Lesendur Spyrja . . .
Hvers vegna áttu þjónar Guðs aðeins að giftast fólki sömu trúar?
▪ Í lögunum, sem Guð gaf Ísraelsþjóðinni, var meðal annars þetta ákvæði varðandi nágrannaþjóðir þeirra: „Ekki mægjast við þær. Þú skalt hvorki gefa dætur þínar sonum þeirra né taka dætur þeirra til handa sonum þínum.“ (5. Mósebók 7:3, 4) Hver var ástæðan fyrir slíku banni?
Jehóva vissi að Satan vildi spilla þjóðinni og snúa henni til falsguðadýrkunar. Jehóva sagði hvað myndi gerast ef þeir mægðust trúleysingjum: „Það mundi snúa sonum þínum frá fylgd við mig svo að þeir færu að þjóna öðrum guðum.“ Mikið var því í húfi. Ef Ísraelsþjóðin færi að dýrka aðra guði myndi hún missa velþóknun Guðs og vernd hans og yrði auðveld bráð fyrir óvini sína. Hvernig gæti hinn fyrirheitni Messías þá komið úr þeirra röðum? Satan hafði greinilega ástæðu til að tæla Ísraelsmenn til að giftast þeim sem voru ekki sömu trúar og þeir sjálfir.
Við skulum þó hafa hugfast að Guði þótti vænt um þjóna sína sem einstaklinga. Hann vissi að hamingja og velferð þeirra hvers og eins var undir því komin að þeir ættu gott samband við hann. Hafði Jehóva einhverja ástæðu til að hafa áhyggjur af því að þjónar hans giftust fólki sem játaði aðra trú? Lítum á frásöguna af Salómon. Hann þekkti viðvörunina um að taka sér eiginkonur sem voru annarrar trúar: „Þær munu áreiðanlega snúa hjarta ykkar til guða sinna.“ Þar sem hann bjó yfir óviðjafnanlegri visku fannst honum kannski eins og hann væri yfir það hafinn að hlusta á leiðbeiningar Guðs og að þær ættu ekki við um hann. Hann hunsaði þær. Hvaða afleiðingar hafði það? Smám saman „sneru konurnar hjarta hans til annarra guða“. Hvílík ógæfa. Salómon missti velþóknun Jehóva og þjóðin klofnaði vegna ótrúmennsku hans. – 1. Konungabók 11:2-4, 9-13.
Einhverjir gætu þó sagt að til væru undantekningar frá reglunni. Til dæmis giftist Ísraelsmaðurinn Mahlón móabísku konunni Rut og hún tók trú og varð dyggur þjónn Guðs. En að giftast móabískri konu gat verið áhættusamt. Mahlón er ekki hrósað fyrir að giftast móabískri stúlku. Hann dó ungur, líklega áður en Rut varð þjónn Jehóva Guðs. Kiljón, bróðir Mahlóns, kvæntist móabítanum Orpu sem hélt fast í,guð sinn‘. Bóas giftist hins vegar Rut dágóðum tíma eftir að hún tók trú. Í augum Gyðinga var hún seinna álitin „hinn fullkomni trúskiptingur“. Brúðkaup þeirra Bóasar og Rutar varð þeim báðum til blessunar. – Rutarbók 1:4, 5, 15-17; 4:13-17.
Er þá skynsamlegt að halda því fram að frásaga eins og þessi af Mahlón og Rut stangist með einhverjum hætti á við þau ákvæði Jehóva að giftast aðeins fólki sömu trúar? Væri það ekki svipað og að benda á fjárhættuspilara sem hefur dottið í lukkupottinn og halda því svo fram að fjárhættuspil sé bara góð leið til að afla sér viðurværis?
Biblían hvetur kristna menn til að giftast aðeins þeim sem eru í trúnni. Hún varar okkur við að ,draga ok með vantrúuðum‘. Slíkum viðvörunum er beint til sannkristins fólks sem er að leita sér að maka. Þeir sem eiga nú þegar maka sem er annarrar trúar fá leiðbeiningar frá Biblíunni um hvernig best sé að takast á við það. (1. Korintubréf 7:12-16, 39; 2. Korintubréf 6:14) Öll slík ráð sýna að Jehóva, höfundur hjónabandsins, vill að við séum glaðir þjónar sínir hvort sem við erum einhleyp eða gift.