Munt þú treysta Guði?
ÍMYNDAÐU þér að þú eigir vin sem þú lítur upp til en hann gerir eitthvað sem þú átt erfitt með að skilja. Fólk gagnrýnir verk hans, dregur hvatir hans í efa og segir að hann sé grimmur. Værir þú fljótur að taka sömu afstöðu eða myndir þú bíða og heyra hans hlið á málinu? En hvað ef hann væri nú ekki til staðar til að svara fyrir sig? Myndir þú sýna þolinmæði og leyfa honum að njóta vafans?
Áður en þú tækir afstöðu myndirðu eflaust vilja vita meira. Þú gætir ef til vill hugsað með þér: ,Hversu vel þekki ég vin minn og hvaða ástæðu hef ég fyrir því að líta upp til hans?‘ Hugleiddu þá þetta: Getum við ekki notað svipaða aðferð til að fá svar við spurningunni hvort Guð sé grimmur?
Þú átt kannski erfitt með að átta þig á sumu af því sem Guð hefur gert eða þig undrar aðgerðarleysi hans. Fjöldi fólks er eflaust tilbúinn til að segja þér að Guð sé grimmur og reyna að fá þig til að efast um hvatir hans. Ætlar þú þá að láta Guð njóta vafans þangað til þú veist meira um málið? Svarið við þeirri spurningu ræðst ef til vill af því hversu vel þú þekkir hann. Spyrðu þig: ,Hvernig hefur Guð verið mér góður?‘
Ef þú hefur átt erfitt líf væri kannski freistandi að segja að Guð hafi ekkert gert fyrir þig, en hugsaðu málið stundarkorn. Er ekki allt það góða í lífi þínu Guði að þakka frekar en að erfiðleikarnir séu honum að kenna? Eins og fram hefur komið er Satan ,höfðingi þessa heims‘ en ekki Jehóva. (Jóhannes 12:31) Satan stendur því að baki megninu af þjáningunum og óréttlætinu í heiminum. Ertu ekki líka sammála því að ófullkomleiki okkar og ófyrirsjáanlegar aðstæður eru kveikjan að mörgum vandamálum sem við þurfum að kljást við?
En hverju hefur Guð þá komið til leiðar? Hugleiddu þetta: Biblían segir að Guð sé ,skapari himins og jarðar‘, að líkami okkar, sem er hluti af sköpunarverki hans, sé „undursamlega skapaður“, og að Jehóva sé „Guð sem ræður lífsanda þínum“. (Sálmur 124:8; 139:14; Daníel 5:23) En hvað þýðir allt þetta?
Þetta þýðir að tilvist okkar er skaparanum að þakka því að hann hefur gefið okkur lífsandann. (Postulasagan 17:28) Það merkir að líf okkar, náttúrufegurðin í kringum okkur, kærleikur og vinátta eru allt gjafir frá Guði. Það sama má segja um bragðlauka okkar, lyktarskyn, snertiskyn og heyrn. (Jakobsbréfið 1:17) Ertu ekki sammála því að allar þessar blessanir geri hann að nánum vini sem eigi skilið virðingu okkar og traust?
Þér gæti þó fundist erfitt að treysta Guði. Kannski finnst þér þú ekki þekkja hann nógu vel til að geta treyst honum. Það er vel skiljanlegt. Í þessum stuttu greinum getum við ekki farið í saumana á öllum ástæðum þess að fólki finnist Guð grimmur. En væri það ekki þess virði að kynnast Guði betur? * Ef þú gerir það erum við viss um að þú eigir eftir að læra sannleikann um Guð. Er hann í raun grimmur? Nei, þvert á móti: „Guð er kærleikur.“ – 1. Jóhannesarbréf 4:8.
^ gr. 8 Í 11. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían? er fjallað nánar um af hverju Guð leyfi illsku. Bókin er gefin út af Vottum Jehóva.
Er ekki allt það góða í lífi þínu Guði að þakka frekar en að erfiðleikarnir séu honum að kenna?