Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Leyfðu Jehóva að aga þig og móta

Leyfðu Jehóva að aga þig og móta

„Þú leiðir mig eftir ályktun þinni og síðan munt þú taka við mér í dýrð.“ – SÁLM. 73:24.

1, 2. (a) Hvað er nauðsynlegt til að eiga gott samband við Jehóva? (b) Hvers vegna er gagnlegt að kynna sér frásögur Biblíunnar af því hvernig fólk brást við ögun Guðs?

 „MÍN gæði eru það að vera nálægt Guði, ég gerði Drottin að athvarfi mínu.“ (Sálm. 73:28) Þannig lýsir sálmaskáldið trausti sínu til Guðs. Hvað varð til þess að hann komst að þessari niðurstöðu? Í fyrstu fann hann til beiskju í hjarta sér þegar hann horfði upp á velgengni hinna guðlausu. Hann sagði mæðulega: „Til einskis hef ég haldið hjarta mínu hreinu og þvegið hendur mínar í sakleysi.“ (Sálm. 73:2, 3, 13, 21) En þegar hann kom í „helgidóma Guðs“ tókst honum að sjá hlutina í réttu ljósi og varðveita sambandið við Guð. (Sálm. 73:16-18) Þessi guðhræddi maður lærði mikilvæga lexíu: Til að eiga náið samband við Jehóva er nauðsynlegt að vera með þeim tilbiðja hann, hlusta á leiðbeiningar hans og fara eftir þeim. – Sálm. 73:24.

2 Við þráum líka að eiga innilegt samband við hinn sanna og lifandi Guð. Til að svo verði þurfum við að fara eftir leiðbeiningum hans og leyfa honum að aga okkur og móta. Þá getum við verið þess konar fólk sem hann hefur velþóknun á. Guð sýndi einstaklingum og þjóðum þá miskunn forðum daga að gefa þeim tækifæri til að taka á móti öguninni sem hann veitti. Í Biblíunni er sagt frá viðbrögðum þeirra. Það er gert „okkur til fræðslu“ og „til viðvörunar okkur sem endir aldanna er kominn yfir“. (Rómv. 15:4; 1. Kor. 10:11) Með því að kynna okkur þessar frásögur vel fáum við betri skilning á eiginleikum Jehóva og áttum okkur á hvernig við getum látið hann móta okkur.

LEIRKERASMIÐURINN HEFUR LEIRINN Á VALDI SÍNU

3. Hvernig er valdi Jehóva yfir mönnunum lýst í Jesaja 64:7 og Jeremía 18:1-6? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

3 Í Biblíunni er brugðið upp myndlíkingu til að lýsa valdi Jehóva yfir mönnum og þjóðum. Í Jesaja 64:7 segir: „Þú, Drottinn, ert faðir vor, vér erum leir, þú hefur mótað oss og allir erum vér handaverk þín.“ Leirkerasmiður hefur leirinn á valdi sínu og getur gert úr honum hvers konar ker sem hann vill. Leirinn ræður engu um það. Hið sama er að segja um Guð og mennina. Mennirnir hafa engan rétt til að segja Guði fyrir verkum, ekki frekar en leirinn getur deilt við leirkerasmiðinn sem mótar hann með höndum sínum. – Lestu Jeremía 18:1-6.

4. Mótar Guð menn og þjóðir eftir geðþótta sínum? Skýrðu svarið.

4 Jehóva mótaði Ísraelsmenn forðum daga ekki ósvipað og leirkerasmiður mótar leir. En þó var munur á. Leirkerasmiður getur tekið leirklump og gert alls konar ker úr honum. Mótar Jehóva menn og þjóðir eftir geðþótta sínum þannig að sumir verði góðir en aðrir illir? Biblían svarar því neitandi. Jehóva hefur gefið mönnunum afar dýrmæta gjöf – frjálsan vilja. Hann neyðir engan til að hlýða sér. Mennirnir verða að velja sjálfir hvort þeir leyfa skaparanum að móta sig. – Lestu Jeremía 18:7-10.

