Þau buðu sig fúslega fram á Filippseyjum
HJÓNIN Gregorio og Marilou voru brautryðjendur í Maníla fyrir um það bil tíu árum en voru jafnframt í fullri vinnu. Þau voru þá rúmlega þrítug en réðu vel við öll verkefnin þótt þau væru nokkuð krefjandi. Um það leyti fékk Marilou stöðuhækkun og varð yfirmaður í bankanum þar sem hún vann. „Við vorum í góðri vinnu svo að við gátum leyft okkur mjög þægilegan lífsstíl,“ segir hún. Tekjurnar voru svo góðar að þau ákváðu að byggja sér draumahúsið á eftirsóttum stað tæplega 20 kílómetra austur af Maníla. Þau sömdu við byggingarverktaka um að reisa húsið og áttu að greiða fyrir verkið á tíu árum með mánaðarlegum greiðslum.
„MÉR FANNST ÉG VERA AÐ STELA FRÁ JEHÓVA“
„Nýja starfið var svo krefjandi og tímafrekt að áhuginn á þjónustunni við Jehóva dvínaði. Mér fannst ég vera að stela frá Jehóva,“ segir Marilou. Hún bætir við: „Ég var ekki lengur fær um að gefa Jehóva þann tíma sem ég hafði helgað því að þjóna honum.“ Gregorio og Marilou voru óánægð með stöðu mála og settust niður einn
daginn til að ræða hvert líf þeirra stefndi. Gregorio segir: „Okkur langaði til að gera breytingar en vissum ekki alveg hvað við áttum að gera. Við ræddum hvernig við gætum notað krafta okkar betur í þjónustu Jehóva, ekki síst þar sem við vorum barnlaus. Við báðum til Jehóva um leiðsögn.“Um svipað leyti hlustuðu þau á nokkrar ræður um þjónustu á svæðum þar sem vantaði fleiri boðbera. „Okkur fannst þessar ræður vera svar Jehóva við bænum okkar,“ segir Gregorio. Hjónin báðu Jehóva að gefa sér meiri trú svo að þau hefðu hugrekki til að taka réttar ákvarðanir. Einn af stóru tálmunum var húsið sem þau voru með í byggingu. Þau voru búin að greiða næstum þriðjung af andvirðinu. Hvað áttu þau að gera? „Ef við riftum samningnum myndum við tapa öllu sem við höfðum greitt inn á hann, og það var töluverð fjárhæð,“ segir Marilou. „En við litum svo á að við yrðum að velja á milli þess að láta vilja Jehóva ganga fyrir eða þjóna okkar eigin löngunum.“ Þau hugsuðu til orða Páls postula um að ,missa allt og meta það sem sorp‘ og ákváðu að rifta samningnum um húsið, segja upp vinnunni, selja megnið af eigum sínum og flytja í afskekkt þorp á eynni Palawan, um 480 kílómetra suður af Maníla. – Fil. 3:8.
ÞAU LÆRÐU AÐ VERA NÆGJUSÖM
Áður en Gregorio og Marilou fluttu búferlum höfðu þau reynt að búa sig undir að lifa einföldu lífi en þau gerðu sér alls ekki grein fyrir hvernig aðstæður voru fyrr en þau komu á áfangastað. „Við urðum fyrir áfalli,“ segir Marilou. „Þarna var hvorki rafmagn né nokkur þægindi. Í stað þess að kveikja á hrísgrjónapottinum þurftum við að höggva eldivið og sjóða matinn við opinn eld. Ég saknaði þess að geta ekki farið í verslunarmiðstöðvar, farið út að borða og gert margt annað sem hægt er í borginni.“ En hjónin minntu sig á hvers vegna þau hefðu flutt og áður en langt um leið voru þau búin að aðlagast nýjum aðstæðum. „Núna nýt ég þess að virða fyrir mér fegurð náttúrunnar, þar á meðal stjörnuhimininn,“ segir Marilou. „Ég hef þó mesta ánægju af að sjá andlit fólks ljóma af gleði þegar við boðum fagnaðarerindið. Með því að starfa hérna höfum við lært að vera nægjusöm.“ – Fil. 4:12.
