Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Forn útgefandi stuðlar að útbreiðslu Biblíunnar

Forn útgefandi stuðlar að útbreiðslu Biblíunnar

Forn útgefandi stuðlar að útbreiðslu Biblíunnar

HANDSKRIFAÐAR bækur og bókrollur eiga sér mörg þúsund ára sögu. Mun skemmra er síðan prentaðar bækur komu fram á sjónarsviðið. Elsta bók þeirrar gerðar, sem vitað er um, var prentuð í Kína árið 868, og voru prentmótin skorin í tré. Um 1455 fann Johannes Gutenberg í Þýskalandi upp á því að steypa lausaletur úr málmi og fyrsta prentaða biblían á latínu leit dagsins ljós.

Nokkur bið varð þó á því að það kæmist skriður á útgáfu Biblíunnar og annarra bóka. Fyrst þurfti prentiðnaðurinn að komast á legg. Nürnberg varð miðstöð prentiðnaðarins í Þýskalandi og heimamaðurinn Anton Koberger kann að hafa verið fyrstur manna í heimi til að prenta biblíur og gefa út bækur í stórum stíl á alþjóðavísu.

Fólk af öllum menningarheimum stendur í þakkarskuld við brautryðjendur í biblíuútgáfu, þeirra á meðal Anton Koberger. Við skulum því kynna okkur störf hans nánar.

„Annt . . . um eina bók, Biblíuna“

Koberger opnaði fyrstu prentsmiðjuna í Nürnberg árið 1470. Þegar umsvifin voru sem mest starfrækti fyrirtæki hans 24 prentvélar samtímis. Hann var með starfsstöðvar í Basel, Strasbourg, Lyon og fleiri evrópskum borgum og þar unnu 100 prentarar, handverksmenn og aðrir starfsmenn. Koberger gaf út latnesk miðaldarit og stóran hluta þeirra vísindarita sem prentuð voru á þeim tíma. Á starfsferli sínum gaf hann út 236 verk. Sum voru nokkur hundruð blaðsíður að stærð, og síðurnar voru prentaðar ein og ein í vélum sem knúnar voru með handafli.

Letrið, sem Koberger notaði, var vandað mjög og fyrir vikið voru bækur hans víðkunnar fyrir fegurð og læsileika. „Koberger krafðist þess að alltaf væri notað nýsteypt og skýrt letur,“ skrifar sagnfræðingurinn Alfred Börckel. „Ekki mátti nota letur sem farið var að slitna.“ Í mörgum bókum og biblíum Kobergers voru enn fremur fíngerðar tréskurðarmyndir.

Alla starfsævi Kobergers „má sjá hve annt honum var um eina bók, Biblíuna“. Þetta segir í ævisögu hans sem rituð er af Oscari Hase. Koberger og samstarfsmenn hans lögðu sig í líma við að ná í sem allra nákvæmustu biblíutextana. Það hefur varla verið auðvelt vegna þess að mörg af skinnhandritunum þóttu dýrgripir og voru í eigu ákveðinna klaustra sem lánuðu þau aðeins um skamman tíma til að hægt væri að afrita þau, ef þau voru á annað borð lánuð.

Latneskar og þýskar biblíur

Koberger prentaði 15 prentanir af latneskri biblíu sinni, Biblia Latina, en hún kom fyrst út árið 1475. Í sumum útgáfum hennar voru myndir af örkinni hans Nóa, töflunum með boðorðunum tíu og musteri Salómons. Árið 1483 prentaði Koberger þýska biblíu (Biblia Germanica). Upplagið var um 1.500 eintök sem þótti mikið á þeim tíma. Í þessari biblíu voru rúmlega 100 tréskurðarmyndir til að vekja áhuga lesenda, skýra textann og minna ólæsa á þekktar biblíusögur. Þessar myndir höfðu töluverð áhrif á þá sem myndskreyttu Biblíuna síðar meir, einkum þýskar útgáfur hennar.

Hin þýska biblía Kobergers frá 1483 reyndist mjög vinsæl. Það fór þó svo að þetta var eina biblían sem hann gaf út á þýsku. Ritstjórar hans höfðu lagað orðalagið vandlega að latnesku Vulgata-þýðingunni sem kirkjan viðurkenndi. Textinn var hins vegar byggður á þýðingu Valdensa frá 14. öld og hún var á bannlista kirkjunnar. * Árið eftir gerði Innocentíus páfi áttundi átak til að uppræta samfélög Valdensa. Í kjölfarið jókst andstaða kirkjunnar gegn því að Biblían væri þýdd á almennar þjóðtungur. Hinn 22. mars 1485 gaf Berthold erkibiskup af Mainz í Þýskalandi út tilskipun þar sem þýðing Biblíunnar á þýsku var fordæmd. Erkibiskupinn ítrekaði svo tilskipun sína 4. janúar árið eftir. Slík var andstaðan að Koberger vogaði sér ekki að prenta Biblíuna aftur á þýsku.

Anton Koberger erfiðaði þó ekki til ónýtis. Hann nýtti sér hina nýju prentlist til að gefa út margs konar bækur á lægra verði en áður hafði þekkst í Evrópu. Með starfi sínu átti hann sinn þátt í því að gera Biblíuna aðgengilega fyrir almenning.

[Neðanmáls]

^ gr. 11 Sjá greinina „Valdensarnir — voru þeir villutrúarmenn eða unnu þeir sannleikanum?“ í Varðturninum, 1. apríl 1983.

[Myndir á bls. 26]

Frá vinstri til hægri: Tréskurðarmynd af Daníel í ljónagryfjunni, gylltur upphafsstafur, skýrt prentletur.

[Mynd á bls. 26]

Koberger

[Myndir á bls. 26]

Myndir úr latneskri og þýskri biblíu Kobergers með skreytingum og skýringum við 1. Mósebók 1:1.

[Rétthafi myndar á bls. 26]

Allar myndir af biblíum: Með góðfúslegu leyfi American Bible Society Library. Koberger: Mit freundlicher Genehmigung der Linotype GmbH.