Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Faðir yðar er miskunnsamur“

„Faðir yðar er miskunnsamur“

„Faðir yðar er miskunnsamur“

„Verið miskunnsamir, eins og faðir yðar er miskunnsamur.“ — LÚKAS 6:36.

1, 2. Hvernig sjáum við af orðum Jesú við faríseana og fylgjendur sína að miskunn er mikilvægur eiginleiki?

Í MÓSELÖGUNUM voru um 600 lagaákvæði. Þótt Ísraelsmenn þyrftu að fylgja þessum ákvæðum var einnig mjög mikilvægt að þeir sýndu miskunn. Lítum á það sem Jesús sagði við hina miskunnarlausu farísea. Hann ávítaði þá tvisvar og benti á að Guð hefði sagt: „Miskunnsemi vil ég, ekki fórnir.“ (Matteus 9:10-13; 12:1-7; Hósea 6:6) Undir lok þjónustu sinnar sagði Jesús: „Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér gjaldið tíund af myntu, anís og kúmeni, en hirðið ekki um það, sem mikilvægast er í lögmálinu, réttlæti, miskunn og trúfesti.“ — Matteus 23:23.

2 Jesús lagði óneitanlega mikla áherslu á miskunn. Hann sagði við fylgjendur sína: „Verið miskunnsamir, eins og faðir yðar er miskunnsamur.“ (Lúkas 6:36) En til að verða „eftirbreytendur Guðs“ að þessu leyti verðum við að vita hvað sönn miskunn er. (Efesusbréfið 5:1) Og þegar við gerum okkur grein fyrir gildi miskunnar viljum við sýna þennan eiginleika í ríkari mæli í lífi okkar.

Miskunn gagnvart bágstöddum

3. Hvers vegna ættum við að skoða fordæmi Jehóva til að læra hvað sönn miskunn er?

3 Sálmaskáldið söng: „Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur. Drottinn er öllum góður, og miskunn hans er yfir öllu, sem hann skapar.“ (Sálmur 145:8, 9) Jehóva er „faðir miskunnsemdanna og Guð allrar huggunar“. (2. Korintubréf 1:3) Miskunn birtist í umhyggju gagnvart öðrum og þessi eiginleiki er áberandi í fari Jehóva. Við getum lært hvað sönn miskunn er af fordæmi hans og kennslu.

4. Hvað lærum við um miskunn af Jesaja 49:15?

4 Jehóva segir í Jesaja 49:15: „Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu, að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu?“ Sú tilfinning, sem fær Jehóva til að sýna miskunn, líkist þeirri hlýju tilfinningu sem móðir ber venjulega til barns síns. Þegar barnið er svangt eða þarfnast einhvers finnur móðirin til með því og sinnir þörfum þess af alúð. Jehóva ber sambærilegar tilfinningar til þeirra sem hann sýnir miskunn.

5. Hvernig sýndi Jehóva að hann var „auðugur að miskunn“ gagnvart Ísraelsmönnum?

5 Það er eitt að finna til með bágstöddum en allt annað að gera eitthvað til að bæta hag þeirra. Tökum sem dæmi viðbrögð Jehóva við því þegar tilbiðjendur hans voru í þrælkun í Egyptalandi fyrir um það bil 3500 árum. Hann sagði við Móse: „Ég hefi sannlega séð ánauð þjóðar minnar í Egyptalandi og heyrt hversu hún kveinar undan þeim, sem þrælka hana; ég veit, hversu bágt hún á. Ég er ofan farinn til að frelsa hana af hendi Egypta og til að leiða hana úr þessu landi og til þess lands, sem er gott og víðlent, til þess lands, sem flýtur í mjólk og hunangi.“ (2. Mósebók 3:7, 8) Um 500 árum eftir að Ísraelsmenn voru frelsaðir úr Egyptalandi sagði Jehóva við þá: „Ég hefi leitt Ísrael út af Egyptalandi, og ég hefi frelsað yður undan valdi Egypta og undan valdi allra þeirra konungsríkja, er kúguðu yður.“ (1. Samúelsbók 10:18) Ísraelsmenn komust oft í miklar nauðir því að þeir viku frá réttlátum meginreglum Guðs. En Jehóva fann til með þeim og bjargaði þeim æ ofan í æ. (Dómarabókin 2:11-16; 2. Kroníkubók 36:15) Þetta sýnir hvernig kærleiksríkur Guð okkar sinnir þeim sem eru í neyð eða lenda í hættu eða erfiðleikum. Jehóva er sannarlega „auðugur að miskunn“. — Efesusbréfið 2:4.

