Apókrýf guðspjöll — opinbera þau áður óþekkt sannindi um Jesú?
Apókrýf guðspjöll — opinbera þau áður óþekkt sannindi um Jesú?
„ÞETTA er meiri háttar fundur. Margir eiga eftir að komast í uppnám.“ „Þetta breytir allri sögu frumkristninnar.“ Þessar hástemmdu fullyrðingar voru hafðar eftir fræðimönnum sem fögnuðu útgáfu „Júdasarguðspjalls“, handrits sem talið var týnt í meira en 16 aldir (sjá mynd að ofan).
Á undanförnum árum hefur áhugi manna á svokölluðum apókrýfum guðspjöllum farið vaxandi. Sumir halda því fram að þau svipti hulunni af merkum atburðum í lífi Jesú og kenningum hans sem lengi hafi verið haldið leyndum. En hvað eru apókrýf guðspjöll? Hafa þau að geyma traustar upplýsingar um Jesú og kristna trú sem hvergi er hægt að finna í Biblíunni?
Viðurkennd guðspjöll og apókrýf guðspjöll
Á árunum 41 til 98 færðu Matteus, Markús, Lúkas og Jóhannes í letur nákvæma sögu Jesú Krists. Þessar frásagnir eru stundum kallaðar guðspjöll sem þýðir ,góð tíðindi‘, það er að segja um Jesú Krist. – Markús 1:1.
Enda þótt munnmæli og aðrar ritaðar heimildir hafi verið til um Jesú eru þessi fjögur guðspjöll þau einu sem talin eru innblásin af Guði og verðug þess að tilheyra Heilagri ritningu. Þau hafa að geyma „sannindi þeirra frásagna“ sem fjalla um líf og kennslu Jesú hér á jörð. (Lúkas 1:1-4; Postulasagan 1:1, 2; 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Í öllum fornum skrám um bækur Grísku ritninganna eru þessi fjögur guðspjöll nefnd. Það er engin ástæða til að efast um að þau tilheyri orði Guðs með réttu.
Með tímanum komu hins vegar fram á sjónarsviðið önnur ritverk sem sumir töldu vera guðspjöll. Þau voru kölluð apókrýf guðspjöll. *
Undir lok annarrar aldar skrifaði Írenaeus í Lyon að þeir sem hefðu afneitað kristinni trú hefðu í fórum sínum „fjöldann allan af apókrýfum og fölsuðum handritum“, þar með talið guðspjöll sem „þeir hefðu sjálfir falsað til að villa um fyrir fáfróðum mönnum“. Með tímanum var því ekki aðeins talið hættulegt að lesa apókrýf guðspjöll heldur líka að eiga þau.
En munkar og afritarar á miðöldum komu í veg fyrir að þessi rit glötuðust með öllu. Á 19. öld kviknaði síðan mikill áhugi á þessum ritum. Mörg handritasöfn og sérstakar útgáfur fræðimanna af apókrýfum ritum, þar með talið nokkrum guðspjöllum, litu dagsins ljós. Nú á dögum hafa þau verið gefin út á mörgum helstu tungumálum veraldar.
Apókrýf guðspjöll – fjarstæðukenndar frásögur um Jesú
Í apókrýfu guðspjöllunum er athyglinni beint að fólki sem sjaldan eða aldrei er minnst á í viðurkenndum guðspjöllum Biblíunnar. Í þeim er líka sagt frá atburðum sem fullyrt er að hafi átt sér stað þegar Jesús var ungur. Lítum á nokkur dæmi.
◼ Í „Bernskuguðspjalli Jakobs“, einnig nefnt „Fæðing Maríu“, er fjallað um fæðingu og uppvaxtarár Maríu og samband hennar við Jósef. Það er ekki að ástæðulausu að það hefur verið kallað trúarskáldskapur og goðsaga. Það ýtir undir þá kenningu að María hafi ávallt verið mey og hefur augljóslega verið skrifað í þeim tilgangi að upphefja hana. – Matteus 1:24, 25; 13:55, 56.
◼ Í „Bernskuguðspjalli Tómasar“ er athyglinni beint að bernsku Jesú frá 5 til 12 ára og því haldið fram að hann hafi unnið mörg fjarstæðukennd kraftaverk. (Sjá Jóhannes 2:11.) Jesú er lýst sem óþekkum, skapbráðum og hefnigjörnum strák sem notfærir sér kraftaverkagáfur sínar til að ná sér niðri á kennurum, nágrönnum og öðrum börnum sem hann sum hver blindar, limlestir eða jafnvel myrðir.
