Hvernig verðum við hamingjusöm?
Lærum af Jesú
Hvernig verðum við hamingjusöm?
Hver er lykillinn að hamingjunni?
▪ Jesús hóf eina þekktustu ræðu sína á því að tala um hamingjuna. Hann sagði: „Sælir eru fátækir í anda,“ og var þá að tala um fólk sem skynjaði andlega þörf sína. (Matteus 5:3) Hvað átti hann við? Hverjar eru andlegar þarfir okkar?
Við þurfum, rétt eins og dýrin, að anda, borða og drekka til að lifa. En til að vera hamingjusöm þurfum við að fullnægja þörf sem dýrin hafa ekki — við þurfum að skilja tilgang lífsins. Enginn nema skapari lífsins getur svalað þeirri þörf. Jesús sagði þar af leiðandi: „Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði heldur á hverju því orði sem fram gengur af Guðs munni.“ (Matteus 4:4) Þeir sem sinna andlegum þörfum sínum eru hamingjusamir vegna þess að þeir styrkja samband sitt við ,hinn sæla Guð‘, Jehóva. Og hann gefur þeim von, en hún er nauðsynleg til að við séum hamingjusöm. — 1. Tímóteusarbréf 1:11, Biblían 1912.
Hvernig veitti Jesús von?
▪ „Sælir eru hógværir því að þeir munu jörðina erfa,“ sagði Jesús. (Matteus 5:5) Hann gaf mannkyninu von þegar hann læknaði sjúka og reisti látna upp til lífsins. Hann flutti líka boðskap sem veitti fólki von. Hann sagði: „Svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.“ (Jóhannes 3:16) Þeir sem hlýða Guði hljóta eilíft líf á jörðinni. Yrði það ekki yndislegt að búa með hógværu fólki og verða aldrei ellihrum? Það er ekki að ástæðulausu að orð Guðs segir: „Verið glöð í voninni.“ (Rómverjabréfið 12:12) Jesús fjallaði líka um hvernig við getum verið hamingjusöm nú þegar.
Hvaða góðu lífsstefnu boðaði Jesús?
▪ Jesús gaf góð ráð um mál eins og mannleg samskipti, hjónaband, auðmýkt og rétt viðhorf til efnislegra hluta. (Matteus 5:21-32; 6:1-5, 19-34) Ef við fylgjum leiðbeiningum hans verðum við hamingjusöm.
Örlát manneskja er hamingjusöm. (Postulasagan 20:35) Jesús sagði: „Þegar þú gerir veislu þá bjóð þú fátækum og örkumla, höltum og blindum og munt þú sæll verða því að þeir geta ekki endurgoldið þér.“ (Lúkas 14:13, 14) Við höndlum ekki hamingjuna með því að sækjast eftir henni handa sjálfum okkur heldur með því að gleðja aðra.
Hvað veitir okkur mesta hamingju?
▪ Það gleður okkur að gera eitthvað fyrir aðra, en það er enn ánægjulegra að gera eitthvað fyrir Guð. Gleði stoltra foreldra, sem elska börnin sín, er mikil en kemst þó ekki nærri ánægjunni sem fylgir því að þjóna Guði. Þetta má sjá af atviki sem átti sér stað þegar Jesús var að kenna meðal almennings. „Kona ein í mannfjöldanum [hóf] upp rödd sína og sagði við hann: ,Sæll er sá kviður er þig bar og þau brjóst er þú mylktir.‘“ Jesús svaraði þá: „Sælir eru þeir sem heyra Guðs orð og varðveita það.“ — Lúkas 11:27, 28.
Jesús hafði sjálfur ánægju af því að gera vilja föður síns á himnum. Guð vill að fólk fái að vita af voninni um eilíft líf. Eftir að hafa sagt áhugasamri konu frá þessari von sagði Jesús: „Minn matur er að gera vilja þess sem sendi mig.“ (Jóhannes 4:13, 14, 34) Þú getur líka öðlast hamingjuna sem hlýst af því að þóknast Guði með því að segja öðrum frá sannleika Biblíunnar.
Nánari upplýsingar má fá í 1. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían? sem er gefin út af Vottum Jehóva.
[Mynd á bls. 30]
Við þurfum að skilja tilgang lífsins. Við öðlumst sanna hamingju ef við fullnægjum þeirri þörf.