6. Hvernig líkti Jesús Kristur eftir miskunn föður síns?

6 Þegar Jesús Kristur var á jörðinni líkti hann fullkomlega eftir miskunn föður síns. Hvernig brást hann við þegar tveir blindir menn sögðu við hann: „Herra, miskunna þú okkur, sonur Davíðs“? Þeir voru að biðja Jesú um að gefa sér sjónina á ný. Jesús varð við beiðni þeirra en hann framkvæmdi kraftaverkið ekki bara eins og hvert annað vanaverk. Í Biblíunni stendur: „Jesús kenndi í brjósti um þá og snart augu þeirra. Jafnskjótt fengu þeir sjónina.“ (Matteus 20:30-34) Það var vegna samúðar sem Jesús vann mörg kraftaverk til að lina þjáningar blindra, andsetinna, holdsveikra og foreldra veikra barna. — Matteus 9:27; 15:22; 17:15; Markús 5:18, 19; Lúkas 17:12, 13.

7. Hvað má læra um miskunn af fordæmi Jehóva Guðs og sonar hans?

7 Af fordæmi Jehóva Guðs og Jesú Krists má sjá að miskunnsemi er tvíþætt. Hún felur annars vegar í sér að vera umhugað um bágstadda og finna til með þeim og hins vegar að gera eitthvað til að lina þjáningar þeirra. Til að sýna sanna miskunn verða því bæði tilfinningarnar og verkin að fylgjast að. Í Ritningunni vísar miskunn oftast til þess að gera góðverk í þágu nauðstaddra. En hvernig er hægt að sýna miskunn í tengslum við dóma? Er miskunn einnig fólgin í því að grípa ekki til aðgerða og sleppa því að veita refsingu?

Miskunn gagnvart syndurum

8, 9. Hvernig sýndi Guð Davíð miskunn eftir synd hans með Batsebu?

8 Lítum á það sem gerðist eftir að spámaðurinn Natan benti Davíð Ísraelskonungi á syndina sem hann drýgði með Batsebu. Davíð iðraðist og bað: „Guð, vertu mér náðugur sakir elsku þinnar, afmá brot mín sakir þinnar miklu miskunnsemi. Þvo mig hreinan af misgjörð minni, hreinsa mig af synd minni, því að ég þekki sjálfur afbrot mín, og synd mín stendur mér stöðugt fyrir hugskotssjónum. Gegn þér einum hefi ég syndgað og gjört það sem illt er í augum þínum.“ — Sálmur 51:3-6.

9 Davíð var niðurbrotinn. Jehóva fyrirgaf honum synd hans og felldi vægari dóm yfir honum og Batsebu en búast hefði mátt við. Samkvæmt Móselögunum hefði átt að taka þau bæði af lífi. (5. Mósebók 22:22) Guð þyrmdi lífi þeirra en þau gátu samt ekki umflúið allar afleiðingar syndar sinnar. (2. Samúelsbók 12:13) Miskunn Guðs felur í sér að fyrirgefa afbrot. En hann sleppir því ekki að veita viðeigandi refsingu.

10. Hvers vegna megum við ekki syndga upp á náð Guðs þótt hann sé miskunnsamur þegar hann dæmir?

10 Þar sem „syndin kom inn í heiminn fyrir einn mann [Adam]“ og „laun syndarinnar er dauði“ verðskulda allir menn að deyja. (Rómverjabréfið 5:12; 6:23) Við getum því verið innilega þakklát fyrir að Jehóva skuli sýna miskunn þegar hann dæmir. Við verðum hins vegar að gæta þess að syndga ekki upp á náð Guðs. „Allir vegir hans eru réttlæti,“ stendur í 5. Mósebók 32:4. Guð víkur ekki frá fullkomnu réttlæti sínu þegar hann sýnir miskunn.