◼ Í sumum apókrýfum guðspjöllum, eins og „Pétursguðspjalli“, er sagt frá atburðum sem tengjast réttarhöldunum yfir Jesú, dauða hans og upprisu. Í öðrum þeirra, eins og „Gjörðabók Pílatusar“ sem er hluti af „Nikódemusarguðspjalli“, er talað um fólk sem tengist þessum atburðum. Í þessum ritum koma oft fram fráleitar fullyrðingar og jafnvel sagt frá fólki sem í raun var ekki til og því glata þau algerlega trúverðugleika sínum. Í „Pétursguðspjalli“ er gefið í skyn að Pontíus Pílatus hafi verið hafður fyrir rangri sök og þar er upprisu Jesú lýst með ævintýralegum hætti.
Apókrýf guðspjöll og fráhvarf frá kristni
Í desember 1945 voru nokkrir smábændur á ferð í grennd við bæinn Nag Hammadi í Suður-Egyptalandi og fundu þar 13 papýrusrit sem höfðu að geyma 52 handritatexta. Þessi rit eru frá fjórðu öld og hafa verið kennd við trúar- og heimspekistefnu sem kallaðist gnóstíkastefna. Þessi stefna byggðist á hugmyndum teknum úr dulspeki, heiðni, grískri heimspeki, gyðingatrú og kristni og hafði spillandi áhrif á suma sem játuðu kristna trú. – 1. Tímóteusarbréf 6:20, 21.
Í „Tómasarguðspjalli“, „Filippusarguðspjalli“ og „Sannleiksguðspjallinu“, sem öll eru hluti af Nag Hammadi-handritunum, eru Jesú eignaðar ýmsar dulspekihugmyndir gnóstíka. „Júdasarguðspjall“, sem fannst fyrir nokkrum árum, telst einnig til hinna svokölluðu gnóstísku guðspjalla. Í því er brugðið upp þeirri fögru mynd af Júdasi að hann hafi verið eini postulinn sem skildi í raun og veru hver Jesús var. Einn sérfræðingur, sem hefur rannsakað „Júdasarguðspjall“, segir það lýsa Jesú á þann veg að hann hafi „verið kennari og miðlað visku og þekkingu, en ekki verið frelsari sem dó fyrir syndir heimsins“. Í innblásnu guðspjöllunum er kennt að Jesús hafi dáið fórnardauða fyrir syndir heimsins. (Matteus 20:28; 26:28; 1. Jóhannesarbréf 2:1, 2) Það er því deginum ljósara að gnóstísku guðspjöllunum er ætlað að grafa undan trú fólks á Biblíunni en ekki styrkja hana. – Postulasagan 20:30.
Yfirburðir viðurkenndu guðspjallanna
Ítarleg rannsókn á apókrýfum guðspjöllum leiðir í ljós að þau eru óáreiðanlegar heimildir. Þegar þau eru borin saman við viðurkenndu guðspjöllin sést glöggt að þau eru ekki innblásin af Guði. (2. Tímóteusarbréf 1:13) Þau voru skrifuð af fólki sem þekkti hvorki Jesú né postula hans og opinbera þar af leiðandi engin áður óþekkt sannindi um Jesú eða kristna trú. Þau hafa hins vegar að geyma ónákvæmar, uppspunnar og ævintýralegar frásögur. Þeir sem vilja kynnast Jesú og kenningum hans hafa því ekkert gagn af þeim. – 1. Tímóteusarbréf 4:1, 2.
Matteus og Jóhannes voru aftur á móti í hópi postulanna 12 og Markús og Lúkas störfuðu náið með postulunum Páli og Pétri. Þeir skrifuðu guðspjöll sín undir leiðsögn heilags anda Guðs. (2. Tímóteusarbréf 3:14-17) Guðspjöllin fjögur hafa því að geyma allt sem þarf til að hægt sé að trúa því að „Jesús sé Kristur, sonur Guðs“. – Jóhannes 20:31.
[Neðanmáls]
^ gr. 7 Orðið „apókrýfur“ er dregið af grísku orði sem merkir „að hylja“. Til að byrja með var þetta orð notað um texta sem einungis var ætlaður áhangendum ákveðinnar hugmyndastefnu og var hulinn þeim sem ekki tilheyrðu þeim hópi. Er fram liðu stundir var farið að nota orðið um þau ritverk sem ekki voru hluti af áreiðanlegu helgiritasafni Biblíunnar.
[Rétthafi myndar á bls. 26]
Kenneth Garrett/National Geographic Stock