Spurningar frá lesendum
Spurningar frá lesendum
Sagði Jesús Kristur postulunum 12 að taka með sér göngustafi og vera í skóm þegar hann sendi þá út að prédika fagnaðarerindið?
Sumir halda því fram að frásagnir guðspjallanna þriggja af því þegar Jesús sendi postulana út séu í mótsögn hver við aðra. En með því að bera saman þessar frásagnir komumst við að athyglisverðri niðurstöðu. Berum fyrst saman það sem Markús skrifaði og það sem stendur í Lúkasarguðspjalli. Í Markúsarguðspjalli segir: „[Jesús] bauð þeim að taka ekkert til ferðarinnar annað en staf, ekki brauð, mal né peninga í belti. Þeir skyldu hafa skó á fótum en ekki tvo kyrtla.“ (Mark. 6:7-9) Lúkas skrifaði: „Takið ekkert til ferðarinnar, hvorki staf né mal, brauð né silfur, og enginn hafi tvo kyrtla.“ (Lúk. 9:1-3) Við sjáum hér hvað virðist stangast á. Í frásögn Markúsar var postulunum sagt að taka með staf og hafa skó á fótum sér en í frásögn Lúkasar er þeim sagt að taka ekkert með sér, ekki einu sinni staf. Lúkas minntist ekki á skó, ólíkt Markúsi.
Við skiljum betur hverju Jesús vildi koma á framfæri við þetta tækifæri ef við skoðum það sem er sameiginlegt með öllum þrem frásögnunum. Í guðspjöllum Markúsar og Lúkasar, sem og í Matteusi 10:5-10, var postulunum sagt að taka ekki „tvo kyrtla“. Líklega klæddust postularnir einum kyrtli. Þeir áttu því ekki að taka annan með í ferðina. Þeir voru líka í skóm. Markús minntist á að „þeir skyldu hafa skó á fótum“, skóna sem þeir voru þegar í. Hvað með göngustafi? Alfræðibókin The Jewish Encyclopedia segir: „Svo virðist sem það hafi verið almenn venja hjá Gyðingum til forna að hafa líka staf meðferðis.“ (1. Mós. 32:10) Markús talar um að „taka ekkert til ferðarinnar“ annað en stafinn sem þeir höfðu í hendi þegar Jesús gaf þeim þessi fyrirmæli. Guðspjallaritararnir voru þar með að leggja áherslu á boð Jesú um að seinka ekki ferðinni til þess eins að búa sig betur.
Matteus, sem heyrði þessi fyrirmæli Jesú og skráði, leggur enn frekari áherslu á þetta. Jesús sagði: „Takið ekki [„fáið yður eigi“, Biblían 1908] gull, silfur né eir í belti, eigi mal til ferðar né tvo kyrtla og hvorki skó né staf. Verður er verkamaðurinn fæðis síns.“ (Matt. 10:9, 10) Hvað með skóna sem postularnir voru í og stafina sem þeir höfðu í höndum sér? Jesús sagði þeim að fá sér ekki slíka hluti til að taka með sér, en hann sagði þeim ekki að losa sig við það sem þeir höfðu. Hvers vegna gaf hann slík fyrirmæli? Vegna þess að „verður er verkamaðurinn fæðis síns“. Þetta var kjarninn í fyrirmælum Jesú og þau voru í samræmi við hvatningu hans í fjallræðunni, þess efnis að hafa ekki áhyggjur af mat, drykk og klæðnaði. — Matt. 6:25-32.
Enda þótt frásagnir guðspjallanna virðist í fljótu bragði stangast á benda þær allar á hið sama. Postularnir áttu að leggja af stað eins og þeir voru en gera sér ekki áhyggjur af því hvort fleira vantaði til fararinnar. Af hverju? Af því að Jehóva myndi sjá fyrir þeim.
Við hvað átti Salómon þegar hann talaði um „fjölda kvenna“? —Við vitum það ekki með vissu en einn möguleiki er sá að Salómon hafi verið að tala um háttsettar konur sem hann hitti við konungshirðina.
Í öðrum kafla Prédikarans taldi Salómon upp margt af því sem hann hafði komið í verk, þar á meðal miklar byggingarframkvæmdir. Hann bætti svo við: „Ég safnaði mér silfri og gulli og fjársjóðum frá konungum og öðrum löndum. Ég fékk mér söngmenn og söngkonur og sjálft karlmannsyndið, fjölda kvenna.“ — Préd. 2:8.
Margir biblíuskýrendur halda því fram að þegar Salómon minntist á „fjölda kvenna“ hafi hann átt við þær fjölmörgu útlendu eiginkonur og hjákonur sem hann eignaðist síðar á ævinni og fengu hann til að dýrka falsguði. (1. Kon. 11:1-4) En það eru vankantar á þeirri skýringu. Þegar Salómon skrifaði þessi orð var hann þegar kunnugur þessum „fjölda kvenna“. Og á þeim tíma hafði hann enn velþóknun Jehóva því að Jehóva innblés honum að skrifa bækur sem urðu hluti af Biblíunni. Varla hafði hann velþóknun Jehóva seinna á ævinni þegar hann eignaðist hundruð útlendra eiginkvenna og hjákvenna og byrjaði að dýrka falsguði.
Í Prédikaranum stendur: „[Salómon] leitaðist við að finna fögur orð og það sem hann hefur skrifað í einlægni eru sannleiksorð.“ (Préd. 12:10) Salómon þekkti augljóslega orðin „eiginkona“, „drottning“ og „hjákona“ því að hann notaði þau þegar hann skrifaði undir innblæstri heilags anda. (Orðskv. 5:18; Ljóðalj. 6:8, 9) Hann notar hins vegar ekkert þessara algengu orða í Prédikaranum 2:8.
Hebreska orðið, sem þýtt er „fjölda kvenna“, er óvenjulegt og kemur aðeins fyrir í þessu eina versi í Biblíunni. Fræðimenn viðurkenna að þeir séu óvissir um merkingu þess. Margir biblíuþýðendur líta svo á að fleirtölumynd þessa orðs í Prédikaranum 2:8 lýsi ekki aðeins fjölda heldur einnig mikilfengleika. Í sumum biblíuþýðingum, eins og í Nýheimsþýðingunni, er það þýtt „kona, já, konur“ til að ná fram þeirri hugmynd.
Frægð Salómons var slík að drottningin í auðuga ríkinu Saba frétti af honum, heimsótti hann og var djúpt snortin. (1. Kon. 10:1, 2) Hugsanlegt er að þar sé komin ein skýring á orðum Salómons um „fjölda kvenna“. Hann kann að hafa átt við mikilfenglegar konur sem hann hitti við hirð sína þau fjölmörgu ár sem hann naut velþóknunar Guðs.