósúabók 2:1, 2; Rutarbók 2:1; Matteus 1:5) Líklegt er að það hafi verið spámaðurinn Samúel sem skrifaði bókina og mun það hafa verið árið 1090 f.o.t. Þetta er eina bók Biblíunnar sem er kennd við konu af annarri þjóð en Ísrael, en boðskapurinn er bæði ‚lifandi og kröftugur‘. — Hebreabréfið 4:12.

„HVERT SEM ÞÚ FER, ÞANGAÐ FER ÉG“

(Rutarbók 1:1–2:23)

Naomí og Rut vekja mikla athygli þegar þær koma til Betlehem. Konurnar í borginni spyrja: „Er þetta Naomí?“ en hún svarar: „Kallið mig ekki Naomí, kallið mig Mara, því að hinn Almáttki hefir búið mér beiska harma. Rík fór ég héðan, en tómhenta hefir Drottinn látið mig aftur hverfa.“ — Rutarbók 1:19-21.

Naomí er „rík“ í þeim skilningi að hún á eiginmann og tvo syni um það leyti sem hungursneyð skellur á og fjölskyldan flyst frá Betlehem til Móabs. En einhvern tíma eftir að þau setjast að í Móab deyr Elímelek, eiginmaður hennar. Synirnir tveir ganga síðar að eiga móabískar konur sem heita Orpa og Rut. Um tíu árum síðar deyja báðir synirnir barnlausir og eftir sitja þrjár ekkjur. Naomí ákveður að snúa aftur heim til Júda og tengdadæturnar fylgja henni. Þær eru lagðar af stað þegar Naomí hvetur þær til að snúa við, verða eftir í Móab og finna sér eiginmenn af sinni eigin þjóð. Orpa fer að ráðum hennar en Rut fylgir henni ótrauð og segir: „Hvert sem þú fer, þangað fer ég, og hvar sem þú náttar, þar nátta ég. Þitt fólk er mitt fólk og þinn guð er minn guð.“ — Rutarbók 1:16.

Ekkjurnar tvær, þær Naomí og Rut, koma til Betlehem í þann mund sem bygguppskeran er að hefjast. Rut notfærir sér ákvæði í lögmálinu og tínir eftirtíning á akri nokkrum en svo vill til að akurinn er í eigu roskins Gyðings sem Bóas heitir og er ættingi Elímeleks. Bóas sýnir Rut vinsemd og hún heldur áfram að tína á akri hans „uns byggskurðinum og hveitiskurðinum var lokið“. — Rutarbók 2:23.

Biblíuspurningar og svör:

1:8 — Af hverju segir Naomí tengdadætrum sínum að snúa „hvor um sig til húss móður sinnar“ en ekki föður? Ósagt er látið hvort faðir Orpu var á lífi á þeim tíma en faðir Rutar var lifandi. (Rutarbók 2:11) En Naomí talar um hús mæðra þeirra. Kannski vakir það fyrir henni að minna þær á móðurástina sem þær þekkja frá æskuheimili sínu. Þetta hefur eflaust linað eilítið sársaukann sem fylgdi því að kveðja tengdamóðurina sem var þeim svo kær. Einnig má vera að það megi skilja orð Naomí þannig að mæður þeirra Rutar og Orpu eigi öruggt heimili, ólíkt henni.

1:13, 21 — Voru beiskir harmar Naomí Jehóva að kenna? Nei, og Naomí var ekki heldur að ásaka Guð um rangindi í sinn garð. Hins vegar fannst henni sem Jehóva væri sér mótsnúinn, í ljósi alls þess sem hún hafði mátt þola. Hún var vonsvikin og bitur. Á þeim tíma var litið á barneignir sem blessun Guðs en barnleysi álitin bölvun. Naomí átti engin barnabörn og var búin að missa báða synina. Kannski fannst henni réttlætanlegt að hugsa sem svo að Jehóva hefði auðmýkt hana.

2:12 — Hvaða ‚fullkomnu laun‘ hlaut Rut frá Jehóva? Rut eignaðist son og hlotnaðist sú blessun að vera hlekkur í mikilvægustu ætt sögunnar — ætt Jesú Krists. — Rutarbók 4:13-17; Matteus 1:5, 16.

Lærdómur:

1:8; 2:20. Naomí treysti á ást og umhyggju Jehóva þrátt fyrir harma sína. Við ættum að fara að dæmi hennar, einkum þegar við verðum fyrir erfiðum prófraunum.

1:9. Heimilið ætti að vera annað og meira en staður þar sem fjölskyldan borðar og sefur. Það ætti að vera friðsælt skjól og athvarf.