5. Hvað gerir Jehóva við þá sem vilja ekki láta hann móta sig?

5 Hvernig beitir leirkerasmiðurinn mikli drottinvaldi sínu ef mennirnir eru þrjóskir og neita að láta hann móta sig? Hvað er gert við leirinn ef ekki er hægt að móta hann eins og til er ætlast? Þá getur leirkerasmiðurinn gert annars konar ker úr honum eða hreinlega hent honum. Ef leirkerasmiðnum tekst ekki að móta leirinn rétt er það yfirleitt sjálfum honum að kenna. En sú er aldrei raunin þegar Jehóva á í hlut. (5. Mós. 32:4) Það er undir okkur mönnunum komið hvort við leyfum Jehóva að móta okkur. Hann hefur það á valdi sínu að móta mennina eftir því hvernig þeir bregðast sjálfir við. Þeir sem eru honum eftirlátir eru mótaðir til góðra nota. Hinir andasmurðu eru ,ker miskunnarinnar‘ því að þeir hafa verið mótaðir sem „ker til sæmdar“. Þeir sem eru þrjóskir og vilja ekki láta móta sig verða hins vegar „ker reiðinnar, sem búin eru til glötunar“. – Rómv. 9:19-23, Biblían 1981.

6, 7. Hvernig brugðust Davíð og Sál ólíkt við leiðbeiningum Jehóva?

 6 Jehóva mótar mennina meðal annars með því að leiðbeina þeim og aga þá. Tveir fyrstu konungar Ísraels, þeir Sál og Davíð, eru dæmi um það. Það hafði alvarlegar afleiðingar fyrir Davíð og fleiri þegar hann drýgði hór með Batsebu. Jehóva hlífði ekki Davíð þótt hann væri konungur heldur agaði hann harðlega. Hann sendi Natan spámann til konungs til að flytja honum alvarleg skilaboð. (2. Sam. 12:1-12) Hvernig brást Davíð við? Hann var miður sín, iðraðist af heilum hug og Jehóva miskunnaði honum. – Lestu 2. Samúelsbók 12:13.

 7 Forveri Davíðs, Sál konungur, brást öðruvísi við og tók ekki leiðbeiningum. Jehóva hafði látið Samúel spámann flytja Sál skýr fyrirmæli. Hann átti að útrýma Amalekítum og búpeningi þeirra. Sál óhlýðnaðist þessum fyrirmælum Guðs. Hann þyrmdi Agag konungi og vænstu skepnunum. Hvers vegna gerði hann það? Meðal annars vegna þess að vildi upphefja sjálfan sig. (1. Sam. 15:1-3, 7-9, 12) Þegar Sál fékk tiltal hefði hann átt að bregðast vel við og leyfa leirkerasmiðnum mikla að móta sig. En Sál vildi ekki breyta sér heldur réttlætti hegðun sína. Hann hélt því fram að hann hefði mátt þyrma skepnunum vegna þess að hann ætlaði að færa þær Jehóva að fórn. Jehóva hafnaði Sál sem konungi og Sál eignaðist aldrei aftur gott samband við skapara sinn. – Lestu 1. Samúelsbók 15:13-15, 20-23.

Sál réttlætti hegðun sína og hafnaði leiðbeiningum. Hann vildi ekki láta móta sig. (Sjá  7. grein.)

Davíð var miður sín og tók leiðbeiningum. Hann lét Guð móta sig. Gerir þú það? (Sjá  6. grein.)

GUÐ MISMUNAR EKKI FÓLKI

8. Hvaða lærdóm má draga af viðbrögðum Ísraelsmanna þegar Jehóva gaf þeim tækifæri til að láta móta sig?

8 Jehóva gefur ekki aðeins einstaklingum heldur líka þjóðum tækifæri til að láta móta sig. Hann frelsaði Ísraelsmenn frá Egyptalandi árið 1513 f.Kr. og gerði sáttmála við þá. Þeir voru útvalin þjóð hans og gátu látið hann móta sig eins og væru þeir leirker á hjóli leirkerasmiðs. En fólkið gerði það sem illt var í augum Jehóva og fór jafnvel að dýrka guði grannþjóðanna. Jehóva sendi spámenn sína til þeirra hvað eftir annað til að reyna að koma vitinu fyrir þá en þjóðin hlustaði ekki. (Jer. 35:12-15) Hann þurfti að aga þjóðina harðlega fyrir þrjóskuna. Norðurríkið Ísrael var eins og ,ker búið til glötunar‘ og Assýríumenn lögðu það undir sig. Suðurríkið Júda hlaut sömu örlög þegar Babýloníumenn eyddu það. Það er alvarlegur lærdómur fólgin í þessu. Jehóva mótar okkur því aðeins að við þiggjum ögun hans.

