Hvað ætti að kenna börnunum?
Hvað ætti að kenna börnunum?
„Sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, umvöndunar, leiðréttingar og menntunar í réttlæti.“ – 2. TÍMÓTEUSARBRÉF 3:16.
BÖRN þurfa að læra sannleikann um Guð. Hvar fá þau slíka fræðslu? Hana má finna í Biblíunni, virtasta trúarriti í heimi.
Biblían er eins og sendibréf frá Guði. Í þessu bréfi opinberar hann persónuleika sinn og veitir öllum börnum sínum, ungum jafnt sem öldnum, siðferðilega leiðsögn. Taktu eftir nokkrum atriðum sem koma fram í Biblíunni og ung börn geta jafnvel dregið lærdóm af.
Hvað vill Guð að við vitum um sig?
◼ Biblían kennir: „Þú einn heitir Jahve, hinn hæsti yfir allri jörðunni.“ – Sálmur 83:19, Biblían 1908.
Lærdómur: Guð er ekki ópersónulegt afl heldur raunveruleg persóna sem ber auðkennandi eiginnafn.
◼ Biblían kennir: „Drottinn rannsakar öll hjörtu og þekkir allar hugsanir. Ef þú leitar hans lætur hann þig finna sig.“ – 1. Kroníkubók 28:9.
Lærdómur: Jehóva Guði er annt um okkur öll, þar á meðal ungu börnin. (Sálmur 10:14; 146:9) Hann vill að við kynnumst sér.
◼ Biblían kennir: „Þér skuluð ekki leggjast á ekkjur eða munaðarleysingja. Ef þú leggst á þau, og þau hrópa til mín, mun ég vissulega heyra neyðarkvein þeirra.“ – 2. Mósebók 22:22-24, Biblían 1981.
Lærdómur: Jehóva hlustar jafnvel á bænir ungra barna. Við getum talað við hann að staðaldri og tjáð honum okkar innstu hugsanir og tilfinningar.
◼ Biblían kennir: „Þeir reyndu Guð hvað eftir annað og vanvirtu Hinn heilaga í Ísrael.“ – Sálmur 78:41.
Lærdómur: Orð okkar og verk snerta tilfinningar Jehóva. Þess vegna ættum við að hugsa áður en við tölum og framkvæmum.
Hvernig eigum við að koma fram við þá sem eru öðruvísi en við?
◼ Biblían kennir: „Guð fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.“ – Postulasagan 10:34, 35.
Lærdómur: Fyrst Guð tekur á móti öllum óháð uppruna ættum við ekki að mismuna fólki þótt það hafi annan hörundslit eða öðruvísi andlistfall en við.
◼ Biblían kennir: „Verið ætíð reiðubúin að svara hverjum manni sem krefst raka fyrir voninni sem þið eigið. En gerið það með hógværð og virðingu.“ – 1. Pétursbréf 3:15, 16.
Lærdómur: Þegar við ræðum um trúmál ættum við að láta skoðanir okkar í ljós af sannfæringu en án þess að æsa okkur. Við ættum líka að sýna þeim virðingu sem hafa aðrar trúarskoðanir en við.
Hvernig eigum við að koma fram við fjölskylduna?
◼ Biblían kennir: „Börn, verið hlýðin foreldrum ykkar í öllu því að það er Drottni þóknanlegt.“ – Kólossubréfið 3:20.
Lærdómur: Hlýðin börn sýna ekki aðeins að þau elska foreldra sína heldur líka að þau vilja þóknast Guði.
◼ Biblían kennir: „Umberið hvert annað og fyrirgefið hvert öðru ef einhver hefur sök á hendur öðrum. Eins og Drottinn hefur fyrirgefið ykkur, svo skuluð þið og gera.“ – Kólossubréfið 3:13.
Lærdómur: Af og til mun fólk valda okkur vonbrigðum og það á líka við um fjölskyldu okkar. En ef við viljum að Guð fyrirgefi okkur verðum við að læra að fyrirgefa öðrum. – Matteus 6:14, 15.
Hvers vegna ættum við að vera heiðarleg og góðviljuð?
◼ Biblían kennir: „Leggið því af lygina og talið sannleika hvert við sinn náunga.“ – Efesusbréfið 4:25.
Lærdómur: Þegar við segjum sannleikann líkjum við eftir Guði og gleðjum hann. Ef við venjum okkur á að ljúga verðum við eins og óvinur Guðs, Satan djöfullinn, sem er „lyginnar faðir“. – Jóhannes 8:44; Títusarbréfið 1:2.
◼ Biblían kennir: „Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera.“ – Matteus 7:12.
Lærdómur: Við ættum að taka tillit til tilfinninga, skoðana og þarfa fjölskyldunnar og annarra í samfélaginu. Þegar við sýnum öðrum að við erum „samhuga“ þeim eru meiri líkur á að þeir komi vingjarnlega fram við okkur. – 1. Pétursbréf 3:8; Lúkas 6:38.
Þessi dæmi sýna að það sem læra má af Biblíunni getur hjálpað börnum að verða þakklátir, kurteisir og umhyggjusamir einstaklingar. En hver á að kenna börnunum þetta?