1:14-16. Orpa sneri „heim aftur til síns fólks og síns guðs“. Rut yfirgaf aftur á móti þægindin og öryggið í heimalandi sínu og sýndi Jehóva hollustu. Ef við elskum Guð og erum fórnfús látum við ekki undan eigingjörnum löngunum. Þá ‚skjótum við okkur ekki undan og glötumst‘. — Hebreabréfið 10:39.

2:2. Rut vildi notfæra sér það að mega tína eftirtíning eins og útlendingar og bágstaddir höfðu leyfi til. Hún var auðmjúk kona. Kristinn maður, sem er þurfandi, ætti ekki að vera svo stoltur að hann þiggi ekki kærleiksríka aðstoð trúsystkina eða opinberan fjárstuðning sem hann á rétt á.

2:7. Rut bað um leyfi til að tína eftirtíning þó að hún ætti rétt á því. (3. Mósebók 19:9, 10) Þetta er til merkis um auðmýkt hennar. Það er viturlegt af okkur að ‚ástunda auðmýkt‘ því að „hinir hógværu fá landið til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu“. — Sefanía 2:3; Sálmur 37:11.

2:11. Rut var ekki aðeins tengdadóttir Naomí heldur vinur í raun. (Orðskviðirnir 17:17) Vinátta þeirra var traust vegna þess að hún byggðist á kærleika, tryggð, samúð, gæsku og fórnfýsi. Síðast en ekki síst byggðist hún á því að þær voru andlega sinnaðar — þær langaði til að þjóna Jehóva og vera meðal tilbiðjenda hans. Við erum sömuleiðis í góðri aðstöðu til að mynda sterk vináttubönd við trúsystkini okkar.

2:15-17. Rut ‚tíndi á akrinum allt til kvölds‘ jafnvel þó að Bóas gerði henni auðveldara fyrir. Hún var harðdugleg. Kristinn maður ætti að vera þekktur fyrir dugnað.

2:19-22. Naomí og Rut áttu ánægjulegar samræður á kvöldin. Naomí sýndi áhuga á því sem Rut tók sér fyrir hendur og báðar töluðu frjálsmannlega um hugleiðingar sínar og tilfinningar. Þannig ætti kristið fjölskyldulíf að vera.

2:22, 23. Rut sóttist eftir félagsskap við tilbiðjendur Jehóva, ólíkt Dínu dóttur Jakobs. Þar er hún okkur góð fyrirmynd. — 1. Mósebók 34:1, 2; 1. Korintubréf 15:33.

NAOMÍ VERÐUR „RÍK“ AÐ NÝJU

(Rutarbók 3:1–4:22)

Naomí er komin af barneignaraldri og biður Rut að eignast barn í sinn stað með því að finna lausnarmann til að gegna mágskyldunni. Rut fer að ráði Naomí og biður Bóas að vera lausnarmaður sinn. Bóas er reiðubúinn til þess en segir henni að til sé nákomnari ættingi sem eigi að fá tækifæri á undan sér.

Bóas situr ekki auðum höndum. Strax næsta morgun kallar hann saman tíu öldunga í Betlehem, fer til fundar við ættingjann og spyr hann hvort hann vilji leysa Rut. Maðurinn neitar því. Bóas gerist þá lausnarmaður Rutar og gengur að eiga hana. Þau eignast soninn Óbeð sem var afi Davíðs konungs. Konurnar í Betlehem segja nú við Naomí: „Lofaður sé Drottinn . . . Hann mun verða huggun þín og ellistoð, því að tengdadóttir þín, sem elskar þig, hefir alið hann, hún, sem er þér betri en sjö synir.“ (Rutarbók 4:14, 15) Konan, sem hafði komið ‚tómhent‘ til Betlehem, er nú orðin „rík“ á nýjan leik. — Rutarbók 1:21.

Biblíuspurningar og svör:

3:11 — Af hverju var Rut þekkt sem „væn kona“? Það var ekki „ytra skart, hárgreiðslur, gullskraut og viðhafnarbúningur“ sem vakti virðingu fólks fyrir henni heldur var það „hinn huldi maður hjartans“. Rut var hógvær og kyrrlát kona, ástrík og trygglynd, iðjusöm og fórnfús. Allar guðhræddar konur þurfa að leggja rækt við þessa eiginleika ef þær langar til að fá góðan orðstír eins og Rut. — 1. Pétursbréf 3:3, 4; Orðskviðirnir 31:28-31.

