Höfuðþættir Hóseabókar
Orð Jehóva er lifandi
Höfuðþættir Hóseabókar
SÖNN guðsdýrkun fyrirfinnst varla lengur í tíuættkvíslaríkinu Ísrael. Þjóðin býr við hagsæld í stjórnartíð Jeróbóams annars, en það dregur úr henni skömmu eftir að hann fellur frá og við tekur ólguskeið og ótryggt ástand í stjórnmálum. Af næstu sex konungum eftir hann eru fjórir ráðnir af dögum. (2. Konungabók 14:29; 15:8-30; 17:1-6) Spámannstíð Hósea teygir sig inn á þetta ólguskeið en hún hefst árið 804 f.Kr. og stendur í 59 ár.
Hjónaband Hósea er lifandi dæmi um afstöðu Jehóva til Ísraelsþjóðarinnar. Boðskapur Hósea er að miklu leyti fólginn í því að afhjúpa villu Ísraelmanna og flytja dóma Guðs yfir þeim og Júdamönnum. Málfar hans vitnar um næmleika og tillitssemi en er jafnframt kröftugt og áhrifamikið. Boðskapur bókarinnar er lifandi og kröftugur líkt og innblásið orð Guðs í heild. — Hebreabréfið 4:12.
„TAK ÞÉR HÓRKONU“
Jehóva segir Hósea: „Far og tak þér hórkonu.“ (Hósea 1:2) Hann hlýðir, tekur sér Gómer fyrir eiginkonu og eignast son með henni. Hún eignast síðan tvö börn til viðbótar en greinilega ekki með honum. Nöfn þeirra merkja „Náðvana“ og „Ekki-minn-lýður“ og þau vísa til þess að Jehóva ætlar ekki að miskunna Ísrael heldur hafna hinni ótrúu þjóð.
Hvaða tilfinningar ber Jehóva annars til hinnar uppreisnargjörnu þjóðar? Hann segir Hósea: „Far enn og elska konu, sem elskar annan mann og haft hefir fram hjá, eins og Drottinn elskar Ísraelsmenn, þótt þeir hneigist að öðrum guðum.“ — Hósea 3:1.
Biblíuspurningar og svör:
1:1 — Hvers vegna nefnir Hósea alla fjóra konungana, sem ríktu í Júda meðan hann var spámaður, en aðeins einn af konungum Ísraels? Ástæðan er sú að enginn konungur var viðurkenndur sem réttmætur stjórnandi útvalinnar þjóðar Guðs nema hann væri af ætt Davíðs. Konungar norðurríkisins voru ekki af ætt Davíðs eins og konungarnir í Júda.
1:2-9 — Gekk Hósea í raun og veru að eiga hórkonu? Já, hann kvæntist konu sem gerðist hórkona síðar. Spámaðurinn gefur hvergi í skyn að það sem hann segir um heimilislíf sitt hafi verið draumur eða sýn.
1:7 — Hvenær var Júdamönnum sýnd náð og þeim hjálpað? Það gerðist árið 732 f.Kr., í stjórnartíð Hiskía konungs. Þá lét Jehóva engil sinn bana 185.000 óvinahermönnum á einni nóttu og batt þar með enda á þá ógn sem Jerúsalem stafaði af Assýringum. (2. Konungabók 19:34, 35) Þannig frelsaði hann Júdamenn en „eigi . . . með boga, sverði, bardögum, stríðshestum né riddurum“ heldur fyrir atbeina engils.
1:10, 11 — Nú féll norðurríkið Ísrael árið 740 f.Kr. Hvernig atvikaðist það þá að Ísraelsmenn og Júdamenn ‚söfnuðust saman‘? Margir úr norðurríkinu höfðu farið til Júda áður en Júdamenn voru fluttir nauðugir til Babýlonar árið 607 f.Kr. (2. Kroníkubók 11:13-17; 30:6-12, 18-20, 25) Þegar hinir útlægu Gyðingar sneru heim árið 537 f.Kr. voru afkomendur þessa norðanmanna meðal hinna heimkomnu. — Esrabók 2:70.
