Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Farsælt fjölskyldulíf

Að búa unglinga undir fullorðinsárin

Að búa unglinga undir fullorðinsárin

„Það var alltaf gaman að spjalla við syni mína. Þeir hlustuðu á mig með athygli og fóru strax eftir því sem ég sagði. En nú hafa þeir náð unglingsaldri og við deilum um allt mögulegt. Þeir eru meira að segja ósáttir við andlegar venjur okkar. ‚Þurfum við að tala um Biblíuna?‘ spyrja þeir. Áður en synir mínir komust á táningsaldurinn hefði ég aldrei getað ímyndað mér að þetta myndi gerast í minni fjölskyldu — jafnvel þó að ég sæi það gerast hjá öðrum.“ — Reggie. *

ERT þú að ala upp ungling? Ef það er tilfellið þá upplifir þú einn mest hrífandi áfanga í þroska barns. En þetta tímabil getur líka tekið á taugarnar. Kannast þú við eftirfarandi aðstæður?

  • Þegar sonur þinn var yngri var hann eins og bátur bundinn við bryggju — þig. En sem unglingur togar hann í landfestarnar æstur í að sigla frá landi og þú hefur á tilfinningunni að þér sé ekki boðið með.

  • Þegar dóttir þín var barn sagði hún þér allt. Sem táningur hefur hún myndað ‚klúbb‘ með vinum sínum og þér finnst eins og þú sért ekki velkominn í klúbbinn.

Ef eitthvað þessu líkt er að gerast á heimili þínu skaltu ekki vera of fljótur að draga þá ályktun að barnið sé að breytast í óforbetranlegan uppreisnarsegg. Hvað er þá að gerast? Til þess að svara þeirri spurningu skulum við skoða hið mikilvæga hlutverk unglingsáranna í þroska barnsins.

Unglingsárin — merkur áfangi

Eftir að barn fæðist og byrjar að vaxa og dafna gerir það marga hluti í fyrsta skiptið. Fyrstu skrefin, fyrsta orðið og fyrsti skóladagurinn eru dæmi um það. Foreldrar gleðjast þegar barnið nær slíkum áföngum. Árangurinn sannar að barnið er að þroskast eins og foreldrarnir þrá að sjá.

Unglingsárin eru einnig ákveðinn áfangi þó að sumir foreldrar taki þeim ekki með fögnuði. Kvíði foreldranna er skiljanlegur. Hvaða foreldrar eru ánægðir með að sjá þægt barn breytast í mislyndan ungling? Samt sem áður eru unglingsárin ómissandi hluti af þroska barnsins. Hvernig þá?

Með tímanum „yfirgefur maður föður sinn og móður“ eins og segir í Biblíunni. (1. Mósebók 2:24) Unglingsárin gegna því mikilvæga hlutverki að undirbúa börnin fyrir að yfirgefa foreldrana þó það geti vakið blendnar tilfinningar. Þegar sá tími rennur upp ætti barnið að geta sagt eins og Páll postuli: „Þegar ég var barn talaði ég eins og barn, hugsaði eins og barn og ályktaði eins og barn. En þegar ég var orðinn fulltíða lagði ég niður barnaskapinn.“ — 1. Korintubréf 13:11.

Þetta er í rauninni það sem sonur þinn eða dóttir er að gera á unglingsárunum — hætta að hegða sér eins og barn og læra að verða að ábyrgum ungum einstaklingi sem getur treyst á sjálfan sig og er nógu þroskaður til að fara að heiman. Uppsláttarrit hittir naglann á höfuðið þegar það lýsir unglingsárunum sem „einni langdreginni kveðjustund“.

Þú efast kannski um það núna að „litla“ barnið þitt geti verið sjálfstætt. Þú spyrð ef til vill:

  • „Ef sonur minn er ekki nógu ábyrgur til að halda herberginu sínu hreinu hvernig á hann þá að búa í eigin íbúð?“

  • „Ef dóttir mín er ekki nógu áreiðanleg til að virða útivistartímann hvernig getur hún þá mætt stundvíslega í vinnu?“

Að verða sjálfstæður er ekki eins og ganga í gegnum dyr. Það er líkara því að barnið þitt sé á vegi sem tekur allnokkur ár að ganga á enda. Mundu það ef þú hefur áhyggjur af barninu. Þú veist af eigin reynslu að í bili situr ‚heimska í hjarta sveinsins‘ — eða stúlkunnar . — Orðskviðirnir 22:15.

Með réttri leiðsögn er barnið hins vegar líklegt til að komast í gegnum unglingsárin og verða að ábyrgum fullorðnum einstaklingi sem hefur „agað hugann til að greina gott frá illu“. — Hebreabréfið 5:14.

Hvernig er hægt að ná árangri?

Getur þú treyst unglingnum fyrir meira frelsi ef hann hefur sýnt að hann er ábyrgur?

Til að undirbúa ungling fyrir fullorðinsárin þarftu að hjálpa honum að ‚aga hugann‘ þannig að hann læri að taka skynsamlegar ákvarðanir upp á eigin spýtur. Eftirfarandi meginreglur úr Biblíunni hjálpa þér að gera það.