3:14 — Af hverju fóru Rut og Bóas á fætur áður en birti af degi? Það var ekki af því að eitthvað ósiðlegt hefði átt sér stað um nóttina eða af því að þau vildu fara með leynd. Atferli Rutar þessa nótt virðist hafa verið í samræmi við venju kvenna sem leituðu réttar síns samkvæmt ákvæðum um mágskylduhjónabönd. Hún gerði eins og Naomí sagði henni. Og greinilegt er af viðbrögðum Bóasar að hann sá ekkert athugavert við framferði Rutar. (Rutarbók 3:2-13) Rut og Bóas fóru á fætur fyrir birtingu af því að þau vildu greinilega ekki gefa neitt tilefni til gróusagna.

3:15 — Hvað táknaði það að Bóas skyldi gefa Rut sex mæla byggs? Þetta táknaði kannski að Rut ætti í vændum að fá að hvílast, rétt eins og hvíldardagur fylgir í kjölfar sex daga vinnuviku. Bóas myndi sjá til þess að hún fyndi „athvarf“ í húsi eiginmanns síns. (Rutarbók 1:9; 3:1) Einnig kemur til greina að Rut hafi ekki getað borið meira en sex mæla byggs á höfðinu.

3:16 — Samkvæmt hebreska frumtextanum spurði Naomí Rut: „Hver ert þú, dóttir mín?“ Af hverju spurði hún þannig? Sá hún ekki hver þetta var? Ef til vill ekki því að kannski var enn þá myrkt af nóttu þegar Rut kom aftur til hennar. Einnig mætti skilja þetta þannig að Naomí sé að spyrja hvort Rut hafi fengið lausnarmann og þar með nýtt nafn í vissum skilningi.

4:6 — Í hvaða skilningi gæti lausnarmaður ‚spillt‘ arfleifð sinni með því að leysa konu? Ef hin bágstadda hafði selt erfðaland sitt þurfti lausnarmaðurinn að leggja út fé til að kaupa landið, og kaupverðið fór eftir því hve mörg ár voru fram að næsta fagnaðarári. (3. Mósebók 25:25-27) Þetta myndi rýra eignir lausnarmannsins. Og færi svo að Rut eignaðist son myndi hann, en ekki núverandi afkomendur lausnarmannsins, erfa hinn endurkeypta akur.

Lærdómur:

3:12; 4:1-6. Bóas fylgdi fyrirkomulagi Jehóva samviskusamlega. Fylgjum við starfsháttum safnaðarins í hvívetna? — 1. Korintubréf 14:40.

3:18. Naomí treysti Bóasi. Ættum við ekki sömuleiðis að treysta trúsystkinum okkar sem þjóna Guði dyggilega? Rut var fús til að giftast manni sem hún þekkti ekki og er ekki einu sinni nafngreindur í Biblíunni. (Rutarbók 4:1) Af hverju? Af því að hún treysti fyrirkomulagi Guðs. Treystum við fyrirkomulagi Guðs? Fylgjum við til dæmis þeim leiðbeiningum að giftast aðeins „í Drottni“? — 1. Korintubréf 7:39.

4:13-16. Rut var umbunað ríkulega þó að hún væri móabísk og hefði áður dýrkað guðinn Kamos. Þetta undirstrikar þá meginreglu að „það er . . . ekki komið undir vilja mannsins né áreynslu, heldur Guði, sem miskunnar“. — Rómverjabréfið 9:16.

Til að Guð „á sínum tíma upphefji yður“

Jehóva er kærleiksríkur og umhyggjusamur Guð og sinnir trúum þjónum sínum. (2. Kroníkubók 16:9) Þetta kemur vel fram í Rutarbók. Þegar við hugleiðum hvernig hann blessaði Rut er ljóst hvers virði það er að trúa honum og treysta skilyrðislaust, í þeirri vissu að hann „sé til og að hann umbuni þeim, er hans leita“. — Hebreabréfið 11:6.

Rut, Naomí og Bóas treystu fyrirkomulagi Jehóva og þeim farnaðist vel. Við vitum líka að „þeim, sem Guð elska, samverkar allt til góðs, þeim sem kallaðir eru samkvæmt ákvörðun Guðs“. (Rómverjabréfið 8:28) Við skulum gera eins og Pétur postuli ráðleggur: „Auðmýkið yður því undir Guðs voldugu hönd, til þess að hann á sínum tíma upphefji yður. Varpið allri áhyggju yðar á hann, því að hann ber umhyggju fyrir yður.“ — 1. Pétursbréf 5:6, 7.

[Mynd á blaðsíðu 28]

Veistu hvers vegna Rut vildi ekki yfirgefa Naomí?

[Mynd á blaðsíðu 29]

Af hverju var Rut kölluð „væn kona“?

[Mynd á blaðsíðu 30]

Hvaða ‚fullkomnu laun‘ fékk Rut frá Jehóva?