„Ekkert jafnast á við gleðina sem það veitir manni að sjá nýja bætast við söfnuðinn. Við höfum aldrei fundið jafn sterkt fyrir því að líf okkar hafi gildi.“
„Það voru bara fjórir vottar hérna þegar við komum,“ segir Gregorio. „Þeir voru mjög ánægðir þegar ég fór að flytja opinbera fyrirlestra í hverri viku og spila undir á gítar þegar við sungum á samkomum.“ Á innan við ári sáu þau hjónin þennan örsmáa hóp breytast í blómlegan söfnuð með 24 boðberum. „Við erum djúpt snortin af því hvernig
söfnuðurinn sýnir okkur kærleika,“ segir Gregorio. Þau hafa nú starfað í sex ár á þessu einangraða svæði. Þau segja: „Ekkert jafnast á við gleðina sem það veitir manni að sjá nýja bætast við söfnuðinn. Við höfum aldrei fundið jafn sterkt fyrir því að líf okkar hafi gildi.“„ÉG HEF ,FUNDIÐ OG SÉÐ AÐ JEHÓVA ER GÓÐUR‘“
Næstum 3.000 bræður og systur á Filippseyjum hafa flust til svæða þar sem vantar sárlega fleiri boðbera. Þar af eru um 500 einhleypar systur. Karen er ein þeirra.
Karen ólst upp í Baggao í Cagayan. Hún er hálfþrítug núna en sem unglingur velti hún oft fyrir sér hvernig hún gæti gert meira í þjónustu Jehóva. „Ég vissi að tíminn var orðinn stuttur og að alls konar fólk þurfti að heyra fagnaðarerindið, þannig að mig langaði til að starfa þar sem þörf var á fleiri boðberum,“ segir hún. Sumir í fjölskyldunni hvöttu hana til að afla sér æðri menntunar í stað þess að flytja á einhvern afskekktan stað til að boða trúna. Karen bað hins vegar til Jehóva um leiðsögn. Hún ræddi einnig við boðbera sem störfuðu á einangruðu svæði. Þegar hún var 18 ára flutti hún á afskekkt svæði um 65 kílómetra frá heimabæ sínum.
Karen fluttist til lítils safnaðar sem starfar á fjöllóttu svæði við strönd Kyrrahafs. „Til að komast frá Baggao til nýja safnaðarins þurftum við að ganga í þrjá daga upp og niður fjöll og vaða meira en 30 ár,“ segir Karen. Hún bætir við: „Ég geng í sex tíma til að hitta suma biblíunemendur mína, gisti um nóttina hjá nemandanum og geng í sex tíma til að komast heim daginn eftir.“ Er það erfiðisins virði? „Mig verkjar stundum í fæturna,“ segir Karen. Síðan brosir hún breitt og bætir við: „En ég hef verið með allt upp í 18 biblíunámskeið. Ég hef ,fundið og séð að Jehóva er góður‘.“ – Sálm. 34:9.
„ÉG LÆRÐI AÐ REIÐA MIG Á JEHÓVA“
Sukhi er rúmlega fertug, einhleyp systir sem fluttist frá Bandaríkjunum til Filippseyja. Hvað varð til þess að hún flutti þangað? Árið 2011 sótti hún svæðismót og hlustaði á viðtal við hjón sem sögðu frá því að þau hefðu selt flestar eigur sínar og flust til Mexíkó til að boða fagnaðarerindið. „Þetta viðtal varð til þess að ég fór að íhuga markmið sem ég hafði ekki hugsað um áður,“ segir Sukhi. Hún er af indverskum ættum og ákvað að flytja til Filippseyja þegar hún frétti að þar vantaði fleiri boðbera til að boða trúna meðal púnjabímælandi fólks. Urðu einhverjir erfiðleikar á vegi hennar?