Títusarbréfið 3:1, 2: Verið „sanngjörn“. Kannski biður unglingurinn um að fá að vera lengur úti. Þú þverneitar um leið. Hann kvartar: „Þú kemur fram við mig eins og ég sé barn!“ Áður en þú svarar: „Þú hagar þér eins og barn,“ skaltu hugleiða eftirfarandi. Unglingar hafa tilhneigingu til að krefjast meira frelsis en þeir ráða við. En foreldrum hættir til að hefta frelsi unglinga meira en þarf. Gæti verið að þú ættir að gefa eftir stöku sinnum? Hví ekki að hugleiða hvað unglingurinn hefur til síns máls?

PRÓFIÐ ÞETTA: Skrifaðu niður eitt eða tvö svið þar sem þú getur leyft unglingnum að hafa aðeins meira frjálsræði. Útskýrðu fyrir honum að þú sért að prófa að gefa honum aukið frelsi. Ef hann fer vel með það getur hann fengið meira með tímanum. Ef hann gerir það ekki verður frelsið, sem honum var veitt, tekið til baka. — Matteus 25:21.

Kólossubréfið 3:21: „Feður, verið ekki höstugir við börn ykkar, það gerir þau ístöðulaus.“ Sumir foreldrar reyna um of að stjórna unglingnum. Það liggur við að þeir loki hann inni til að hafa taumhald á honum. Þeir velja vini hans og hlera símtöl. En svona aðfarir geta snúist í höndum foreldra. Að loka unglinginn inni getur leitt til þess að hann vill flýja. Að gagnrýna vinina getur gert þá enn áhugaverðari og að hlera símtöl getur orðið til þess að hann finnur leiðir til að hafa samskipti við vini sína án þinnar vitundar. Því fastar sem þú heldur í taumana því minna taumhald hefurðu kannski að lokum. Ef táningurinn lærir aldrei að taka sínar eigin ákvarðanir á meðan hann er heima, hvernig kann hann þá að taka ákvarðanir eftir að hann er farinn að heiman?

PRÓFIÐ ÞETTA: Næst þegar þú þarft að ræða ákveðið mál við táninginn hjálpaðu honum að sjá hvernig val hans hefur áhrif á orðstír hans. Í stað þess að gagnrýna vini hans gætirðu til dæmis sagt: „Hvað ef [nafn] yrði handtekinn fyrir að brjóta lög? Hvað myndi fólk halda um þig? Leiddu táningnum fyrir sjónir að val hans getur haft góð eða slæm áhrif á mannorð hans. — Orðskviðirnir 11:17, 22; 20:11.

Efesusbréfið 6:4: „Reitið ekki börn ykkar til reiði heldur alið þau upp með aga og fræðslu um Drottin.“ Með „fræðslu“ er átt við meira en að miðla staðreyndum. Það felur í sér að höfða til siðferðisvitundar barnsins á þann hátt að það hefur áhrif á ákvarðanir þess. Þetta er gríðarlega mikilvægt þegar barnið er orðið að unglingi. „Því eldri sem börnin verða,“ segir faðir einn sem heitir Andre, „því meira þarf maður að hugsa um hvernig maður nálgast þau og rökræðir við þau.“ — 2. Tímóteusarbréf 3:14.

PRÓFIÐ ÞETTA: Prófaðu að skipta um hlutverk við unglinginn þegar þið eruð ósammála. Spyrðu hann hvaða ráð hann myndi gefa þér ef þú værir barnið hans. Láttu hann rannsaka málið og koma með rök til að styðja eða hrekja mál sitt. Ræðið þetta aftur áður en vika er liðin.

Galatabréfið 6:7: „Það sem maður sáir, það mun hann og uppskera.“ Hægt er að kenna barni með refsingum — skipa því að vera í herberginu sínu eða neita því um að gera eitthvað skemmtilegt. Ef unglingur á í hlut er betra að láta hann kljást við afleiðingar gerða sinna. — Orðskviðirnir 6:27.

PRÓFIÐ ÞETTA: Ekki bjarga unglingnum með því að greiða skuldir hans eða afsaka hann fyrir kennaranum ef hann fellur á prófi. Leyfðu honum að finna fyrir afleiðingunum og lexían mun hafa langtímaáhrif.

Sem foreldri óskar þú þess líklega að unglingurinn komist hratt og örugglega í gegnum unglingsárin og sé vel undirbúinn fyrir fullorðinsárin. En þetta er sjaldan svona auðvelt. Eigi að síður eru unglingsárin kjörið tækifæri til að ‚fræða hinn unga um veginn sem hann á að halda‘. (Orðskviðirnir 22:6) Meginreglur Biblíunnar eru traustur grunnur að hamingjuríku fjölskyldulífi.

^ gr. 3 Nafni hefur verið breytt.

SPYRÐU ÞIG . . .

Mun unglingurinn geta gert eftirfarandi þegar hann fer að heiman?

  • rækt trú sína og sambandið við Jehóva

  • tekið skynsamar ákvarðanir

  • haft góð samskipti við aðra

  • hugsað um heilsuna

  • stýrt fjármálum sínum

  • þrifið og viðhaldið eigin heimili

  • agað sjálfan sig