9, 10. Hvernig brugðust Nínívebúar við viðvörun Guðs?

9 Íbúar Níníve, höfuðborgar Assýríu, fengu líka viðvörun frá Jehóva og tækifæri til að bæta ráð sitt. Jehóva sagði við Jónas: „Leggðu af stað og farðu til Níníve, hinnar miklu borgar. Prédikaðu gegn henni því að illska hennar hefur stigið upp til mín.“ Jehóva hafði ákveðið að Níníve skyldi lögð í rúst. – Jónas 1:1, 2; 3:1-4.

10 En þegar Jónas boðaði dóm Jehóva „settu . . . Nínívebúar traust sitt á Guð, boðuðu föstu og klæddust hærusekkjum, jafnt háir sem lágir“. Konungurinn „stóð . . . upp úr hásæti sínu, svipti af sér tignarskrúðanum, huldi sig hærusekk [og] settist í ösku“. Nínívebúar leyfðu Jehóva að móta sig og iðruðust. Hann hætti þar af leiðandi við að eyða borgina. – Jónas 3:5-10.

11. Hvaða lærdóm má draga af samskiptum Jehóva við Ísraelsmenn og Nínívebúa?

11 Ísraelsmenn sluppu ekki við ögun Guðs þó að þeir væru útvalin þjóð hans. Guð hafði hins vegar engan sáttmála gert við Nínívebúa. Hann lét engu að síður boða þeim dóm sinn og sýndi þeim miskunn þegar þeir reyndust vera eins og mjúkur leir í höndum hans. Þessi tvö dæmi sýna svo ekki verður um villst að Jehóva Guð „gerir sér engan mannamun“. – 5. Mós. 10:17.

JEHÓVA ER SANNGJARN OG SVEIGJANLEGUR

12, 13. (a) Hvers vegna breytir Guð um afstöðu þegar fólk leyfir honum að móta sig? (b) Hvað þýddi það að Jehóva snerist hugur gagnvart Sál og gagnvart Níníve?

12 Jehóva er sanngjarn og sveigjanlegur. Það sýnir sig þegar hann dæmir menn og þjóðir til refsingar en skiptir um skoðun vegna viðbragða þeirra. Í Biblíunni er komist þannig að orði að Jehóva hafi ,iðrað þess‘ að gera Sál að fyrsta konungi Ísraels. (1. Sam. 15:11) Þegar Nínívebúar iðruðust og létu af vondri breytni sinni segir um Jehóva: „Þá snerist honum hugur og hann ákvað að valda fólkinu ekki þeirri ógæfu sem hann hafði boðað og refsa því ekki.“ – Jónas 3:10.

13 Hebreska orðið, sem er þýtt ,iðra‘, lýsir breyttri afstöðu eða ætlun. Jehóva breytti um afstöðu til Sáls. Hann hafði valið hann sem konung en hafnaði honum síðar. Breytingin stafaði ekki af því að Jehóva hefði gert mistök með því að velja Sál heldur af því að Sál óhlýðnaðist honum. Jehóva snerist líka hugur gagnvart Nínívebúum og hætti við að tortíma borginni. Það er hughreystandi til þess að vita að leirkerasmiðurinn mikli skuli vera sanngjarn og sveigjanlegur, náðugur og miskunnsamur og fús til að breyta ákvörðun sinni þegar fólk breytir sér.

HÖFNUM EKKI ÖGUN JEHÓVA

14. (a) Hvernig mótar Jehóva þjóna sína nú á tímum? (b) Hvernig ættum við að bregðast við leiðbeiningum Jehóva?

14 Nú á tímum notar Jehóva fyrst og fremst Biblíuna og söfnuðinn til að móta þjóna sína. (2. Tím. 3:16, 17) Við ættum að taka fúslega við öllum leiðbeiningum og ögun sem við fáum eftir þessum leiðum. Óháð því hve langt er síðan við létum skírast eða hve mörg verkefni við höfum fengið í söfnuðinum ættum við að vera móttækileg fyrir leiðbeiningum Jehóva og leyfa honum að móta okkur sem „ker til sæmdar“.