2:21-23 — Hvað á Jehóva við með orðunum: „Ég vil gróðursetja lýð minn í landinu og auðsýna Náðvana náð“? Frumgetinn sonur Hósea með Gómer hét Jesreel. (Hósea 1:2-4) Nafnið merkir „Guð mun sá sæði“ og lýsir því á spádómlegan hátt að Jehóva safni saman hópi trúfastra Gyðinga árið 537 f.Kr. og sái þeim eða gróðursetji í Júda. Landið hafði legið í eyði í 70 ár en nú þurfti það að gefa af sér korn, vínberjalög og olíu. Spádómurinn lýsir með ljóðrænum hætti að þetta þrennt myndi biðja jörðina að veita sér næringu og jörðin myndi biðja himininn um regn. Himinninn myndi síðan biðja Jehóva um regnský. Allt myndi þetta þjóna þeim tilgangi að fullnægja þörfum hinna heimkomnu. Postularnir Pétur og Páll heimfæra Hósea 2:23 upp á það að þeim sem eftir væru af hinum andlega Ísrael yrði safnað saman. — Rómverjabréfið 9:25, 26; 1. Pétursbréf 2:10.
Lærdómur:
1:2-9; 3:1, 2. Hugsaðu þér fórnina sem Hósea færði með því að fara eftir vilja Guðs varðandi hjónaband. Í hvaða mæli erum við fús til að taka vilja Guðs fram yfir okkar eigin smekk eða vilja?
1:6-9. Jehóva hatar andlegan hórdóm ekki síður en bókstaflegan.
1:7, 10, 11; 2:14-23. Spádómar Jehóva um Ísrael og Júda komu fram. Orð hans rætast alltaf.
2:16, 19, 21-23; 3:1-4. Jehóva er fús til að fyrirgefa þeim sem iðrast í einlægni. (Nehemíabók 9:17) Við ættum, líkt og Jehóva, að sýna samúð og miskunn í samskiptum við aðra.
JEHÓVA „HEFIR MÁL AÐ KÆRA“
„Drottinn hefir mál að kæra gegn íbúum landsins.“ Af hverju? „Því að í landinu er engin trúfesti, né kærleikur, né þekking á Guði.“ (Hósea 4:1) Ísraelsmenn hafa reynst ótrúir Guði og gert sig seka um svik og blóðsúthellingar, auk þess að hafa drýgt bæði andlegan og bókstaflegan hórdóm. Í stað þess að leita hjálpar hjá Guði „kalla [þeir] á Egypta, fara á fund Assýringa“. — Hósea 7:11.
Jehóva tilynnir þeim dóm sinn. „Ísrael mun gleyptur verða,“ segir hann. (Hósea 8:8) Og ekki eru Júdamenn saklausir heldur. „Drottinn mun ganga í dóm við Júda,“ segir í Hósea 12:3, „og hegna Jakob eftir breytni hans, endurgjalda honum eftir verkum hans.“ En Jehóva ætlar að reisa þá við, frelsa þá frá „Heljar valdi, leysa þá frá dauða“. — Hósea 13:14.
Biblíuspurningar og svör:
6:1-3 — Hver sagði: „Komið, vér skulum hverfa aftur til Drottins“? Hugsanlegt er að Ísraelsmenn, sem verið höfðu ótrúir Guði, hafi hvatt hver annan til að snúa aftur til hans. Ef það er rétt voru þeir aðeins að sýnast. Ást þeirra var hverful, „eins hvikul og morgunský, eins og döggin, sem snemma hverfur“. (Hósea 6:4) Einnig er hugsanlegt að það sé Hósea sem talar og hann er þá að sárbæna þjóðina um að snúa aftur til Jehóva. Hvort heldur var þurftu hinir þverúðugu íbúar tíuættkvíslaríkisins Ísraels að sýna sanna iðrun og hverfa aftur til Jehóva.
7:4 — Á hvaða hátt voru hórsamir Ísraelsmenn eins og „glóandi ofn“? Samlíkingin vísar til þess hve sterkar hinar illu hvatir voru í hjörtum þeirra.
Lærdómur:
4:1, 6. Ef við viljum viðhalda velþóknun Jehóva verðum við að afla okkur þekkingar á honum og lifa í samræmi við það sem við lærum.
4:9-13. Jehóva lætur alla svara til saka sem stunda siðleysi og óhreina tilbeiðslu. — Hósea 1:4.
5:1. Þeir sem fara með forystuna meðal fólks Guðs verða að hafna afdráttarlaust öllum fráhvarfshugmyndum. Að öðrum kosti gætu þeir tælt aðra til að fara út í falska tilbeiðslu og orðið þeim eins og ‚snara og net‘.
