Vissir þú?
Hvert var hlutverk hundraðshöfðingja í rómverska hernum?
Í Grísku ritningunum er nokkrum sinnum talað um rómverska hundraðshöfðingja. Hershöfðinginn, sem sá um aftöku Jesú, gegndi þeirri stöðu og einnig Kornelíus, fyrsti heiðinginn sem snerist til kristinnar trúar. Herforinginn, sem sá um að Páll postuli væri húðstrýktur, og Júlíus, sem fylgdi Páli til Rómar, voru einnig hundraðshöfðingjar. – Markús 15:39; Postulasagan 10:1; 22:25; 27:1.
Hundraðshöfðingi var oftast nær yfirmaður herdeildar sem í voru 50-100 fótgönguliðar. Hann sá meðal annars um að þjálfa hermenn sína og aga þá, yfirfara búninga þeirra og útbúnað og stjórna þeim í bardaga.
Staða hundraðshöfðingja var sú æðsta sem óbreyttur hermaður gat fengið. Þeir sem gegndu þessari stöðu voru þrautþjálfaðir hermenn og þurftu að vera góðir leiðtogar. Það var undir þeim komið að halda uppi aga og góðri skipulagningu í hinum öfluga her Rómverja. Samkvæmt einni heimild voru hundraðshöfðingjar „oft reyndustu mennirnir innan hersins og afar vel upplýstir um allt sem tengdist hernaðinum“.
Hvernig voru speglar á biblíutímanum í samanburði við spegla nú á dögum?
Nú á dögum eru speglar gerðir úr gleri en á biblíutímanum voru þeir vanalega búnir til úr gljáfægðum málmi. Oftast voru þeir búnir til úr bronsi en hugsanlega einnig úr kopar, silfri eða gulli eða málmblöndu úr silfri og gulli. Í Biblíunni er fyrst minnst á spegla þegar sagt er frá gerð tjaldbúðarinnar en þangað fóru Ísraelsmenn til að tilbiðja Guð áður en musterið var byggt. Konur gáfu spegla sína til verksins svo að hægt væri að búa til úr þeim heilagt eirker og eirstétt undir kerið. (2. Mósebók 38:8) Speglarnir hafa eflaust verið bræddir til þessara nota.
Þegar fornleifafræðingar hafa fundið spegla við fornleifauppgröft í Ísrael og nágrenni hafa þeir einnig fundið skartgripi og aðra skrautmuni sem konur notuðu. Speglarnir voru yfirleitt hringlaga með handfangi úr tré, málmi eða fílabeini. Handfangið var oft í laginu eins og kona. Bakhlið spegilsins var ófægð og yfirleitt óskreytt.
Speglunin í þessum fornu speglum var lítil miðað við spegla eins og við þekkjum þá í dag. Það skýrir líklega það sem Páll postuli átti við þegar hann sagði: „Nú sjáum við óskýra mynd líkt og í málmspegli.“ – 1. Korintubréf 13:12, New World Translation.