„Þú getur brotið eir úr fjöllunum“
Fornleifafræðingar voru að rannsaka gljúfur og hella í eyðimörk Júdeu og gengu fram á helli í þverhníptu bjargi. Áttu þeir eftir að finna eitthvað verðmætt í hellinum, kannski forna gripi eða handrit í líkingu við Dauðahafshandritin? Sér til mikillar undrunar fundu þeir heilan fjársjóð sem var síðar nefndur Nahal Mishmar-fjársjóðurinn.
ÞESSI fjársjóður fannst í mars árið 1961. Hann var vafinn inn í reyrmottu sem hafði verið falin í sprungu. Í honum voru rúmlega 400 gripir sem flestir voru úr eir, öðru nafni kopar. Þar mátti meðal annars finna kórónur, veldissprota, verkfæri, sem og kylfur og önnur vopn. Þessi fundur var sérlega áhugaverður fyrir þá sem lesa Biblíuna því að í 1. Mósebók 4:22 segir frá Túbal-Kain sem „smíðaði hvers kyns verkfæri úr eir og járni“.
Mörgum spurningum er enn ósvarað um sögu og uppruna fjársjóðsins. Fundurinn sýnir þó fram á að frá ómunatíð hefur eir verið grafinn úr jörð, bræddur og notaður til smíða á söguslóðum Biblíunnar.
EIRNÁMUR Í FYRIRHEITNA LANDINU
Þegar Ísraelsmenn voru í þann mund að ganga inn í fyrirheitna landið sagði Móse þeim að þeir gætu „brotið eir úr fjöllunum“ í landinu. (5. Mósebók 8:7-9) Fornleifafræðingar hafa fundið gömul námu- og bræðslusvæði í Ísrael og Jórdaníu. Þar má nefna Feinan, Timna og Khirbat en-Nahas. Hvað leiða þessir fundir í ljós?
Í Feinan og Timna er að finna ótal grunnar gryfjur þar sem grafið var eftir eir í að minnsta kosti 2.000 ár. Enn þann dag í dag má finna hér og þar um svæðið grænleit steinbrot sem innihalda eir. Námumenn til forna unnu hörðum höndum að því að höggva í bergið með steinverkfærum til að ná eirnum úr æðunum sem þeir sáu. Þegar allur eir var úr æðinni grófu þeir dýpra með járnverkfærum og hjuggu djúp námugöng. Í Jobsbók í Biblíunni er að finna lýsingu á slíkum námugreftri. (Jobsbók 28:2-11) Þetta var erfiðisvinna og á þriðju til fimmtu öld e.Kr. dæmdu rómversk yfirvöld forherta glæpamenn og aðra fanga til að vinna í eirnámunum í Feinan.
Í Khirbat en-Nahas (nafnið merkir „eirrústir“) er að finna mikla hauga af eirgjalli sem bendir til þess að þar hafi verið stunduð eirbræðsla í stórum stíl. Fræðimenn telja að málmgrýti hafi verið flutt þangað frá nærliggjandi námum eins og
Feinan og Timna. Eirinn var unninn úr málmgrýtinu með því að hita það upp í 1.200 gráður í átta til tíu tíma. Til að ná þessum hita voru notuð viðarkol og blásið í loftrör eða stignir smiðjubelgir. Að jafnaði fékkst 1 kíló af eir úr 5 kílóum af málmgrýti sem síðan mátti nota til að smíða ýmiss konar hluti.NOTKUN EIRS Í ÍSRAEL TIL FORNA
Jehóva Guð sagði Ísraelsmönnum við Sínaífjall að þeir skyldu nota þennan rauðbrúna málm við gerð tjaldbúðarinnar. Seinna meir var hann einnig notaður við byggingu musterisins í Jerúsalem. (2. Mósebók 27. kafli) Annaðhvort hafa Ísraelsmenn búið yfir þekkingu á málmsmíði áður en þeir fóru til Egyptalands eða lært hana þar. Að minnsta kosti gátu þeir steypt styttu af kálfi rétt eftir að þeir yfirgáfu Egyptaland. Þeir gátu líka búið til alls konar hluti og áhöld sem þeir þurftu á að halda við þjónustuna í tjaldbúðinni, eins og til dæmis stórt ker, potta, pönnur, skóflur og gaffla. – 2. Mósebók 32:4.
Síðar á eyðimerkurgöngunni kvörtuðu Ísraelsmenn yfir vatnsskorti og himnabrauðinu manna. Það kann að hafa verið í námunda við Fúnón (líklega þar sem nú heitir Feinan) en svæðið var auðugt af eir. Jehóva refsaði þeim með því að senda eitraða höggorma gegn þeim og margir létu lífið. Eftir að Ísraelsmenn sáu að sér talaði Móse máli þeirra og Jehóva sagði honum að gera eirorm og setja hann á stöng. Í Biblíunni segir: „Þegar höggormur beit mann og maðurinn horfði til eirormsins hélt hann lífi.“ – 4. Mósebók 21:4-10; 33:43.
EIR SALÓMONS KONUNGS
Salómon konungur notaði ókjör af eir þegar musterið í Jerúsalem var byggt. Mikið af eirnum hafði Davíð, faðir hans, tekið sem herfang í Sýrlandi. (1. Kroníkubók 18:6-8) Í musterinu var stórt ker úr eir, sem kallað var „hafið“, og prestarnir þvoðu sér upp úr því. Það rúmaði 66.000 lítra af vatni og vó líklega allt að 30 tonn. (1. Konungabók 7:23-26, 44-46) Við inngang musterisins voru tvær feiknamiklar súlur úr eir. Þær voru 8 metra háar og ofan á þeim voru rúmlega tveggja metra há súluhöfuð. Súlurnar voru 1,7 metrar að þvermáli og holar að innan en súluveggirnir voru 7,5 sentímetrar að þykkt. (1. Konungabók 7:15, 16; 2. Kroníkubók 4:17) Það er ótrúlegt til þess að hugsa hve mikill eir var notaður í gerð þessara hluta.
Eir var notaður til margra hluta á biblíutímanum. Við lesum um vopn, fjötra, hljóðfæri og hlið sem smíðuð voru úr eir. (1. Samúelsbók 17:5, 6; 2. Konungabók 25:7, Biblían 1981; 1. Kroníkubók 15:19; Sálmur 107:16) Jesús talaði um eirpeninga og Páll postuli minntist á Alexander koparsmið. – Matteus 10:9; 2. Tímóteusarbréf 4:14.
Mörgum spurningum fornleifa- og sagnfræðinga er enn ósvarað, eins og um uppruna eirsins á biblíutímanum og um Nahal Mishmar-fjársjóðinn. Hitt liggur þó fyrir, eins og fram kemur í Biblíunni, að landið sem Ísraelsmenn fengu að gjöf var „gott land“ þar sem þeir gátu „brotið eir úr fjöllunum“. – 5. Mósebók 8:7-9.