Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

FORSIÐUEFNI | HVERNIG LÍTUR GUÐ Á STRÍÐ?

Viðhorf Guðs til stríðs á fyrstu öld

Viðhorf Guðs til stríðs á fyrstu öld

Fólkið var kúgað og þjakað. Án efa báðu Gyðingar á fyrstu öld oft til Guðs um frelsun ekki síður en forfeður þeirra. Í þetta skipti voru þeir undir ánauð Rómaveldis. Þá heyrðu þeir fregnir af Jesú. Skyldi hann vera hinn fyrirheitni Messías? Eðlilega bundu margir vonir sínar við að „hann væri sá er leysa mundi Ísrael“ undan oki Rómverja. (Lúkas 24:21) En engin hjálp barst. Þess í stað réðust rómverskar hersveitir inn í Jerúsalem árið 70 e.Kr. og lögðu borgina og musterið í rúst.

Hvers vegna gerðist það? Af hverju barðist Guð ekki fyrir Gyðingana eins og hann hafði gert fyrr á tímum? Hvers vegna heimilaði hann þeim ekki að fara í stríð til að losna undan oki Rómverja? Hafði viðhorf Guðs til stríðs breyst? Nei. En viðhorf Guðs til Gyðinganna hafði breyst. Þeir höfðu hafnað því að Jesús, sonur Guðs, væri Messías. (Postulasagan 2:36) Ísraelsþjóðin glataði þar með sérstöku sambandi sínu við Guð. – Matteus 23:37, 38.

Guð verndaði ekki lengur Gyðingaþjóðina og fyrirheitna landið. Hún gat ekki framar með réttu talið sig hafa stuðning eða samþykki Guðs fyrir því að heyja stríð. Eins og Jesús hafði sagt fyrir var blessun Guðs og velþóknun hans færð frá Ísraelsþjóðinni yfir á nýja andlega þjóð sem síðar í Biblíunni er kölluð „Ísrael Guðs“. (Galatabréfið 6:16; Matteus 21:43) Söfnuður andasmurðra kristinna manna reyndist vera hin andlega þjóð Guðs. Þeim var sagt berum orðum á fyrstu öldinni: „Þið ... eruð nú orðin ,Guðs lýður‘.“ – 1. Pétursbréf 2:9, 10.

Barðist Guð fyrir kristna menn á fyrstu öld til að frelsa þá undan kúgun Rómverja fyrst þeir voru núna „Guðs lýður“? Eða heimilaði hann þeim að berjast gegn kúgurum sínum? Nei. Hvers vegna gerði hann það ekki? Þegar Guð segir að stríð skuli háð ákveður hann hvenær það skuli háð, eins og fram kom í greininni á undan. Guð barðist ekki fyrir kristna menn á fyrstu öld og heimilaði þeim ekki heldur að fara í stríð. Tími Guðs til að ráðast gegn illsku og kúgun var greinilega ekki runninn upp á fyrstu öld.

Líkt og þjónar Guðs til forna urðu kristnir menn á fyrstu öld að bíða þar til tími Guðs kæmi til að binda enda á illsku og kúgun. Þangað til höfðu þeir ekki leyfi til að ákveða upp á sitt eindæmi að fara í stríð gegn óvinum sínum. Jesús Kristur undirstrikaði þetta í kennslu sinni. Til dæmis hvatti hann fylgjendur sína aldrei til að taka þátt í hernaði heldur sagði við þá: „Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja yður.“ (Matteus 5:44) Hann sagði fyrir að rómverskar hersveitir myndu ráðast inn í Jerúsalem og að lærisveinar hans ættu að flýja en ekki að vera um kyrrt og berjast. Þeir hlýddu þessum fyrirmælum. – Lúkas 21:20, 21.

Þar að auki skrifaði Páll postuli undir innblæstri: „Leitið ekki hefnda sjálf ... eins og ritað er: ,Mín er hefndin, ég mun endurgjalda,‘ segir Drottinn.“ (Rómverjabréfið 12:19) Páll vitnaði þarna í orð Guðs sem rituð voru mörgum öldum áður í 3. Mósebók 19:18 og 5. Mósebók 32:35. Eins og fram kemur í greininni á undan hefndi Guð þjóna sinna til forna meðal annars með því að hjálpa þeim í stríðum gegn óvinum þeirra. Orð Páls sýna fram á að viðhorf Guðs til stríðs hafði ekki breyst. Á fyrstu öldinni leit Guð enn á stríð sem gilda leið til að hefna þjóna sinna og binda enda á alls kyns illsku og kúgun. En líkt og til forna ákvað Guð sjálfur hvenær stríð skyldu háð og hverjir tækju þátt í þeim.

Guð gaf kristnum mönnum á fyrstu öldinni augljóslega ekkert leyfi til að heyja stríð. En hvað um okkar tíma? Hefur Guð heimilað einhverjum hópi fólks nú á dögum að fara í stríð? Eða er tími Guðs runninn upp til að grípa inn í og heyja stríð fyrir þjóna sína? Hvernig lítur Guð á stríð nú á dögum? Síðasta greinin í þessari greinaröð svarar því.