„Það var erfiðara en mig grunaði að ákveða hvað ég ætti að selja og hvað ekki,“ segir Sukhi. „Ég hafði líka búið ein í 13 ár en flutti nú inn til ættingja við mun minni þægindi en ég hafði meðan ég bjó í eigin íbúð. Það var ekki auðvelt en Mal. 3:10) Sukhi bætir við: „Það var eiginlega erfiðast að ákveða að flytja. Eftir að ég var búin að því var hreinlega ótrúlegt hvernig Jehóva sá um framhaldið.“
samt góð leið til að búa mig undir að lifa einföldu lífi.“ Hvað tók við þegar hún fluttist til Filippseyja? „Ég hef alltaf verið dauðhrædd við pöddur og var með heimþrá. Það fannst mér erfiðast. Ég lærði að reiða mig á Jehóva á nýjan hátt.“ Hafði hún erindi sem erfiði? Sukhi brosir og svarar: „Jehóva segir okkur að ,reyna sig og sjá hvort hann helli ekki yfir okkur blessun‘. Þessi orð öðlast sérstakt gildi fyrir mig þegar húsráðandi spyr: ,Hvenær kemurðu aftur? Ég er með fullt af spurningum.‘ Það veitir mér mikla gleði og ánægju að geta aðstoðað fólk sem hungrar eftir sannleikanum.“ (,ÉG SIGRAÐIST Á ÓTTANUM‘
Sime er kvæntur bróðir á fertugsaldri sem fluttist til Mið-Austurlanda þar sem honum bauðst vel launað starf. Meðan hann var þar heyrði hann bróður í hinu stjórnandi ráði flytja fyrirlestur og ræddi einnig við farandhirði. Það varð honum hvatning til að láta vilja Jehóva ganga fyrir í lífi sínu. „En ég fékk martraðir þegar ég fór að hugsa um að segja upp vinnunni,“ segir hann. Hann lét þó slag standa og fluttist aftur til Filippseyja. Núna starfa Sime og Haidee, eiginkona hans, í Davao del Sur í sunnanverðu landinu en þar er víðáttumikið starfssvæði og mikil þörf fyrir boðbera til að komast yfir það. „Þegar ég lít um öxl,“ segir Sime, „er ég feginn að ég skyldi láta vilja Jehóva ganga fyrir og sigrast á óttanum við að missa vinnuna. Það er ekki hægt að hugsa sér neitt ánægjulegra en að gefa Jehóva það besta sem maður á.“
„ÞAÐ ER ÁKAFLEGA GEFANDI“
Hjónin Ramilo og Juliet eru rúmlega þrítugir brautryðjendur. Þau fréttu að söfnuður í 30 kílómetra fjarlægð frá heimili þeirra þarfnaðist hjálpar og buðust til að leggja honum lið. Þau fara því nokkrar ferðir á mótorhjóli í hverri viku, hvernig sem viðrar, til að sækja samkomur og taka þátt í boðunarstarfinu. Þau eru ánægð að þau skuli hafa fært út kvíarnar þó að það sé ekki þrautalaust að ferðast um holótta vegi og hengibrýr. „Við hjónin erum samanlagt með 11 biblíunámskeið,“ segir Ramilo. „Það kostar ákveðnar fórnir að þjóna þar sem þörfin er meiri en það er ákaflega gefandi.“ – 1. Kor. 15:58.
Langar þig til að fá nánari upplýsingar um starf á svæðum þar sem vantar fleiri boðbera, annaðhvort innanlands eða utan? Talaðu þá við farandhirðinn og lestu greinina „Getur þú farið ,yfir til Makedóníu‘?“ í Ríkisþjónustu okkar frá ágúst 2011.