11. Hvernig vitum við að Jehóva vék ekki frá réttlæti sínu þegar hann tók á afbroti Davíðs?

11 Áður en hægt var að milda dauðadóminn yfir Davíð og Batsebu urðu þau að fá fyrirgefningu syndar sinnar. Dómararnir í Ísrael höfðu ekki umboð til að veita þeim fyrirgefningu. Ef málið hefði verið í þeirra höndum hefðu þeir ekki átt um neitt annað að velja en að dæma þau til dauða því að lögmálið krafðist þess. En vegna sáttmála síns við Davíð vildi Jehóva athuga hvort það væri grundvöllur til að fyrirgefa honum. (2. Samúelsbók 7:12-16) Þess vegna ákvað Jehóva Guð, „dómari alls jarðríkis“ og sá sem „rannsakar hjartað“, að sjá um málið sjálfur. (1. Mósebók 18:25; 1. Kroníkubók 29:17) Hann gat séð nákvæmlega hvað bjó í hjarta Davíðs, metið hversu einlæg iðrun hans var og veitt honum fyrirgefningu.

12. Hvernig geta syndugir menn notið góðs af miskunn Guðs?

12 Jehóva hefur sýnt okkur mikla miskunn. Hann hefur gert okkur kleift að losna undan þeim dauðadómi sem við höfum hlotið vegna erfðasyndarinnar. Þessi miskunn er í fullu samræmi við réttlæti hans. Hann gaf son sinn, Jesú Krist, sem lausnarfórn til að geta fyrirgefið syndir okkar án þess að víkja frá réttlæti sínu. Þetta er mesta miskunnarverk sem nokkurn tíma hefur verið unnið. (Matteus 20:28; Rómverjabréfið 6:22, 23) Við verðum að ‚trúa á soninn‘ til að hljóta þessa miskunn Guðs. — Jóhannes 3:16, 36.

Guð miskunnar og réttlætis

13, 14. Mildar miskunn Guðs réttlæti hans? Skýrðu svarið.

13 Eins og við höfum rætt brýtur miskunn Guðs ekki gegn réttlæti hans. En er hægt að segja að miskunnin veiki réttlætið á einhvern hátt eða mildi það rétt eins og það væri of strangt? Nei, alls ekki.

14 Jehóva sagði við Ísraelsmenn fyrir milligöngu Hósea spámanns: „Ég mun festa þig mér eilíflega, ég mun festa þig mér í réttlæti og réttvísi, í kærleika og miskunnsemi.“ (Hósea 2:19) Af þessum orðum er augljóst að Guð sýnir alltaf miskunn í samræmi við aðra eiginleika sína, þar á meðal réttlæti sitt. Jehóva er „miskunnsamur og líknsamur Guð . . . fyrirgefur misgjörðir, afbrot og syndir, en lætur þeirra þó eigi með öllu óhegnt“. (2. Mósebók 34:6, 7) Hann er Guð miskunnar og réttlætis. Biblían segir um hann: „Bjargið — fullkomin eru verk hans, því að allir vegir hans eru réttlæti.“ (5. Mósebók 32:4) Bæði réttlæti Guðs og miskunn hans eru fullkomin. Hvorugur eiginleikinn er hinum æðri eða þarf á hinum að halda til að milda áhrif sín. Báðir eiginleikarnir vinna fullkomlega saman.

15, 16. (a) Hvers vegna getum við sagt að réttlæti Guðs sé ekki harkalegt? (b) Hverju geta tilbiðjendur Jehóva treyst þegar hann fellir dóm yfir þessu illa heimskerfi?

15 Réttlæti Jehóva er ekki harkalegt. Réttlæti er nánast alltaf tengt lögum, og dómar hafa yfirleitt í för með sér að illvirkjar fái verðskuldaða refsingu. En réttlæti Guðs getur einnig veitt verðugum frelsun. Tökum dæmi: Þegar illvirkjarnir, sem bjuggu í Sódómu og Gómorru, hlutu dóm sinn var ættföðurnum Lot og dætrum hans tveimur bjargað. — 1. Mósebók 19:12-26.

16 Við getum treyst því að þegar Jehóva fellir dóm yfir þessu illa heimskerfi muni hann þyrma miklum múgi sannra tilbiðjenda sem „hafa þvegið skikkjur sínar og hvítfágað þær í blóði lambsins“. Þess vegna komast þeir „úr þrengingunni miklu“. — Opinberunarbókin 7:9-14.

