Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

FORSÍÐUEFNI

Hvernig lítur Guð á stríð?

Hvernig lítur Guð á stríð?

Hvernig myndir þú svara þessari spurningu? Margir telja að Guð leggi blessun sína yfir stríð. Þeir hugsa að fyrst Guð hafi fyrirskipað tilbiðjendum sínum fyrr á tímum að taka þátt í stríðum, eins og frásögur Biblíunnar staðfesta, hljóti hann að hafa velþóknun á þeim. Aðrir benda á að Jesús, sonur Guðs, hafi kennt fylgjendum sínum að elska óvini sína. (Matteus 5:43, 44) Þeir álykta því sem svo að á einhverjum tímapunkti hafi viðhorf Guðs til styrjalda breyst og að nú hafi hann vanþóknun á þeim.

Hvað heldur þú? Styður Guð hernað? Ef svo er, með hverjum tekur hann þá afstöðu í styrjöldum nú á dögum? Svarið við þessum spurningum gæti breytt afstöðu þinni til stríðs. Ef þú vissir til dæmis að Guð legði blessun sína yfir tiltekið stríð og styddi sömu aðila og þú, værirðu líklega sáttur við afstöðu þína og öruggur um sigur. Hvernig liði þér hins vegar ef þú kæmist að því að Guð styður hinn aðilann? Líklega myndirðu endurskoða afstöðu þína til málsins.

En annað og meira er í húfi. Það getur haft áhrif á viðhorf þitt til Guðs að vita hvernig hann lítur á stríð. Ef þú tilheyrir þeim gríðarlega fjölda sem hefur upplifað þjáningar og sársauka vegna styrjalda manna þarftu án efa að fá eftirfarandi spurningum svarað: Hvetur Guð til stríðsátaka eins og sumir telja? Leyfir hann eða stuðlar jafnvel að þeim þjáningum sem fylgja styrjöldum? Eða er hann aðgerðarlaus og stendur á sama um þá sem þjást?

Það kemur þér kannski á óvart að svör Biblíunnar eru býsna ólík þessum skoðunum. Þar að auki lítur Guð sömu augum á stríð núna og hann gerði áður. Skoðum nánar hvað Biblían segir um það hvernig Guð leit á stríð til forna og á fyrstu öldinni þegar Jesús var hér á jörð. Það hjálpar okkur að skilja hvernig Guð lítur á stríð nú til dags og hvort þau eigi eftir að fylgja mannkyninu um alla framtíð.