6:1-4; 7:14, 16. Það er til einskis og er hrein og bein hræsni að iðrast aðeins í orði kveðnu. Til að hljóta miskunn Guðs þarf syndari að iðrast af öllu hjarta, og hann þarf að sýna það með því að snúa sér „í hæðirnar“, það er að segja til háleitrar tilbeiðslu. Verk hans ættu að vera í samræmi við háleitan mælikvarða Guðs. — Hósea 7:16.
6:6. Að stunda synd er merki um að maður elski ekki Guð. Engar andlegar fórnir, hversu miklar sem þær eru, geta vegið upp á móti slíku.
8:7, 13; 10:13. Meginreglan að „það sem maður sáir, það mun hann og uppskera“ sannaðist á skurðgoðadýrkendunum í Ísrael. — Galatabréfið 6:7.
8:8; 9:17; 13:16. Spádómarnir um norðurríkið rættust þegar Assýringar tóku höfuðborgina Samaríu. (2. Konungabók 17:3-6) Við getum treyst að Guð gerir það sem hann segir og framkvæmir það sem hann talar. — 4. Mósebók 23:19.
8:14. Jehóva ‚skaut eldi í borgir Júda‘ árið 607 f.Kr. þegar hann lét Babýloníumenn eyða Jerúsalem og Júda eins og hann hafði boðað. (2. Kroníkubók 36:19) Orð Guðs bregðast aldrei. — Jósúabók 23:14.
9:10. Þó að Ísraelsmenn væru vígðir hinum sanna Guði fóru þeir til ‚Baal Peór og helguðu sig svívirðingunni‘. Það er viturlegt að láta víti þeirra vera okkur til varnaðar og brjóta ekki vígsluheit okkar við Jehóva. — 1. Korintubréf 10:11.
10:1, 2, 12. Við ættum að tilbiðja Guð af heilu hjarta. Þegar við ‚sáum velgjörðum uppskerum við góðleik Guðs‘.
10:5. Betaven (sem merkir ‚hús skaðsemdanna‘) er notað sem niðrunarheiti á Betel (en það merkir ‚hús Guðs‘). Samaríubúar hörmuðu skurðgoð sitt þegar kálfslíkneskið í Betaven var flutt í útlegð. Það er ákaflega heimskulegt að treysta á lífvana skurðgoð sem getur ekki einu sinni varið sjálft sig! — Sálmur 135:15-18; Jeremía 10:3-5.
11:1-4. Jehóva er alltaf ástúðlegur við þjóna sína. Það er aldrei þjakandi að vera honum undirgefinn.
11:8-11; 13:14. Það sem Jehóva sagði um endurreisn sannrar tilbeiðslu ‚sneri ekki aftur til hans fyrr en það hafði framkvæmt það sem honum vel líkaði‘. (Jesaja 55:11) Útlegðinni í Babýlon lauk árið 537 f.Kr. og hluti Gyðinganna sneri heim til Jerúsalem. (Esrabók 2:1; 3:1-3) Það er öruggt að allt rætist sem Jehóva hefur sagt fyrir munn spámanna sinna.
12:7. Við ættum að vera staðráðin í að ástunda miskunnsemi og réttlæti og vona stöðugt á Jehóva.
13:6. Þegar Ísraelsmenn „voru saddir orðnir, metnaðist hjarta þeirra. Þess vegna gleymdu þeir [Jehóva].“ Við megum ekki hafa tilhneigingu til að upphefja okkur.
„VEGIR DROTTINS ERU RÉTTIR“
Hósea sárbænir Ísraelsmenn um að breyta um stefnu: „Snú þú við, Ísrael, til Drottins, Guðs þíns, því að þú steyptist fyrir misgjörð þína.“ Hann hvetur þá til að biðja til Jehóva: „Fyrirgef með öllu misgjörð vora og ver góður, og vér skulum greiða þér ávöxt vara vorra.“ — Hósea 14:1, 2.
Iðrandi syndari ætti að snúa sér til Jehóva, viðurkenna aðferðir hans og færa honum lofgerðarfórn. Af hverju? Af því að „vegir Drottins eru réttir“ og „hinir réttlátu ganga þá öruggir“. (Hósea 14:9) Við fögnum því að margir „munu á hinum síðustu dögum flýja til Drottins og til hans blessunar“. — Hósea 3:5.
[Mynd á blaðsíðu 23]
Fjölskyldulíf Hósea er sýnidæmi um samskipti Jehóva við Ísrael.