Af hverju ættum við að vera miskunnsöm?

17. Nefndu mikilvæga ástæðu fyrir því að sýna öðrum miskunn.

17 Við getum lært hvað sönn miskunn er af fordæmi Jehóva og Jesú Krists. Í Orðskviðunum 19:17 er okkur bent á mikilvæga ástæðu fyrir því að vera miskunnsöm: „Sá lánar Drottni, er líknar fátækum, og hann mun launa honum góðverk hans.“ Jehóva gleðst þegar við líkjum eftir honum og syni hans með því að vera miskunnsöm hvert við annað. (1. Korintubréf 11:1) Og þegar við sýnum öðrum miskunn eru meiri líkur á að þeir sýni okkur einnig miskunn. — Lúkas 6:38.

18. Af hverju ættum við að leggja okkur fram um að vera miskunnsöm?

18 Miskunn er sambland af mörgum góðum eiginleikum. Hún felur í sér kærleika, góðvild og vinsemd. Hvötin að baki miskunnsemi er innileg samúð og meðaumkun. Þótt miskunn Guðs útvatni ekki réttlæti hans er hann seinn til reiði, sýnir illvirkjum þolinmæði og gefur þeim tíma til að iðrast. (2. Pétursbréf 3:9, 10) Miskunn tengist því þolinmæði og langlyndi. Þar sem miskunn felur í sér svo marga áskjósanlega eiginleika, eins og ýmsa ávexti andans, stuðlar hún að því að við getum þroskað þá með okkur. (Galatabréfið 5:22, 23) Það er því afar mikilvægt að við leggjum okkur fram um að vera miskunnsöm.

„Sælir eru miskunnsamir“

19, 20. Hvers vegna má segja að miskunnsemin gangi sigri hrósandi að dómi?

19 Lærisveinninn Jakob segir okkur af hverju miskunn ætti að vera mikilvægur þáttur í lífi okkar. Hann skrifaði: „Miskunnsemin gengur sigri hrósandi að dómi.“ (Jakobsbréfið 2:13b) Jakob var að tala um þá miskunn sem þjónn Jehóva sýnir öðrum. Hún gengur sigri hrósandi að dómi í þeim skilningi að þegar sá tími kemur að hver maður þarf að „lúka Guði reikning fyrir sjálfan sig“ tekur Guð mið af miskunnarverkum hans og fyrirgefur honum á grundvelli lausnarfórnar sonar síns. (Rómverjabréfið 14:12) Ein ástæðan fyrir því að Jehóva miskunnaði Davíð eftir synd hans með Batsebu var eflaust sú að Davíð var sjálfur miskunnsamur maður. (1. Samúelsbók 24:4-7) En hins vegar verður dómurinn „miskunnarlaus þeim, sem ekki auðsýndi miskunn“. (Jakobsbréfið 2:13a) Það er ekki að furða að „miskunnarlausir“ séu meðal þeirra sem Guð segir að séu „dauðasekir“. — Rómverjabréfið 1:31, 32.

20 Jesús sagði í fjallræðunni: „Sælir eru miskunnsamir, því að þeim mun miskunnað verða.“ (Matteus 5:7) Þessi orð sýna skýrt að þeir sem vilja njóta miskunnar Guðs verða sjálfir að vera miskunnsamir. Í næstu grein verður fjallað um það hvernig við getum sýnt miskunn dags daglega.

Hvað lærðir þú?

• Hvað er miskunn?

• Hvernig er hægt að sýna miskunn?

• Hvers vegna má segja að Jehóva sé Guð miskunnar og réttlætis?

• Af hverju ættum við að sýna öðrum miskunn?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 3]

Þær hlýju tilfinningar, sem Jehóva ber til bágstaddra, líkjast tilfinningum móður til barns.

[Mynd á blaðsíðu 4]

Hvað lærum við um miskunn af kraftaverkum Jesú?

[Mynd á blaðsíðu 5]

Braut Jehóva gegn réttlæti sínu þegar hann miskunnaði Davíð?

[Mynd á blaðsíðu 6]

Sú miskunn, sem Guð sýnir syndugum mönnum, samræmist réttlætisstaðli hans.