15, 16. (a) Hvaða tilfinningar geta fylgt því að fá ögun og vera vikið úr ábyrgðarstarfi í söfnuðinum? Lýstu með dæmi. (b) Hvað getur hjálpað okkur að takast á við tilfinningar sem geta fylgt því að fá ögun?

15 Jehóva agar okkur gjarnan með því að fræða okkur eða leiðrétta hugsun okkar. En stundum gætum við þurft á ögun að halda vegna þess að við höfum gert eitthvað rangt. Ögunin getur haft í för með sér að við þurfum að afsala okkur ýmsum verkefnum. Dennis * er dæmi um það. Hann hafði verið öldungur í söfnuðinum en sýndi ekki góða dómgreind í viðskiptum og var áminntur einslega fyrir vikið. Hvernig var honum innanbrjósts kvöldið sem tilkynnt var í söfnuðinum að hann væri ekki öldungur lengur? „Mér fannst ég algerlega misheppnaður,“ segir hann. „Síðastliðin 30 ár hafði ég gegnt margs konar ábyrgðarstörfum. Ég hafði verið brautryðjandi, starfað á Betel, verið safnaðarþjónn og síðan öldungur. Ég var líka nýbúinn að flytja ræðu í fyrsta sinn á umdæmismóti. Skyndilega var allt saman á bak og burt. Ég var vandræðalegur og skammaðist mín. Og mér fannst ég ekki hafa neitt hlutverk í söfnuðinum lengur.“

16 Dennis þurfti að bæta ráð sitt og snúa baki við því sem hann hafði verið áminntur fyrir. En hvað hjálpaði honum að takast á við þær tilfinningar sem sóttu að honum? „Ég var ákveðinn í að sækja samkomur, boða fagnaðarerindið og hafa góða reglu á sjálfsnámi mínu. Stuðningur bræðra og systra og hvatningin í ritunum var ekki síður mikilvæg. Greinin ,Hafðir þú ábyrgðastöðu? Geturðu tekið á þig ábyrgð á ný?‘ í Varðturninum 15. ágúst 2009 var eins og einkabréf til mín. Hún var eins og svar við bænum mínum. Mest kunni ég að meta hvatninguna: ,Einbeittu þér að því að styrkja samband þitt við Jehóva meðan þú ert ekki að sinna öðrum skyldum innan safnaðarins.‘“ Ögunin var Dennis til góðs og nokkrum árum síðar var hann útnefndur safnaðarþjónn.

17. Hvernig getur það hjálpað syndara að víkja honum úr söfnuðinum? Lýstu með dæmi.

17 Það er líka ögun frá Jehóva að vera vikið úr söfnuðinum. Það verndar söfnuðinn fyrir óæskilegum áhrifum og getur átt sinn þátt í að syndarinn snúi við. (1. Kor. 5:6, 7, 11) Robert var vikið úr söfnuðinum og var utan hans í næstum 16 ár. Foreldrar hans og systkini fylgdu í einu og öllu þeim fyrirmælum Biblíunnar að umgangast ekki og heilsa ekki einu sinni þeim sem hafa gerst brotlegir en iðrast ekki. Robert var tekinn aftur inn í söfnuðinn fyrir nokkrum árum og stendur sig vel. Aðspurður hvað hafi verið honum hvatning til að snúa aftur til Jehóva og safnaðarins eftir svona langan tíma, segir hann að afstaða fjölskyldunnar hafi haft mikil áhrif. „Ef fjölskyldan hefði haft samband við mig, þó ekki væri nema til að athuga hvernig mér liði, hefði það nægt mér og ég hefði ekki saknað þeirra mikið. Afstaða þeirra var mér hvatning til að snúa aftur til Guðs.“

18. Hvers konar leir ættum við að vera í höndum leirkerasmiðsins mikla?

18 Við þurfum vonandi ekki á slíkum aga að halda. En hvers konar leir verðum við í höndum leirkerasmiðsins mikla? Hver eru viðbrögð okkar við ögun? Líkjumst við Davíð eða Sál? Jehóva er leirkerasmiðurinn og hann er faðir okkar. Gleymum ekki að Jehóva „agar þann sem hann elskar og lætur þann son finna til sem hann hefur mætur á“. Þess vegna skaltu ,ekki hafna leiðsögn hans og ekki láta þér gremjast umvöndun hans‘. – Orðskv. 3:11, 12.

^ Nöfnum er breytt.